Húsnæðismál

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 12:09:44 (8622)

2002-05-02 12:09:44# 127. lþ. 135.9 fundur 710. mál: #A húsnæðismál# (félagslegar íbúðir) frv. 86/2002, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[12:09]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. formanni félmn. fyrir að svara þessari spurningu. Að vísu skýrir hún ekki það sem ég var að kalla eftir, hvort hér væri staðnæmst við ákveðið viðmið varðandi tímalengdina í þessu efni en vísar í reiknilíkan sem hv. þm. nefnir að eigi setja reglugerð um. Ég geri ráð fyrir að við verðum þá að búa við það í þinginu að málin verði afgreidd með þeim hætti að þetta sé skilið eftir nokkuð opið en það er of mikið um það, herra forseti, í þinginu að ráðherrar fái tiltölulega opnar heimildir sem mér finnst þessi heimild að nokkru leyti vera. Ég hefði talið æskilegt að hv. félmn. hefði fengið þessa reglugerð til skoðunar eða umsagnar áður en hún yrði sett og væri fróðlegt að vita hvort hv. þm. eða þingnefndin hefði óskað eftir því að fá þá reglugerð til umsagnar eða skoðunar.

Eins vildi ég þá spyrja hv. þm. að hve miklu leyti nefndin fjallaði um það atriði sem ég gerði líka að umtalsefni í 1. gr., þ.e. þóknun til nefndarmanna sem er sett í ákvörðunarvald ráðherra, hvort nefndin telji ekki eðlilegra að taka þann kaleik af hæstv. ráðherra og setja í hendur þóknananefndar vegna þess að mér sýnist t.d. á skoðun og úttekt sem Ríkisendurskoðun hefur verið að gera á þessum málum að samræma þurfi miklu betur á milli ráðuneytanna hvernig háttað skuli greiðslum fyrir ýmis nefndarstörf og ráðgjafarstörf fyrir ráðuneytin þannig að það skapist ekki óeðlilegt misræmi þar á milli eða greiðslur séu óeðlilegar eða verið sé að greiða nefndarmönnum sem vinna á vegum ráðuneytanna sem taka laun samkvæmt Kjaradómi sem ekki á að greiða slíkar greiðslur. Ég held að við þurfum að setja þetta í fastari sess og þess vegna nefni ég þetta því að mér finnst ekki vera tekið á því í frv.