Húsnæðismál

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 12:13:53 (8624)

2002-05-02 12:13:53# 127. lþ. 135.9 fundur 710. mál: #A húsnæðismál# (félagslegar íbúðir) frv. 86/2002, RG
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[12:13]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég mun ekki þurfa langan tíma til að koma sjónarmiðum mínum að í umræðunni. Ég vil minna á að við 1. umr. málsins tók ég til máls og fór yfir þá hugmyndafræði jafnaðarmanna sem lá að baki því að fyrsta löggjöf var sett um húsnæðismál, um þá hugmyndafræði sem liggur því að baki að til séu félagsleg úrræði, ekki bara í húsnæðismálum heldur almennt, hversu mikilvægt það er að vera með mismunandi kosti í húsnæðismálum sem falla að ólíkum kjörum fólks. Þannig höfðum við jafnaðarmenn reynt að vinna þessi mál og tryggja að slíkir kostir væru til staðar en það er búið að breyta því. Við stöndum frammi fyrir sértöku máli sem byggir á að búið er að leggja af félagslega kerfið. Við erum með lög núna um viðbótarlán. Þau lög voru gölluð. Ég minni á að við þingmenn Samfylkingarinnar bentum á þá galla á sínum tíma og á það var ekki hlustað. Núna er aðalmálið að lagfæra þau lög og styðja úrbætur. Þetta er ekki okkar leið en við völdum hana og lýstum því yfir þegar þetta mál kom inn í þingið að við mundum líta á það þannig að við vildum ekki taka þátt í því að mismuna fólki eins og lögin gerðu og við mundum að þessu sinni gera það besta úr lögunum sem eru í gildi.

[12:15]

Svo var komið að ekki var hægt að skipta lengur innan kerfisins. Það var lapsus í lögunum þannig að t.d. þeir sem höfðu átt íbúð í 20 ár máttu ekki selja hana á frjálsum markaði. Maður í sama stigagangi sem hafði átt hana í 10 ár mátti hins vegar selja á frjálsum markaði. Svona gerir maður ekki. Eftir því hefur verið kallað að þessir hlutir verði lagfærðir.

Þannig höfum við í Samfylkingunni horft á þessi mál. Ég vek athygli á því að málið er afgreitt samhljóða út úr félmn. og fulltrúi Samfylkingarinnar í nefndinni, Ásta R. Jóhannesdóttir, styður það þó með fyrirvara sé. Þingmaður Samfylkingarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir, hefur lýst vinnubrögðum og vandræðagangi, t.d. með útfærslu vaxta og stofnstyrkja. Þau mál eru ekki enn þá leyst. Ég hef heldur engu við það að bæta sem hún hefur sagt þar. Ég tek undir það og þær fyrirspurnir sem komið hafa fram í máli hennar um að ríkisvaldið hafi tekið mikilvægt mál úr höndum nefndar á vegum ríkis og sveitarfélaga. Það er vont að heyra um þannig vinnulag í þýðingarmiklum málum.

Það er líka ágætt að ræða fleira sem snertir húsnæðismálin í svona umræðu en við erum ekki að taka afstöðu til þeirra hér. Ég undirstrika að sú afstaða mín að styðja þetta mál við atkvæðagreiðslu við 2. umr. einskorðast við málið sem liggur fyrir framan mig. Það er ekki leiðin sem ég vildi fara hefði ég verið í stól hæstv. félmrh. Auðvitað hlýt ég að furða mig á því ef sveitarfélögin hafa samþykkt að lögfest yrðu ákvæði á grundvelli undirritaðs samkomulags og þetta samkomulag er aðeins hluti aðgerða sem þarf að hrinda í framkvæmd og það vantar allt sem við á að eta. Það kemur mjög á óvart þegar hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir lýsir því hve skammt er gengið og hve mikið þarf til. Það er óþægilegt, fyrir þá sem horfa á vandann eins og hann er núna og styðja breytingar vegna vandans og horfa bæði til sveitarfélaganna sem eru í vanda alveg óháð því hvort hann er sjálfsprottinn eða af annarra hvötum eins og ég gerði ágætlega skil við 1. umr. málsins, ef einhverjir annmarkar eru á samkomulaginu sem birt er sem fylgiskjal í nefndaráliti.

Ég verð að segja, herra forseti, að fyrir mig sem er í stjórnarandstöðu og rétti upp hönd með þessu máli á grundvelli upplýsinga sem hér liggja fyrir er ekki ásættanlegt ef fram koma upplýsingar við 3. umr. málsins um að samkomulagið sé einhvern veginn ófullnægjandi. Ég geri mér alveg grein fyrir því að við getum lítil áhrif haft á þær fjárhæðir sem fyrir liggja í samkomulaginu sem birtist hér sem fylgiskjal með nefndarálitinu. Við í stjórnarandstöðunni ráðum heldur engu um þann samning sem hefur verið gerður milli Sambands sveitarfélaga, hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh. Við horfum bara á þegar borið er inn í þingið lagafrv. sem byggir á samkomulagi sem ríki og sveitarfélög hafa náð samstöðu um og undirritað. Þetta mál snýst hvað mig varðar ekki um það hvort ég tel nægja að leggja fram það sem nýta á í niðurgreiðslu áhvílandi lána við sölu félagslegra íbúða eða leiguíbúða á almennum markaði. Þetta snýst ekki um það hvort mér finnist nægjanlegt að 70 millj. verði árlega varið til fimm ára verkefnis vegna sveitarfélaga sem glíma við rekstrarvanda vegna félagslegs húsnæðis. Málið snýst ekki um hvort það er nóg að ríkissjóður greiði árlega í fimm ár þessi framlög sem um ræðir hér í þriðja lið samkomulagsins. Það snýst ekki um það.

Ég hef hugmyndir um hvaða fjármuni þurfi í þetta dæmi en málið sem ég er að afgreiða hér snýst ekki um það. Ég vil undirstrika það til að það sé alveg ljóst, að ekki verði litið svo á að ég sé þar með að samþykkja eitthvað sem ekki liggur fyrir.

Herra forseti. Mér finnst mjög mikilvægt að benda á fleira í sambandi við þetta mál. Í þessum sal hafa verið haldnar margar ræður um stöðu félagslegs húsnæðis, sérstaklega úti á landi, samanborið við stöðu húsnæðis annars staðar í sveitarfélaginu. Meginatriðið er að fólk hefur kannski fengið lóð og byggt íbúð eða hús og notað meira eða minna af afrakstri ævistarfsins í þetta hús. Einn góðan veðurdag haga aðstæður því svo að viðkomandi þarf að flytja úr plássinu. Hann vill selja húsið og fær bara brot af verðgildi þess til baka. Hvað þýðir það? Jú, það þýðir að viðkomandi skilur stóran hluta ævistarfsins eftir heima í héraði. Hann getur ekki notið ævistarfsins. Hann lagði fé sitt í eitthvað sem hélt ekki verðgildi sínu.

Í hinu tilfellinu hefði fólk fengið nýbyggðar íbúðir í hendur í félagslega kerfinu, borgað lítinn hluta, stundum engan og með lán til kannski 40 eða 42 ára. Þegar fólk hefur búið í þessum íbúðum í einhver ár er íbúðin leyst inn, hún heldur verðgildi sínu því verðgildi íbúðarinnar liggur í þeim lánum sem þar eru, hinum ógreidda kostnaði. Fólkið hefur fengið hlutinn sinn greiddan, oft mjög lítið, en það átti líka lítið. Það er ekki laust við að í umræðunni í gegnum árin hafi myndast spenna varðandi það að þeir sem áttu lítinn hlut í félagslegri eignaríbúð fengu hann út en hinir misstu sitt.

Þá skulum við gera okkur grein fyrir því sem nú liggur fyrir. Þegar nýja kerfið sem þessi stjórnarmeirihluti hefur smíðað verður komið á fullt skrið, verðum við með fólk í félagslegu húsnæði sem fengið hefur viðbótarlán og er með íbúð sem hefur verið keypt á tilskildu verði með fullum lánum. Það mun selja þá íbúð og hún hefur misst verðgildi frá kauptímanum og þá mun nýi eigandinn tapa peningunum sínum alveg eins og sá sem byggði húsið við hliðina með frjálsum lánum. Við skulum vera meðvituð um hvernig kerfi við erum að búa til. Hafi hitt verið mismunandi að því leyti að sá sem var í félagslegu húsnæði fékk litla eignarhlutinn sinn greiddan út og íbúðin hélt allt of háu verðgildi er a.m.k. búið að tryggja það núna að allir missa sitt í húsnæði sem tapar verðgildi sínu. Það er réttlætið sem búið er að skapa með þessum lögum sem stjórnarmeirihlutinn hefur sett. Það blasir við.

Við í Samfylkingunni erum í þessu máli ekki að taka afstöðu til þess. Við smíðuðum ekki þessi lög. Við gagnrýndum þau málefnalega og sú málefnalega gagnrýni átti rétt á sér en núna eru þessi lög í gildi. Fólkið sem býr við þau hefur hagað málum sínum í samræmi við þau. Við erum að tryggja að þau lög virki eins og best verður á kosið. Þess vegna, herra forseti, undirstrika ég að ég tek afstöðu til þessa máls á þeim grundvelli.

Mig langar hins vegar, í stuttri ræðu minni, að rifja annað upp þó ég ætli ekki, við 3. umr. málsins og e.t.v. á síðasta degi þingsins, að leggjast í langa ræðu um húsnæðismál og mistök stjórnarmeirihlutans. Ég get samt ekki annað en minnt á að þegar Húsnæðisstofnun ríkisins var breytt í Íbúðalánasjóð og tækifærið notað til að losa sig við allt það hæfa fólk sem þá starfaði í stofnuninni og byrja upp á nýtt var lagt mjög mikið upp úr því að fara ætti nýjar leiðir og sparnaður yrði af því að búa til nýja stofnun. Það átti að spara a.m.k. 100 millj. á ári. Á þeim tíma kostaði Húsnæðisstofnun um það bil 500 millj. Á þeim tíma sem þessar breytingar voru gerðar, árið 1999, fór kostnaðurinn hátt í 800 millj. kr. Því var þá kennt um að þetta væri hin mikla breyting sem kallaði á umfangsmiklar aðgerðir sem kostuðu peninga.

Nú liggur fyrir í reikningum stofnunarinnar að á síðasta ári kostaði Íbúðalánasjóður hvorki meira né minna en 688 millj. kr. Ég skila þessu til baka til hæstv. félmrh. Eitt er að segja hlutina og annað að sýna fram á að breytingar þær sem maður hefur gert hafi skilað því sem þær áttu að skila. Það sem þessi breyting skilaði var að skipta um fólk. Ég hef allan tímann verið mjög meðvituð um hverjir voru sendir út og hverjir komu inn. Varðandi kostnaðinn --- reynið ekki, hæstv. fulltrúar stjórnarmeirihlutans hér á þingi, að tala um kostnað Húsnæðisstofnunar og Íbúðalánasjóðs við mig. Þetta er nóg um fyrri tíma og breytingar á sjóðnum.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir minntist á þóknun til stjórnarinnar sem ég vakti máls á við 1. umr. málsins. Hún vísaði í svar sem ég fékk við fyrirspurn um það hver væru störf þóknananefndar, hvernig ákvarðanir væru teknar ef þóknananefnd tekur ekki ákvörðun um þóknun. Svarið er mjög afdráttarlaust. Svarið gefur til kynna að það sé engin hentistefnuákvörðun hjá ríkisstjórninni varðandi þóknanir stjórna. Það beinlínis sagt að kjaranefnd ákveði þóknun ef þóknananefnd geri það ekki en þóknananefnd eigi yfirleitt að gera það. Það má vel vera að því verði svarað á eftir í lokaræðu ráðherra hvernig farið verði með þessa þóknun sem ráðherra mun taka ákvörðun um samkvæmt frv. Einfaldast fyrir okkur, ef eitthvað er óljóst, verður að bera fram fyrirspurn á hausti komanda: Hvernig er þóknunum háttað fyrir þetta starf? Hvar var ákvörðun tekin og á hvaða grundvelli? Þannig getum við í stjórnarandstöðunni unnið og ég er búin að fá þetta svar um störf þóknananefndar og hvernig þessir hlutir eru ákveðnir. Svarið rímar kannski ekki alveg við þær fréttir sem við höfum haft af því hvernig ýmsar stjórnir og stjórnarformenn hafa verið launaðir, sem lent hafa í fréttum á liðnum mánuðum. Það breytir því ekki --- ég ætla ekki að vera með neina sleggjudóma um það --- að það eina sem við getum gert er að bera fram fyrirspurn og fá svar við henni. Svarið hlýtur alla vega að eiga að vera rétt.

Herra forseti. Samfylkingin stendur frammi fyrir því núna að lagfæra galla í lögum. Ég tek þátt í því alveg eins og ég sagði við 1. umr. Mér finnst hins vegar áhugavert, sem ég lít til framtíðar, ef þessar tölur sem vísað var til eða önnur þau atriði sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir vakti máls á og gagnrýndi eru ófullnægjandi. Ég er alveg sannfærð um að þegar að því kemur að meta það á ný muni Samfylkingin fá tækifæri til að koma að því máli.

Ég geri ráð fyrir að breytingar verði gerðar eftir næstu kosningar, þar verði komin upp ný staða og Samfylkingin komi af fullum þunga að slíkum málum. Þess vegna afgreiði ég þetta mál fyrir mína parta, bjartsýn og jákvæð eins og ég var við 1. umr. málsins. Ég veit að hér er enginn stór sannleikur. Þetta er afmarkað mál og ég afgreiði það sem slíkt. Ég veit að það þarf fleiri úrræði og að gera þarf úrbætur á leigumarkaði. Ríkið þarf að koma að því. Uppbygging ólíkra úrræða er mikilvæg. Lagaramminn er eitt. Við erum að afgreiða ákveðinn lagaramma hér. Framkvæmdir og þau markmið sem ríkisstjórn setur sér eru annað. Ég get engin áhrif haft á það hjá þessari ríkisstjórn. Ég er hins vegar alveg viss um að hafa slík áhrif í þeirri næstu og með því lýk ég máli mínu.