Húsnæðismál

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 12:32:50 (8627)

2002-05-02 12:32:50# 127. lþ. 135.9 fundur 710. mál: #A húsnæðismál# (félagslegar íbúðir) frv. 86/2002, JB
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[12:32]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál er til 3. umr. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í hv. félmn., undirritar nál. með fyrirvara og hefur gert ítarlega grein fyrir honum og afstöðu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í þessu máli. Ég mun því aðeins árétta nokkur þau atriði sem hér er verið að fjalla um.

Það er alveg ljóst að á undanförnum árum hafa sveitarfélögin staðið frammi fyrir miklum vanda vegna skuldbindinga í félagslega íbúðakerfinu, hvort heldur er í félagslega eignar\-íbúðakerfinu eða í leiguíbúðakerfinu í heild sinni. Þessi vandi er búinn að vera ljós um allnokkur ár og hefur hver nefndin verið skipuð á fætur annarri og hver starfshópur á fætur öðrum til að gera tillögur um hvernig ætti að bæta úr. En áfram hafa hlaðist upp skuldir hjá sveitarfélögunum úti um hinar dreifðu byggðir þar sem fólksflóttinn hefur orðið, og tekjuskerðing í byggðarlögunum. Þetta hefur orðið verulegur flöskuháls fyrir fjármál, vöxt og viðgang byggðarlaga.

Það er því lofsvert í sjálfu sér að hér skuli vera stigið lítið skref til móts við þennan vanda eða til að móta honum einhvern farveg í byrjun. Það er hins vegar mjög dapurlegt hve lítið skrefið er.

Í þessari áætlun er lagt til að fjármagn komi til ráðstöfunar til að létta á. Með þeim skuldbindingum sem hér er um að ræða er gert ráð fyrir að á næstu fimm árum verði 700 millj. kr. ráðstafað en af því fé komi einungis um 300 millj. kr. úr ríkissjóði en 400 millj. frá sveitarfélögunum eða á vegum þeirra. Það er því allt og sumt sem ríkið lætur af hendi rakna í þennan pakka. Það er heldur rýrt, ekki síst í ljósi þess að þegar lögum um húsnæðismál var breytt og stofnað til varasjóðs húsnæðismála var ríkissjóði falið það hlutverk sem hann hefur samkvæmt lögum nú. Þá var einmitt gert ráð fyrir því að ríkið verði árlega 50 millj. kr. í varasjóð húsnæðismála. Efndirnar urðu ekki meiri en þær að það gilti, að ég held, aðeins fyrsta árið, lítillega það næsta og svo ekkert úr því þannig að sú hækkun sem hér er verið að leggja til, að ríkið komi með 60 millj. kr. á ári í þetta verkefni, er ekki einu sinni til að bæta upp þær vanefndir á loforðum eða yfirlýsingum sem fylgdu þessu máli í upphafi. Þá hafði verið gert ráð fyrir 50 millj. sem ekki höfðu verið inntar af hendi eins og ráð var fyrir gert en sá hluti ríkisins hefur nú verið hækkaður í 60 millj. þannig að á ári er aðeins um 10 millj. kr. hækkun frá þeirri viljayfirlýsingu sem fylgdi þessu í upphafi. Framlagið er ekki mjög stórmannlegt.

Í umræðunum hefur komið fram að þær aðgerðir sem hér er verið að leggja til byggjast á samkomulagi sem gert hafði verið milli ríkisins, félmrn. og fjmrn., og Sambands ísl. sveitarfélaga um það í hvaða farveg skuli setja þetta mál.

Enn fremur kemur fram í greinargerð með frv. að starfshópar sem hæstv. félmrh. hefur haft frumkvæði um að skipa í þetta mál á undanförnum mánuðum og missirum hafa skilað drögum sem hafa ekki náð mikið fram að ganga.

Ég minnist þess að hafa séð í úttekt á þessu máli að bráðaþörf, t.d. í félagslega eignaríbúðakerfinu, eða bráðavandi sveitarfélaganna gæti numið allt að 2 milljörðum kr. sem þyrfti að leysa úr og er sú upphæð allmiklu hærri en hér er verið að taka á. Það hefur komið einmitt fram í umræðunum að fulltrúum sveitarfélaganna í þessu máli hafi nánast verið stillt upp við vegg í þessu samkomulagi, annaðhvort yrðu þeir að fallast á þetta sem hér er lagt til ellegar að málið stæði áfram í fullkominni óvissu og ekki væri þá á döfinni að koma því í neinn farveg. Þannig hafi þeim í sjálfu sér verið nauðugur einn kostur að ganga að þessu fátæklega tilboði sem ríkisvaldið var með. Þannig er staðan í þessu máli.

Meðal þess sem ég vildi fá á hreint í þessari umræðu er staða Vestfirðinga vegna fjárskuldbindinga í félagslega eignaríbúðakerfinu. Við uppgjör á kaupum ríkisins á hlut sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða var þeim gert að leggja ákveðinn hlut af andvirði þess inn á sérstakan biðreikning til tryggingar upp í væntanlega endurfjármögnun á félagslega íbúðakerfinu í fjórðungnum. Þetta þurftu jafnvel sveitarfélög að gera sem voru í fullum skilum við Íbúðalánasjóð, og átti þess vegna ekki að vera ástæða til að taka af þessu fjármagni sem ríkið greiddi fyrir Orkubú Vestfjarða til að setja inn á biðreikning vegna félagslega íbúðakerfisins. Nú er spurning hvernig þessi aðgerð og þessi meðhöndlun á fjármagni Vestfirðinga fellur að þeim fátæklegu úrlausnum sem hér eru uppi á borði vegna félagslega íbúðakerfisins. Hvernig verða Vestfirðingar leystir úr þeirri prísund að hafa sett fjármagn sitt inn á biðreikning og hvernig verður þá tekið á málefnum Vestfirðinga varðandi félagslega eignaríbúðakerfið og félagslega íbúðakerfið í heild sinni? Vandinn er ekki hvað sístur á Vestfjörðum. Þó að hluti af fjárhagsvanda þeirra sé leystur til bráðabirgða með kaupum á orkubúinu er það eins og allir vita bráðabirgðaaðgerð en henni þarf að fylgja eftir og ljúka, þar á meðal líka uppgjöri vegna félagslega íbúðakerfisins hjá þessum sveitarfélögum.

Þetta held ég að sé mikilvægt að hafa á hreinu að því marki sem kostur er áður en umræðu um þetta er lokið.

Herra forseti. Það er ljóst að hér hefði þurft að taka miklum mun myndarlegar á. Félagslega íbúðakerfið er löglegur gjörningur af hálfu Alþingis þar sem Alþingi ákvað þær kvaðir sem sveitarfélögin urðu að undirgangast í þessu kerfi. Þetta var hluti af þeirri heildarstefnu sem stjórnvöld höfðu í íbúðamálum um land allt og var sett og byggt og framkvæmt eftir í mikilli bjartsýni um flestar byggðir landsins. Það er ekki þeim að kenna að byggðastefna stjórnvalda og aðgerðir í byggðamálum hafa brugðist. Við stöndum uppi með þessi vandamál í íbúðakerfinu sem ríkið ber fulla ábyrgð á.

Ég hef áður bent á í þessum umræðum að sumar þeirra úrlausna sem hér eru lagðar til, m.a. varðandi afskriftir íbúða að hluta eða öllu leyti, þátttöku ríkisins í þeim aðgerðum, er krafist einmitt verulegs mótframlags af hálfu sveitarfélagsins til að það ákvæði sé virt. Það sjá allir að sveitarfélag sem á þegar í fjárhagsvandræðum, situr uppi með kannski ónothæfa félagslega eignaríbúð en getur ekki afskrifað hana, getur ekki nýtt sér þetta lítilfjörlega framlag af hálfu ríkisins vegna þess að það er skyldugt til að koma með mótframlag, og þá er hætta á að þessi aðgerð verði ekki virk. Þessar aðgerðir eru í miklu skötulíki, afar fátæklegar og eru í sjálfu sér fjarri því að vera fullnægjandi fyrir þær lausnir sem hér þyrfti að grípa til. Áfram eru því eðlilega þær kvaðir á sveitarfélögunum að þau hafi handbært á hverjum tíma fullnægjandi húsnæði fyrir íbúa sína. Sú eðlilega krafa er áfram fyrir hendi og þess vegna er líka nauðsynlegt að ríkisvaldið komi að þessum málum með myndarskap þannig að þessi ákvæði verði virk.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, hefur ritað undir þetta nál. með fyrirvara eins og ég hef gert grein fyrir. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði styðjum það skref sem hér er verið að stíga þó að mjög lítið sé. Við hörmum að ekki skuli vera tekið myndarlegar á málum en áréttum að þetta er fyrsta skrefið. Hér þarf að ganga enn betur til verks.