Húsnæðismál

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 12:58:21 (8633)

2002-05-02 12:58:21# 127. lþ. 135.9 fundur 710. mál: #A húsnæðismál# (félagslegar íbúðir) frv. 86/2002, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[12:58]

Jóhanna Sigurðardóttir:

(Forseti (GuðjG): Forseti vill geta þess að fundi verður frestað mjög fljótlega þannig að hv. þm. verður að gera hlé á ræðu sinni ef hún er mjög löng.)

Herra forseti. Mér nægja alveg tvær mínútur eins og hefðbundin andsvör eru.

Ég vil segja það fyrst um ræðu hæstv. ráðherra að ég held að það sé alveg rétt sem fram kom í máli hv. 5. þm. Norðurl. v. að sveitarfélögunum var stillt upp við vegg varðandi þá úrlausn sem liggur fyrir í þessu frv. og þeim raunverulega sagt að þau fengju ekkert ef þau mundu ekki þiggja þetta. Sveitarfélögin hafa metið það svo, og ýmsir þingmenn sem hér greiða atkvæði, að betra sé að fá þetta en ekki neitt.

Ég tók eftir því í svari hæstv. ráðherra að hann segir að ódýrara sé fyrir ríkið að greiða niður vexti en að greiða stofnstyrki eða hækka húsaleigubætur. Það má vera ef haft er að leiðarljósi hvað sé best fyrir ríkið. Þá getur vel verið að sú leið sem hæstv. ráðherra nefndi hafi verið best. En það er alveg ljóst að hvorki sveitarfélögin né leigjendur geta sætt sig við þá niðurstöðu sem hér er fengin, enda segir í því minnisblaði sem þremenningarnir frá sveitarfélögunum skrifuðu undir, að engin vinna hafi farið fram um útfærslu á fram komnum tillögum um stofnstyrki og greiðslu húsaleigubóta. Málið var tekið úr þeirra höndum. Hæstv. ráðherra svaraði ekki fyrirspurn minni um hvort þetta væri þá endanleg lausn sem ríkið væri að færa sveitarfélögunum með því samkomulagi sem hann og hæstv. fjmrh. gerðu eða hvort farið verði í að vinna þá útfærslu sem hér er kallað eftir af hálfu sveitarfélaganna varðandi stofnstyrki og greiðslu húsaleigubóta.

Ég held að það sé afar mikilvægt að fá það fram, herra forseti, og það spyr ég hæstv. ráðherra sérstaklega um.

Varðandi leigugreiðslurnar og nýbyggingar leiguíbúða þá kostar það miðað við þau vaxtakjör sem í boði eru í leigugreiðslur 80--100 þús. á mánuði miðað við þriggja herbergja íbúð ef það á ekki að auka útgjöld sveitarfélaganna þannig að hér er boðið upp á gjörsamlega ófullnægjandi niðurstöðu.

Varðandi þá aðstoð sem var til leigjenda hér áður fyrr þá kostar hún auðvitað fé, þ.e. ef ríkið ætlar að halda uppi félagsalegri aðstoð við leigjendur. Á árum áður voru veittar 500--1.000 millj. til þess að greiða niður vexti. En nú eru þetta orðnar 60 millj. og það segir auðvitað til sín í leigukjörunum.

En fyrst og fremst spyr ég hæstv. ráðherra hvort þetta sé endanleg niðurstaða, hvort unnið verði áfram að því að bæta leigukjörin og lánskjörin til þeirra sem byggja íbúðir, annaðhvort með stofnstyrkjum eða greiðslu húsaleigubóta eins og farið er fram á af hálfu sveitarfélaganna eða hvort þetta sé endanleg niðurstaða af hálfu ríkisins.