Húsnæðismál

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 13:02:04 (8635)

2002-05-02 13:02:04# 127. lþ. 135.9 fundur 710. mál: #A húsnæðismál# (félagslegar íbúðir) frv. 86/2002, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[13:02]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hér boðar hæstv. ráðherra mjög slæm tíðindi fyrir þá 2.000 einstaklinga og fjölskyldur sem standa í biðröð eftir að fá leiguhúsnæði. Ekki er annað að skilja af orðum hæstv. ráðherra en að hér sé um endanlega niðurstöðu að ræða að því er varðar viðræður við sveitarfélögin um hvað við átti að taka þegar félagslega húsnæðiskerfið var lagt niður. Hæstv. ráðherra er með öðrum orðum að bjóða fólki upp á það í framtíðinni að þurfa að greiða 80--100 þús. kr. í leigu á mánuði og mun það alveg örugglega leiða til þess fyrir hagsmunasamtök eins og námsmenn og Öryrkjabandalagið, sem hafa verið drjúg í því að byggja leiguíbúðir meðan lánskjörin voru viðráðanleg, að þar mun dragast verulega saman. Því miður eru hér eru boðuð mikil ótíðindi fyrir leigjendur.