Flugmálaáætlun árið 2002

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 14:01:55 (8636)

2002-05-02 14:01:55# 127. lþ. 135.10 fundur 681. mál: #A flugmálaáætlun árið 2002# þál. 27/127, Frsm. GHall (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[14:01]

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég flyt nefndarálit samgn. um till. til þál. um flugmálaáætlun árið 2002.

,,Flugmálaáætlun þessi er frábrugðin fyrri áætlunum að því leyti að hún tekur eingöngu til eins árs. Ástæður þessa eru raktar í framhaldsnefndaráliti meiri hluta nefndarinnar með frumvarpi til laga um breytingar á lagaákvæðum er varða samgönguáætlun o.fl. og vísast til þess sem þar segir, en samhliða því áliti leggur nefndin til breytingu sem veitir Alþingi heimild til að samþykkja flugmálaáætlun í því formi sem hér er lagt til.

Nefndin leggur til eina breytingu á tillögunni. Lagt er til að lántökuheimildir verði hækkaðar um 125 millj. kr., sem færast á lið 3.2 Reykjavíkurflugvöllur, flugbrautir og hlöð. Upphaflegar áætlanir frá desember 1998 gerðu ráð fyrir að framkvæmdir við völlinn kostuðu 1.520 millj. kr., um 1.814 millj. kr. á verðlagi dagsins í dag. Verktakinn hefur fengið greiddar rúmlega 93 millj. kr. í verðbætur það sem af er og er gert ráð fyrir að þessar greiðslur verði 125 millj. kr. í verklok. Breytingin er nauðsynleg til að Flugmálastjórn geti lokið framkvæmdum samkvæmt samningi við verktaka og lagfæringu þeirra svæða sem blasa við frá göngustígum og umferðaræðum í nágrenni flugvallarins.

Í fylgiskjali með nefndaráliti þessu eru taldar upp framkvæmdir sem nauðsynlegt er að tryggja fjármagn til á árinu 2003 svo að útboð og aðrar undirbúningsaðgerðir geti hafist.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með breytingu sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali.

Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Jón Bjarnason og Lúðvík Bergvinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.``

Undir nefndarálitið ritar sá er hér stendur ásamt hv. þm. Hjálmari Árnasyni, Arnbjörgu Sveinsdóttur, Magnúsi Stefánssyni, Sigríði Ingvarsdóttur og Kristjáni Möller með fyrirvara.