Flugmálaáætlun árið 2002

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 14:16:34 (8639)

2002-05-02 14:16:34# 127. lþ. 135.10 fundur 681. mál: #A flugmálaáætlun árið 2002# þál. 27/127, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[14:16]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Varðandi það að þessi flugmálaáætlun er lögð fram fyrir bara þetta eina ár vísa ég til þess sem ég sagði áðan að ég tel að það hefði átt að vinna með þeim hætti, sem hefur verið tíðkað á undanförnum árum, að vinna flugmálaáætlun til annars vegar tveggja og hins vegar fjögurra ára. Það verða í sjálfu sér engar kollsteypur í þessum málum þó að farið verði að vinna eftir nýrri samræmdri samgönguáætlun sem á eftir að móta. Þá mundi vera lítið mál að fella flugmálaáætlun að því. Eðlilegt hefði verið að þetta hefði verið unnið í þeirri samfellu sem búið var að koma á. Skoðun mín er að það hefði verið réttara.

Varðandi Ísafjarðarflugvöll, þ.e. flugvöllinn á Vestfjörðum, spurði ég hæstv. samgrh. hvað þessu máli liði, hvort verið væri að kanna aðra staði, og í svari hans kom fram að það hefði afar lítið verið gert. Það hefði verið horft á Ísafjarðarflugvöll, og leiða leitað til að vita hvort hægt væri að koma á næturflugi þangað. Komið hefði í ljós, eins og kom fram í máli hv. formanns samgn., að það væri ill- eða ekki mögulegt, a.m.k. miðað við þann tæknibúnað sem menn gengju út frá að væri tiltækur. Varðandi næturflug á aðra flugvelli hefði ekki verið unnið í að kanna það.

Þess vegna vek ég máls á þessu að ég tel brýnt að í beinu framhaldi verði farið í þetta mál, hvort sem niðurstaðan verður Þingeyrarflugvöllur eða einhver önnur flugvallarskilyrði á Vestfjörðum. Það er alveg ljóst að flugsamgöngur við Ísafjörð, um tíma a.m.k., uns verða komin enn þá fleiri jarðgöng og brýr innan fjórðungsins, verða afar mikilvægar fyrir svæðið og einmitt brýnt að það flug geti farið fram að næturlagi eða eftir að dimmt er orðið svo að eðlileg not verði af fluginu.