Flugmálaáætlun árið 2002

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 14:23:58 (8641)

2002-05-02 14:23:58# 127. lþ. 135.10 fundur 681. mál: #A flugmálaáætlun árið 2002# þál. 27/127, GAK
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[14:23]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Við ræðum hér flugmálaáætlun til eins árs, þ.e. fyrir þetta ár. Í umræðunni áðan kom nokkuð til umræðu flug til norðanverðra Vestfjarða, á Ísafjörð og inn á Þingeyri og næturflug í því sambandi. Næturflug á Ísafjörð er í raun og veru talið nánast ómögulegt út frá öryggissjónarmiðum, eins og komið hefur fram, og þeirra krafna sem verður að gera til þess að flugvélar geti lent þar með eðlilegum hætti jafnvel þó að eitthvað bæri við í aðflugi og lendingu eins og að missa út einn hreyfil eða annað slíkt. Þetta eru kröfur sem gerðar eru og miðað við þá úttekt sem gerð hefur verið á því máli verður ekki séð, því miður, að eins og málum er nú háttað verði hægt að taka upp næturflug á Ísafjörð.

Þá kemur næsta spurning sem menn hafa velt fyrir sér: Er þá hægt að koma fyrir þeim aðbúnaði, öryggistækjum og aðflugstækjum, að með lagfæringum á Þingeyrarflugvelli væri hægt að taka upp næturflug þangað? Það hefur svo sem ekki verið skoðað alveg ofan í kjölinn. Þó hefur það verið kannað. Það er a.m.k. ekki einfalt að leysa það mál, einnig út frá öryggissjónarmiðum. Auðvitað er hægt að gera talsvert til að lengja flugtíma á Þingeyri eins og að lengja þar brautina og gera hana betri með betra burðarlagi, með aðflugsljósum og öðru slíku. Við vissar aðstæður væri því hægt að lengja flugtímann inn á Þingeyri. En það er ekki fyrirséð, a.m.k. ekki nema þá við enn nánari skoðun, að hægt verði að taka upp næturflug þangað miðað við þær kannanir sem hafa farið þar fram. Úttekt á Ísafjarðarflugvelli segir að þangað verði ekki flogið að næturlagi, og hæpið með Þingeyrarflugvöll í framtíðinni. Þannig hef ég skilið málin og verð þá leiðréttur af hv. formanni samgn. eða samgrh. ef ég fer með staðlausa stafi.

Þá velta menn fyrir sér: Með hvaða hætti er þá hægt að taka á flugmálum til norðanverðra Vestfjarða þannig að þangað megi fljúga næturflug? Það sýnist manni, a.m.k. eins og málin liggja fyrir, að verði ekki auðvelt með þeirri staðsetningu flugvalla sem nú eru til staðar. Það er auðvitað mikið mál að skoða hvað er til ráða ef það er ætlun manna í framtíðinni að tryggja að fljúga megi næturflug til Vestfjarða eins og hægt er á Egilsstaði og Akureyri. Þarna er þó nokkur vandi fram undan varðandi flug á norðanverða Vestfirði. Það liggur alveg fyrir. Kannski þurfa flugskipulagsmál um norðanverða Vestfirði að skoðast algjörlega í nýju ljósi miðað við þetta. Menn verða þá að gera það upp við sig: Á að leita að einhverjum nýjum flugvallarstæðum sem uppfylla þau skilyrði að þangað megi fljúga næturflug? Og þá kemur auðvitað spurningin: Hvar eru slík svæði til staðar á Vestfjörðum og hvaða vegalengdir eru til þeirra frá aðalþéttbýliskjörnunum?

Menn hafa svo sem oft reifað ýmsar hugmyndir í sambandi við varanlega lausn á flugi til Vestfjarða, m.a. skrifaði sá sem hér stendur greinar fyrir nokkrum árum um hvaða möguleikar væru í því. Miðað við þá þekkingu sem ég hef sjálfur á veðri og vindum --- tel mig búa að nokkurri þekkingu í því sem skipstjórnarmaður til margra ára --- er það ekki auðleyst út frá veðurfarssjónarmiðum og með tilliti til fjalllendis og þröngra fjarða á þessu svæði á nyrstu fjörðum Vestfjarða.

[14:30]

Hins vegar er rétt að benda á að með styttingu akstursleiða, þverun fjarða og jarðgöngum styttast vegalengdir á þjóðvegum og þar af leiðandi einnig vegalengdir til svæða þar sem hugsanlegt væri að byggja upp alvöruflugvelli sem mætti fljúga til á öllum tímum sólarhrings. Þannig hagar til í Inn-Djúpi Ísafjarðar að þar eru ákjósanleg svæði út frá veðurfarslegum sjónarmiðum, þ.e. þegar komið er inn fyrir það veðrakerfi sem jafnan tekur við þegar komið er út í Kaldalón og flugmenn þekkja vel sem titringssvæðið frá Ögri og út á Ísafjörð og farþegar eru gjarnan varaðir við því að búast megi við nokkrum hristingi í aðflugi eða óróa á þessu svæði. Það er nefnilega þannig að vegna landfræðilegra aðstæðna, fjalllendis, Drangajökuls og annarra þekktra veðurfarslegra aðstæðna, þá er mjög sterkur strengur yfir Ísafjarðardjúp í austan- og norðaustanáttum þegar kemur út fyrir Ögur. En innan þess svæðis er hins vegar talsvert annað veðurlag. Það er rétt að láta þess getið í umræðunni að bæði inn á Reykjanesi og sennilega á Vatnsfjarðarnesi norðan Vatnsfjarðar er láglent og það er innan þeirra veðurstrengja sem jafnan gætir við ákveðnar aðstæður þegar kemur lengra norður Djúpið og það kann auðvitað að verða svo í framtíðinni með tilliti til þess hvernig verður staðið að vegaframkvæmdum á norðanverðum Vestfjörðum hvort menn treysta sér t.d. í að þvera Hestfjörðinn og losna við þá keyrslu, hvort menn ætla að leysa vandamál Súðavíkurhlíðar með almennri lausn eða hvort menn ætla að fara þar í að byggja vegskála og vera með sams konar lausn og í Óshlíð sem ekki dugar.

Áætlun Vegagerðarinnar liggur þegar fyrir um að brúa Mjóafjörð og leggja veginn yfir Mjóafjörð og þaðan yfir Vatnsfjarðarhálsinn og út á Reykjanes og inn Ísafjörðinn. Þetta þýðir að miðað við núverandi aðstæður væri akstursleiðin frá Ísafirði inn í Vatnsfjörð, eftir að búið væri að brúa Mjóafjörð og leggja þann veg bundnu slitlagi, komin niður í sennilega einn og hálfan klukkutíma eða þrjú korter, eitthvað svoleiðis. Um leið og Hestfjörður væri hins vegar þveraður og ef menn veldu þann kost að leysa vandamálið á Súðavíkurhlíð með því að gera jarðgöng yfir í Álftafjörð væri hins vegar búið að stytta þessa leið um einhverja tugi kílómetra og leiðin orðin nánast bein að öðru leyti en því að keyra verður inn og út Skötufjörð. Hjá því verður ekki komist vegna dýpis hans.

Svo kann að vera að í framtíðinni, innan einhverra ára eða áratuga, verði komið upp allt annað viðhorf til þess hvar hugsanlega megi staðsetja flugvöll á norðanverðum Vestfjörðum með tilliti til þess að á hann verði flogið á öllum tímum sólarhrings. Þess vegna er nauðsynlegt og því ber að fagna að hér í þinginu hefur verið lagt upp með þá stefnumótun frá samgrh. að fara sameiginlega yfir flugáætlun og vegáætlun og menn búi til áætlun með tilliti til hvernig framtíðin gæti litið út í þessa veru. Það held ég að sé í sjálfu sér gott verk, en þá verða menn líka þora að líta raunsæjum augum til framtíðar og sætta sig við að þeir áfangar sem æskilegt er að ná kunna að vera einhverjum árum lengra inn í framtíðinni en menn kysu, en í staðinn fyndu menn varanlegar lausnir og byggju þá að því að verið væri að leysa fleiri en einn þátt samgöngumála, þ.e. ekki bara vegamálin heldur gætu menn líka verið að leysa þætti sem stuðluðu að því að flugvallamálin kæmust í allt annan farveg og aðra snertingu við byggðirnar, m.a. með möguleikum til flugs allan sólarhringinn ef málið væri skoðað í því samhengi.

Ég er að mæla þessi orð til þess að segja það sem ég hef stundum sagt áður, að mér finnst að þegar menn tala um áætlanir eins og flugvelli, hafnargerð og vegagerð eigi menn að reyna að horfa svolítið inn í framtíðina og skoða þau mál sameiginlega með raunverulega möguleika til framtíðar litið og þess hversu menn telja líklegt að þróunin verði. Ég tel t.d. að þó að ég sé því vissulega fylgjandi að flytja þunga vöru frekar með skipum þá tel ég að þróunin muni samt sem áður verða sú að hún verði meira og minna á þjóðvegunum. Það hygg ég að muni gerast og það muni gerast enn frekar þegar vegirnir batna. Þá er sjálfgefið að hugsa þær vegalengdir sem stystar og fá sem mest út úr raunverulegri framkvæmd.

Ég ætla að leyfa mér að fullyrða við lok umræðunnar af minni hálfu að varanlegar samgöngubætur sem ég kalla, þ.e. að fara undir fjöll í staðinn fyrir að klöngrast ævinlega yfir þau, sé eitthvað sem við eigum að horfa til. Það held ég að bæði Vestfjarðagöngin og göngin undir Hvalfjörð hafi sýnt okkur hversu miklar vegabætur þetta eru og einnig það að umferðaröryggi á þessum leiðum hefur aukist alveg geysilega fyrir utan allan tímasparnaðinn og orkusparnaðinn sem því fylgir að komast þær vegalengdir á milli staða á miklu skemmri tíma. Ég bendi á að meðan var verið að klöngrast yfir fjöllin milli Súgandafjarðar, Önundarfjarðar og Ísafjarðar urðu þar slys, bæði grjóthrun, snjóflóð og vegirnir náttúrlega utan í bröttum fjallshlíðum, en í Vestfjarðagöngunum hafa orðið mjög fá slys ef nokkur. Sama held ég að eigi við um Hvalfjörð. Ég held að við munum það öll að í Hvalfirði voru slys á hverju einasta ári og stundum dauðaslys, en þau hafa orðið sem betur fer afar fá í Hvalfjarðargönguum og ég held að ég muni það rétt að ekkert dauðaslys hafi orðið í Hvalfjarðargöngunum. Ég held ég fari þar með rétt mál.

Það er að mörgu að huga og ekki á að líta bara til flugmála, sem við hér erum að ræða, heldur getum við illa rætt þessar áætlanir einar og sér því þetta tekur mið hvert af öðru og hvaða nýtingu fjármagnið fær í því sambandi. Þess vegna held ég að mjög nauðsynlegt sé þegar menn standa frammi fyrir staðreynd eins og þeirri sem virðist vera að eigi verði með góðum hætti tekið upp næturflug til norðanverðra Vestfjarða, þá held ég að menn eigi að velta því alvarlega fyrir sér hvort einhver önnur lausn sé í farvatninu, önnur staðsetning flugvalla t.d. sem er betri eða æskilegri að horfa á til framtíðar og hvort það sé þá eitthvað sem vert er að sækjast eftir. Á þetta verða menn auðvitað að leggja mat og í því sambandi verða menn að þora að horfa til hugmynda sem menn hafa kannski hingað til talið að væru óraunhæfar.