Vegáætlun fyrir árin 2000--2004

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 14:58:13 (8646)

2002-05-02 14:58:13# 127. lþ. 135.11 fundur 680. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000--2004# þál. 28/127, Frsm. 1. minni hluta JB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[14:58]

Frsm. 1. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. 1. minni hluta samgn. um till. til þál. um breytingu á vegáætlun fyrir árin 2000--2004. Eins og hér hefur komið fram ber samkvæmt núgildandi vegalögum að endurskoða á þessu þingi vegáætlun til næstu fjögurra ára, þ.e. fyrir tímabilið 2002--2006.

Sú skipan sem komist hefur á, að gera vegáætlun til nokkurra ára í senn, hefur skapað aukna festu í þessum málaflokki. Hægt hefur verið að bjóða út verk sem eru á vegáætlun næstu ára og vinna í samfellu. Að sjálfsögðu er framkvæmd áætlunarinnar háð fjárveitingum í fjárlögum hvers árs. Það er mikil afturför af hálfu Alþingis að geta ekki haldið í heiðri það ágæta vinnulag að samþykkja þáltill. um vegáætlun til fjögurra ára í senn. Sú áætlun sem nú liggur fyrir Alþingi, og við erum að fjalla hér um, tekur aðeins til næstu átta mánaða. Rökin sem færð eru fyrir þessu ráðslagi eru að frá og með næsta hausti verði unnin annars vegar fjögurra ára samræmd samgönguáætlun og hins vegar tólf ára samræmd samgönguáætlun sem taki til samgangna á landi, sjó og í lofti.

Herra forseti. Það er alveg hárrétt að það ber að vinna að samræmdri áætlanagerð í samgöngumálum fyrir samgöngur í lofti, á sjó og á landi og ég tel að tillagan sem var samþykkt á dögunum og laut að gerð samræmdrar samgönguáætlunar sé til bóta, og muni bæta og styrkja framtíðarvinnulag þótt ýmislegt hefði mátt betur vanda við gerð þeirra laga.

[15:00]

Þarna er ekki verið að kúvenda í miklu því að allir þessir þrír málaflokar, samgöngur á sjó, samgöngur á landi og samgöngur í lofti, heyra undir sama hæstv. ráðherra. Ætti hæstv. samgrh. því að vera í lófa lagið að vinna að þessum málum með nokkuð samræmdum hætti, alla vega ekki ósamræmdum, enda tel ég að það hafi ekki endilega verið gert á undanförnum árum. Ég tel að horft hafi verið til allra þessa þátta nokkuð samtímis. Sömuleiðis hafa þessi mál öll sameiginlega verið til meðhöndlunar hjá hv. samgn. þannig að ekki er hægt að halda því fram í sjálfu sér að hér sé um byltingu að ræða hvað það varðar. Öll þessi mál, bæði áætlanagerð hvað varðar samgöngur á sjó, í lofti og á landi, hafa verið unnin á ábyrgð sama ráðuneytis og sömu nefndar. Þetta segi ég bara til þess að menn átti sig á að ekki er verið að gera neina grundvallarbyltingu á samfélaginu hvað varðar gerð samgönguáætlunar. Að sjálfsögðu má lengi bæta vinnulag og ef það styrkir vinnulagið að festa í lög að samgönguáætlun skuli unnin með samræmdum hætti er það að sjálfsögðu til bóta og það styrkir og bætir það vinnulag. Þetta vildi ég láta koma fram, virðulegi forseti, út af umræðum sem hér hafa verið um gerð samræmdrar samgönguáætlunar.

Ég tel að varðandi vegáætlun hefðum við átt að nýju í sæmræmi við lög sem giltu um meðferð þessa máls, þ.e. að vinna fjögurra ára áætlun og tveggja ára áætlun í samræmi við lög um vegagerð þannig að hægt væri að horfa til þeirrar samfellu sem tíðkast hefur í þessu máli, enda er það svo að ef einungis á að vinna þáltill. um vegáætlun til eins árs verður Vegagerðin að óska eftir því --- og það hefur hún gert --- að samhliða þessu nefndaráliti fylgi sérstakur listi yfir þær skuldbindingar sem mæta þarf á árunum 2003 og 2004 samkvæmt þeirri vegáætlun sem við höfum starfað eftir til þessa. Að sjálfsögðu hafa þær skuldbindingar verið háðar fjárveitingum hverju sinni. En með því að vinna eftir vegáætlun til nokkurra ára hefur engu að síður líka verið hægt að vinna og bjóða út verk sem gengið hefur verið út frá að yrðu unnin samkvæmt þáltill. sem Alþingi hefur samþykkt á hverjum tíma. Eftir þá breytingu sem hér er verið að gera, þ.e. að gera einungis vegáætlun fyrir eitt ár, verður því að fylgja sérstakur minnislisti frá Vegagerðinni um að búið sé að ganga frá því á grundvelli fyrri vegáætlana að ákveðin verk verði unnin með þeim hætti sem búið er að semja um á árunum 2003 og 2004. Þetta er dæmi um hvað gerist þegar verið er að breyta út frá annars föstu, hefðbundnu og nokkuð góðu vinnulagi. Vonandi kemst góður skikkur á þetta aftur að ári þegar farið verður að vinna eftir samræmdri samgönguáætlun sem vonandi tekst vel til með að vinna á næsta ári.

Herra forseti. Að öðru leyti varðandi þessa vegáætlun hér þá gerir tillaga meiri hlutans ráð fyrir niðurskurði til vegamála frá gildandi vegáætlun á þessu ári um 2.219 millj. kr. ef teknar eru með fjárveitingar til vegamála sem frestað var á síðasta ári, um 700 millj. kr. Beinn niðurskurður á þessu ári er 1.519 millj. kr.

Vert er að geta þess í tengslum við þennan niðurskurð að þetta er niðurskurður frá nokkuð metnaðarfullri vegáætlun sem var kynnt í upphafi stjórnartímabils núverandi ríkisstjórnar, en hefur í raun aldrei verið hægt að framfylgja. Er það dapurlegt þegar samþykkt er vegáætlun, sett markmið og skapað í kringum það væntingar, því að þörfin er nóg fyrir vegaframkvæmdir í landinu, að ekki skuli vera hægt að fylgja henni eftir eins og ráð var fyrir gert og það þó að við teljum okkur áfram vera í góðæri eða hagur ríkissjóðs sé slíkur að hann gefur ekkert sérstakt tilefni til þessarar frestunar, enda er það svo að vegaframkvæmdir og góðar vegasamgöngur eru ein grunnforsenda öflugs atvinnulífs, öflugs efnahagslífs og öflugs samfélags um allt land. Samdráttur í vegamálum hlýtur því að koma niður á þessum markmiðum sem við öll viljum ná sem bestum.

Í allri byggðaumræðu hefur verið lögð áhersla á bættar samgöngur og betri vegi, bæði innan sveitar og milli héraða. Íbúar sveitanna eru í auknum mæli háðir bættum samgöngum. Æ fleiri stunda daglega vinnu í næsta þéttbýli. Fækkun íbúa og sífellt strjálbýlli byggð auk sameiningar sveitarfélaga hefur leitt til þess að litlum sveitaskólum hefur verið lokað einum af öðrum. Við það lengist akstur skólabarna og kröfur um styttingu leiða og betri vegi verða enn háværari. Gott vegasamband getur ráðið úrslitum um byggð og búsetu á mörgum svæðum. Það skýtur því skökku við í allri byggðaumræðunni að skera niður fjárveitingar til vegamála í hinum dreifðu byggðum landsins. Heilu byggðarlögin, svo sem á Vestfjörðum og Norðausturlandi, bíða enn stórátaks í vegamálum til að treysta innri byggð og samgöngur við aðra landshluta.

Þá er og í tillögum meiri hlutans gert ráð fyrir að fresta framkvæmdum við endurgerð tveggja stórbrúa sem eru mikill flöskuháls í flutninga- og öryggismálum. Hér er um að ræða brýrnar yfir Vatnsdalsá í Austur-Húnavatnssýslu og Skaftá í Vestur-Skaftafellssýslu. Komi ekki aukið fjármagn til þessa málaflokks á næsta ári mun þessi niðurskurður seinka átaki sem boðað var um endurgerð og breikkun einbreiðra brúa.

Herra forseti. Starfsmenn Vegagerðarinnar tjáðu okkur að þannig háttaði til við þessar brýr að vegna tillits til veiði og annars slíks mundi hafa orðið að fresta framkvæmdum í sumar við þessar ár og því hefði ekki verið hægt að fylgja þeirri áætlun sem upp var sett. En þetta voru þó atriði sem áttu að vera ljós fyrir og hefði átt að vera hægt að taka tillit til þeirra á liðnu ári til þess að tryggja eðlilega framkvæmd málsins við þessar brýr. En hvað um það. Niðurskurður á fjármagni til brúargerðar á þessu ári mun leiða til frestunar á átaki sem ætlunin var að gera á næstu árum í því að breikka einbreiðar brýr komi ekki til þess aftur að auka fjármagn til þessa verkefnis. Það vil ég benda skýrt á.

Í umræðum á Alþingi og í umræðum úti í þjóðfélaginu hefur verið lögð áhersla á brýna þörf þess að taka jafnvel enn betur á við endurbætur á brúm en Alþingi hefur lagt til í gildandi vegáætlun. Komið hafa komið fram óskir og umræða orðið um enn þá stærra átak á þeim vettvangi. Þess vegna tel ég afar mikilvægt að við hér séum ekki að skera niður í þessu átaki sem var þó ætlunin að stefna að við endurgerð og breikkun einbreiðra brúa á þjóðvegum landsins.

Samkvæmt vegáætlun sem við höfum starfað eftir til þessa var gert ráð fyrir að jarðgangagerð færi á þessu ári á fulla ferð fyrir austan, á milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar, og einnig gerð jarðganga til Siglufjarðar.

Dapurlegt er dugleysi stjórnvalda í áframhaldandi jarðgangagerð til samgöngubóta. Þegar gerð svokallaðra Vestfjarðaganga lauk 1996 voru áætlanir um að í beinu framhaldi yrði ráðist í gerð jarðganga á Austurlandi. Átta ár hafa nú liðið í fullkomnu aðgerðarleysi af hálfu stjórnvalda. Í stað þess að einblína á stóriðjuframkvæmdir á Miðausturlandi hefðu stjórnvöld átt að verja auknu fé til samgöngubóta og jarðgöng milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar ættu að fá sérstaka flýtimeðferð. Þau jarðgöng gætu raunar verið tilbúin eða langt komin ef hugur stjórnvalda hefði fylgt máli.

Herra forseti. Ég vil og gagnrýna það varðandi samgöngubætur að tengja mannvirkjagerð í samgöngumálum við sölu á einstökum fyrirtækjum. Rætt var um það í umræðu um sölu Landssímans að andvirði hans ætti að renna til hinna og þessara samgöngubóta og jarðgangagerðar vítt og breitt um landið. Sem betur fer var hætt við sölu Landssímans, enda hefur tenging á þennan hátt í sjálfu sér engan tilgang og er almennt andstæð stjórnsýslulögum. Það er líka andstætt lögum um fjárreiður ríkisins því svona tengingar eiga ekki að eiga sér stað. Ríkiskassinn er einn sjóður. Í hann koma tekjur hvort heldur það er fyrir sölu eigna, skattar eða annað. Síðan tekur Alþingi ákvörðun um hvernig þessum fjármunum er ráðstafað. Forðast ber eyrnamerkingar eins og látið hefur verið að liggja varðandi þessar framkvæmdir.

Síðast höfum við rætt í þessu sambandi ákveðinn hluta af eigum ríkisins í Steinullarverksmiðjunni á Sauðárkróki. Ef við verðum svo ólánssöm að sá hluti verður seldur þá á hugsanlega að setja hluta af því í veg yfir Þverárfjall. Nauðsynlegt er að hraða veginum yfir Þverárfjall. Að mínu mati hefði átt að fá veginn yfir Þverárfjall fastsettan inn á stórframkvæmd því hann er það stór framkvæmd. Ekki er hægt að ætlast til þess að hann sé fjármagnaður af þeim skammti sem kjördæmið hefur annars fengið almennt til vegagerðar. Þetta er svo stór framkvæmd. Hún hefði átt að komast inn á sérfjárframlög eins og aðrar stórframkvæmdir í staðinn fyrir að vera núna í nokkurri óvissu um framhaldið. Ég tel brýnast varðandi þá vegaframkvæmd að hún komist inn á stórframkvæmdaáætlun og verði lokið sem fyrst á þeim grunni. Ég tel hins vegar alveg fráleitt að tengja sölu á einstökum fyrirtækjum heima í héruðunum, sem ríkið á hluta í, einstökum framkvæmdum sem eru hvort eð er á ábyrgð ríkisins og eiga að vinnast á landsgrunni, þó að auðvitað fagni hver og einn þeim peningum sem síðan endanlega koma heim í þeirra hérað til framkvæmda. En svona tengingar eiga ekki að eiga sér stað. Ef við höldum áfram á þeirri braut að tengja sölu einstakra eigna framkvæmdum á viðkomandi svæðum vitum við ekki hvar við lendum í því rugli. Ef t.d. einhver ríkiseign á Reykjavíkursvæðinu verður seld á þá andvirðið að fara til framkvæmda á Reykjavíkursvæðinu? Þegar menn að tengja svona saman sölu einstakra eigna ríkisins og ákveðinna framkvæmda vítt og breitt um landið þá lenda þeir í fullkomnum ruglingi og vita ekkert hvar þeir enda, enda er það andstætt öllum lögum sem ríkinu ber að starfa eftir hvort heldur það eru stjórnsýslulög, fjárreiðulög eða önnur sem um starfsemi af hálfu ríkisins gilda. Ég vara við því að þetta sé gert.

Virðulegi forseti. Í dreifbýlu landi eins og Íslandi skipta samgöngur miklu máli fyrir hagsæld, búsetu, þróun atvinnulífs og jöfnun lífskjara meðal þjóðarinnar. Niðurskurður fjármagns til samgöngumála og frestun framkvæmda í vegamálum bera með sér rangar áherslur stjórnvalda og valda miklum vonbrigðum hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli.

Fjármagn til vegaframkvæmda á þessu ári var ákveðið með samþykkt fjárlaga fyrir árið 2002. Var ákveðinn heildarniðurskurður fjármagns til vegamála frá gildandi vegáætlun um 1.519 millj. kr. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs mótmæltu þessum niðurskurði við afgreiðslu fjárlaga.

Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hefði kosið öflugri framkvæmdir í vegamálum í stað niðurskurðar, en mun þó ekki leggjast gegn því að þessi vanburða vegáætlun ríkisstjórnarflokkanna fyrir árið 2002 verði afgreidd frá Alþingi eins og málum er komið.