Vegáætlun fyrir árin 2000--2004

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 15:26:43 (8650)

2002-05-02 15:26:43# 127. lþ. 135.11 fundur 680. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000--2004# þál. 28/127, Frsm. meiri hluta GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[15:26]

Frsm. meiri hluta samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að stóra vandamálið sem við stöndum frammi fyrir sé að þingmenn kjördæma hafa verið að gera kröfur til þess að alls staðar skyldi unnið að vegagerð, smáum jafnt sem stórum, í stað þess að taka heildstætt á vegamálum á Íslandi eins og nú stendur til með samræmdri samgönguáætlun. Það er mjög kostnaðarsamt fyrir þjóðfélagið að byrja á vegarspottum hér og þar í stað þess að taka heildstætt á málinu.

Í annan stað held ég að stærsti vandi okkar Íslendinga og seinlætið í vegamálum sé að við vegagerð með bundnu slitlagi hafa menn fylgt gömlum vegarstæðum og áningarstöðum, beygjum og miklum lykkjum á leið til góðra staða, og hafa þurft að búa við að meira hefur verið hugsað um áningarstaðina og um það hvernig vegirnir lágu áður í stað þess að horfa fram veginn eins og nú er gert. Því miður hefði það átt að gerast áður fyrr. Þegar menn fóru að leggja bundið slitlag átti auðvitað að fara beina leið en ekki að fylgja gömlu vegarstæðunum og áningarstöðunum eins og gert hefur verið.