Vegáætlun fyrir árin 2000--2004

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 16:00:09 (8658)

2002-05-02 16:00:09# 127. lþ. 135.11 fundur 680. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000--2004# þál. 28/127, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[16:00]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka formanni samgn., hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni, fyrir svörin. Ég skil þetta svo að ekki sé gert ráð fyrir því að ákvarðanatöku um útboð á tvöföldun Reykjanesbrautar verði frestað fram á haustið vegna þess að það eigi að taka fjármuni úr öðrum verkum. Ég fagna því að hugmyndir eru uppi á borðinu í dag um að hefja tvöföldunina í sumar og reyna að ná eins löngum áfanga og kostur er, sem ég geri ráð fyrir að hæstv. samgrh. muni tilkynna hvað verði langur, og að við munum sjá þær framkvæmdir hefjast strax í sumar. Þá loksins sjáum við hilla undir að Íslendingar muni eignast hraðbraut í orðsins fyllstu merkingu. Tími er til kominn að á Íslandi verði ein hraðbraut og þá á milli eina alþjóðaflugvallar landsmanna og höfuðborgarinnar þar sem ferðatíðnin er sú allra mesta á einum þjóðvegi á landinu.

Ég fagna því, herra forseti, að þessi skuli vera raunin þó að eftir sem áður verði að segja að mörg okkar sem höfum barist fyrir því að láta tvöfalda Reykjanesbrautina trúðum því að sú bókun sem gerð var um vegáætlun fyrir tveimur árum mundi halda. Að framkvæmdir skuli þó hefjast eru vatnaskil í þeirri baráttu sem fram hefur farið á undanförnum árum.