Vegáætlun fyrir árin 2000--2004

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 16:02:19 (8659)

2002-05-02 16:02:19# 127. lþ. 135.11 fundur 680. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000--2004# þál. 28/127, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[16:02]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Það er svo sem ekki að undra þó að hv. síðasti ræðumaður hafi verið dálítið ruglaður í ríminu. Hvaða pappírum ber að trúa og hverjum ekki, hvaða pappírar gilda og hverjir ekki, hvaða bókanir eru marktækar og hverjar ekki? Við stöndum frammi fyrir þeirri margflóknu stöðu að hér erum við í raun og sanni eingöngu að færa til veruleika þá ákvörðun sem meiri hluti Alþingis tók á síðasta hausti, nefnilega að skera niður framlög til vegamála um 1.500 millj.

Hv. þm. Sigríður Ingvarsdóttir kom í andsvar áðan, hældist um og sagði framlög til vegamála aldrei hafa verið meiri en á síðustu árum. Fróðlegt væri að skoða gildandi vegáætlun sem var samþykkt hér á árinu 2000. Staðreyndin er að hún hefur aldrei staðist. Langtímavegáætlun sem samþykkt var 1998 hefur aldrei staðist. Því miður er það þannig enn þá, herra forseti, að hér er stundum um of ráðandi ákveðið daður þar sem ýjað er að því að þetta verði hægt og hitt verði hægt, þar sem verið er að segja hálfsannleika við fólkið í landinu og gefa því vonir um að ráðist verði í þetta eða hitt stórvirkið sem síðan þarf meira og minna að taka aftur þegar til kastanna kemur.

Það er af þeim ástæðum sem ég hef sérstaka samúð með hv. þm. Kristjáni Pálssyni sem bar sig talsvert aumlega, eðlilega, yfir því að hafa hvað eftir annað komið fram fyrir kjósendur sína á Suðurnesjum og raunar norðan megin í kjördæminu líka og talað um að vilji væri fyrir því hjá hinu háa Alþingi, hjá þingmeirihlutanum, að verja miklum fjármunum til þess að tvöfalda Reykjanesbraut, og nefnt bókun og yfirlýsingar og ræður og einlægan vilja. Tölurnar tala hins vegar sínu máli, herra forseti, og við komumst ekki undan því að horfa á þær eins og þær eru. Það er ekkert í spilunum, hvorki hér né í gildandi vegáætlun né á þeim óskalista sem bætt er aftan við niðurskurðartillögu vegna yfirstandandi árs, sem gerir það að verkum að hv. þm. Kristján Pálsson geti farið heim í hérað og sagt: Hér skila ég því sem ég lofaði. Það einasta sem er borðliggjandi er að hægt er að hefja framkvæmdir við 8 km, og tæplega þó, af því stórvirki sem tvöföldun Reykjanesbrautar er. Annað er því miður ekki í hendi.

Það eru að vísu frómar óskir í langtímavegáætlun, ég veit það. En þar er að finna langstærstu fjárhæðirnar á síðustu þremur árum í langtímavegáætlun, nefnilega á árunum 2007--2010. Það fer ekki alveg saman við loforð margra í þá veruna að ljúka eigi tvöföldun Reykjanesbrautar árið 2005. Sumir gengu svo langt að tala um að ljúka ætti þessu árið 2004 og ég man ekki betur en það hafi verið hv. þm. sem kvað upp úr með það. (Gripið fram í.) Við erum eins langt frá því markmiði og frekast getur verið, herra forseti. (KPál: Ég sagði að það væri hægt.) Það væri hægt, já. Það er einmitt þetta sem ég er að segja, herra forseti. Það er verið að ýja að því og gefa út óútfyllta víxla til fólks um að þetta og hitt sé hægt og það sé almennur vilji fyrir því að reyna að koma þessu áfram þegar veruleikinn sem við okkur blasir er allt annar, þegar fjármunirnir sem til skiptanna eru, og skipt hefur verið, segja allt annað. Af því að ég staldraði við Reykjanesbraut og tvöföldun hennar er óhjákvæmilegt að fara aðeins yfir það að í gildandi vegáætlun --- fyrst verðum við hins vegar að koma skikki á það, herra forseti, hvað það er sem við erum að ræða hér og hvað það er sem við erum raunar að ákveða hér. Ég spyr þráðbeint hæstv. ráðherra og raunar formann samgn. einnig: Hvernig líta þeir á þann veruleika sem við okkur blasir?

Í fyrsta lagi er í gildi langtímavegáætlun sem ber að endurskoða á yfirstandandi ári. Hún er auðvitað brotin niður og yfir henni ríkir gildandi fjögurra ára áætlun fyrir árin 2000--2004. Nú erum við að reyna að stemma af þessa fjögurra ára áætlun frá árinu 2000 til ársins 2004 vegna þess að fjárlög stemma ekki við gildandi vegáætlun. Það vantar fjármuni og það þarf að skera niður. Raunar strax á fyrsta ári þessarar fjögurra ára áætlunar hófu menn þann leik með því að taka 700 millj. af. Þeir gerðu betur og fóru enn hraðar yfir sögu á síðasta ári, fóru þá enn þá lengra í niðurskurði. Í tillögum til niðurskurðar á yfirstandandi ári fylgir með, eins og segir í nál. meiri hluta samgn., listi yfir skuldir og skuldbindingar sem mæta þarf á árunum 2003 og 2004. Þetta er nauðsynlegt með hliðsjón af því að vegáætlun sem hér um ræðir nær aðeins til eins árs.

Herra forseti. Spurning mín er þessi: Eru þá tvær veg\-áætlanir í gildi? Ber að líta á þennan lista, þetta fskj., sem ígildi breytinga á gildandi vegáætlun? Nei, auðvitað ekki. Það getur ekki verið. Það er ekki verið að leggja til með formlegum hætti að gerðar verði breytingar á gildandi vegáætlun. Hún gildir þar til henni verður breytt. Ég hlýt að spyrja, herra forseti, og óska eftir skýrum svörum: Hvaða vegáætlun verður í gildi á árunum 2003--2004 eða þar til henni verður að vísu breytt, vonandi, á næsta þingi eins og fyrirheit eru um? Við getum ekki bæði sleppt og haldið. Við getum ekki verið við vinnu --- óhjákvæmilega vinnu, mér er það ljóst vegna þess að forsendur fjárlaga verða að standa --- við að skera niður í vegáætlun ársins 2002 en láta síðan fylgja einhvers konar lausan og fastan óskalista um það hvað kunni að gerast á árunum 2003 og 2004. Í sumum tilfellum fer það saman við gildandi vegáætlun sem samþykkt var fyrir tveimur árum og í öðrum ekki. Það er þar sem er misræmi, og þá spyr ég, herra forseti: Hvort gildir? Þegar heimamenn og aðrir spyrja mig sem þingmann míns kjördæmis, því að þeir sjá á þessu misræmi, hlýtur mér að vefjast tunga um tönn: Hvort er í gildi á næsta ári? Er það vegáætlun sem samþykkt var fyrir tveimur árum eða er það viðaukinn, þetta fylgiskjal, sem samgn. hefur sent frá sér? Vafalaust, og vonandi til að leysa úr þessum vanda, verður heildarendurskoðun hæstv. samgrh. lögð fram á hausti komanda og menn búnir að leysa úr þessum vanda fyrir næstu áramót þannig að á vegáætlunina reyni ekkert sérstaklega í praxís. (JB: Þá fáum við kosningaáætlun.) Ég ætla að koma að því seinna, hv. þm., því að auðvitað erum við engin börn á hv. Alþingi. Auðvitað sjá menn hvað hér er á ferðinni, af hverju verið er að ýta þessum óskalistum öllum fram á haustið í stað þess að menn vinni vinnuna sína eins og vera ber og klári þetta mál á vorþingi eins og venja er til. Það gefur algjörlega augaleið.

Þetta verður hins vegar að vera skýrt. Ég verð að geta svarað því heima í héraði, þegar við göngum frá þessu eina ári, hvort Alþingi Íslendinga hafi í raun verið að samþykkja fylgiskjalið, listann sem fylgir þessum breyttu tölum á yfirstandandi ári, og hafi þar með tekið af lífi gildandi vegáætlun frá 2000--2004. Það er þetta sem gerir alla stjórn þessara mála jafnómarktæka og allt of oft hefur verið. Ég vona svo sannarlega --- það veit sá sem allt veit --- að samræmd samgönguáætlun muni laga til í þessari flóru. Ég er hins vegar ekki handviss um það. Ég held að menn hafi ekki fundið upp einhvern hókus pókus í þeim efnum því að kjarni málsins er sá --- ég veit að hv. þm. sem eru sérstakir áhugamenn um vega- og samgöngumál eru mér auðvitað hjartanlega sammála um það, og hæstv. ráðherrar fyrr og síðar sem með þennan málaflokk hafa höndlað hljóta að vera mér sammála um það --- að verst af öllu er að setja saman áætlanir til skemmri eða lengri tíma sem síðan verður ekki unnt að fara eftir, sem þarf eilíft og aftur að laga fram og til baka aftur og aftur. Nú veit ég mætavel að auðvitað þurfa menn að endurmeta að breyttu breytanda. Það er ekki það sem ég er að tala um hér. Ég er að tala um að á sama árinu og vegáætlun er til samþykktar gerist eitthvað annað við afgreiðslu fjárlaga. Kannski eru of miklir peningar og það þarf að draga saman seglin í vegamálum til að skapa ekki óþarfa þenslu. Þá er einkum og sér í lagi horft á höfuðborgarsvæðið. Það þykir mjög góð afsökun þegar á að svíkja vilyrði á höfuðborgarsvæðinu og loforð og yfirlýsingar í vegáætlun að draga þar saman seglin. Þegar hið sama er gert úti á landi er því gjarnan borið við að spara þurfi í ríkisrekstrinum, og allar áætlanir fara út og suður og þarf að byrja allt upp á nýtt. Í langtímavegáætlun ætluðu menn t.d. 1998 ekki að gera neina stórkostlega hluti í jarðgangagerð. Svo allt í einu vöknuðu menn upp við vondan draum. Það þurfti að gera mönnum gott til hér eða þar og þá fóru menn af stað í fjögurra ára áætlanir árið 2000 og voru uppi með stór áform í þá veruna, áform sem tveimur árum seinna eru skorin niður í ekki neitt eins og hér er, nákvæmlega ekki í nokkurn skapaðan hræranlegan hlut. Samt er gefið undir fótinn með það að fara eigi í útboð. Á sama tíma er þessum fylgiskjölum bætt við þennan óskalista, frómum óskum í þá veruna að 1.500 millj. þurfi á árinu 2003 til jarðgangagerðar á öðrum hvorum eða báðum stöðunum, í Siglufjarðargöngin og Reyðarfjarðargöngin. Í gildandi vegáætlun kveður hins vegar við allt annan tón. Þar stemma ekki tölur. Þeir hljóta því að spyrja fyrir austan og norðan: Hvort gildir? Hvar er sú ákvörðun sem taka ber mark á? Eða á þetta bara að vera fljótandi? Þykir það þægilegast? Kannski er það kjarni málsins. Allt of oft þykir mönnum býsna þægilegt að hafa þetta ekki alveg skýrt upp á punkt og prik og geta aðeins leikið sér með tölur og áform og vonir og væntingar heima í héraði þannig að hv. þm. Kristján Pálsson geti farið suður með sjó og sagt að það séu góðar vonir og mikill vilji til að flýta sér með breikkun Reykjanesbrautar þó að veruleikinn sem við honum blasi á hinu háa Alþingi sé allt annar. Sama gildir með Norðlendinga og Austfirðinga í stjórnarliðinu, að þeir geti farið heim í hérað og daðrað og duflað við kjósendur undir þeim formerkjum að það sé almennur vilji til að gera eitthvað og þeir séu að vinna á fullu í þessum málum.

Það er ljótur leikur, herra forseti, sem við leikum þegar við gerum svona hluti. Við eigum að segja hlutina eins og þeir eru, hvort sem þeir hljóma vel eða illa fyrir umbjóðendur okkar. Það er alla jafna til lengri og skemmri tíma affarasælast.

[16:15]

Í heimabæ mínum, Hafnarfirði, er ráð fyrir því gert að fara í umtalsverðar stórframkvæmdir við Reykjanesbraut innan bæjarmarka Hafnarfjarðar. Að vísu hefur þar orðið nokkur dráttur á framkvæmdum, aldrei þessu vant, ekki vegna þess að fjármunir hafi ekki verið til staðar heldur vegna þess að undirbúningur og aðdragandi hefur verið miklum mun flóknari, víðfeðmari og erfiðari en nokkur gerði ráð fyrir. Upp úr kafinu kemur að kostnaður við þessar endurbætur eða nýframkvæmdir á Reykjanesbraut innan bæjarmarka Hafnarfjarðar hefur rokið upp úr öllu valdi, (Gripið fram í.) er kominn í himnahæðir. Kílómetra kafli frá Kaplakrika suður fyrir Lækjargötu og Hlíðarberg í Hafnarfirði --- margir kannast við bensínstöð á þeim gatnamótum --- er á annan milljarð kr., 1.250 millj. eða þar um bil, bara sá kafli. Í þeim áætlunum sem hér eru fyrir framan okkur vantar talsvert upp á að hægt verði að ljúka bara þessum kafla. Hér eru inni í kringum 680 millj. samkvæmt listanum góða sem ég hafði orð á, að vísu bara 630 millj. samkvæmt gildandi vegáætlun fyrir þessi tilteknu ár þannig að það hefur verið bætt við 50 millj. á þennan óskalista. En það dugir ekki til. Það verður ekki hægt að ljúka verkinu við svo búið. Hér erum við eingöngu að tala um kílómetra kafla. Hvað svo? Uppi eru áform um tvöföldun og niðurgrafningu brautarinnar í gegnum allan Hafnarfjörð meira og minna, allt frá bæjarmörkum Hafnarfjarðar og Garðabæjar og suður fyrir Straum. Þess sér hvergi stað í þessu töfluverki öllu saman, hvorki í fjögurra ára áætlun sem í gildi er né heldur í langtímaáætlun, hvernig eigi að bregðast við þeim verkefnum. Nú bið ég hæstv. ráðherra að leggja við hlustir. Þó að ég geti kannski ekki gert þá kröfu til hans að hann geti svarað mér fullt og fast í þá veruna þá hlýtur hann að hafa hugleitt þessi mál.

Ég er að fjalla um vegabætur á Reykjanesbrautinni og endurbætur á henni innan bæjarmarka Hafnarfjarðar, frá bæjarmörkum Garðabæjar og Hafnarfjarðar og allt suður fyrir Straumsvíkina, því fyrir þann áfanga sem hér er gert ráð fyrir að farið verði í eru aðeins fjármunir upp á 650 millj. í gildandi vegáætlun, en 680 millj. í þessum lista sem ég hef gert að umtalsefni.

Þetta er eingöngu til þess að mæta hluta þess kostnaðar sem á að bjóða út núna á haustdögum á svona um það bil kílómetra kafla, niðurgröfnum að langmestu leyti, og mislæg gatnamót við Lækjargötu/Reykjanesbraut. Ég spyr: Hvað svo? Á að hætta við þetta verk? Markmið Vegagerðarinnar hafa verið þau að það verði hindrunarlaus umferð í gegnum Hafnarfjörð eins og aðra þéttbýlisstaði á höfuðborgarsvæðinu frá alþjóðaflugvellinum í Keflavík. En það er svo langur vegur frá að það verði með þessum hætti. Hér er aðeins um smáskák að ræða. Fróðir menn hafa sagt mér að ef það eigi að ljúka því verkefni að lemja sig í gegnum Hafnarfjörð með hraðbraut neðan jarðar eða ofan jarðar þá verði heildarkostnaðurinn aldrei undir 3--4 milljörðum kr. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort það liggi eitthvað fyrir og hvort bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hafi unnið heimavinnu sína hvað varðar legu brautarinnar ofanvert við og umleikis Straumsvíkursvæðið.

Ég fjallaði áðan um tvöföldun Reykjanesbrautarinnar frá Straumi að Fitjum. Sú framkvæmd hefur farið í umhverfismat. Það er búið að hanna hana að verulegu leyti. Hún er tilbúin til framkvæmda að mestu leyti. En hvað svo? Hvað gerist þegar menn koma sunnan úr Keflavík og ætla sér til Hafnarfjarðar eða inn á höfuðborgarsvæðið? Eftir því sem ég best veit liggur ekkert fyrir um það. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann geti upplýst mig nokkuð nánar um það. Ég hef verið að spyrja eftir því, en engin svör fengið. Auðvitað verður að standa að vegamálum eins og öllum öðrum framkvæmdum. Vegamál eru ekkert öðruvísi en að byggja hús eða mannvirki. Menn hætta ekki í miðju kafi. Menn leggja ekki til einhvern smábút til þess að liðka fyrir umferð og síðan eru stíflur beggja vegna. Þannig horfir þetta við á þessu svæði, því miður.

Ég ætla að nota ferðina og benda hæstv. ráðherra og fleirum á að mat mitt hefur lengi verið, af því að framkvæmdir eru ekki hafnar á þessu svæði, að hægt væri að gera þetta miklum mun ódýrara og skilvirkara. Þá er ég að vísa til þess að í stað þess að fara í þessar milljarða framkvæmdir innan bæjar í Hafnarfirði væri miklu skynsamlegra að leggja ofanbyggðarveg, góðan og greiðfæran veg ofan byggðar í Hafnarfirði sem tengdist síðan við byggðarlögin Garðabæ og Kópavog og endaði á Suðurlandsvegi og síðan Vesturlandsvegi. Þessi vegur hefur stundum verið inni og stundum úti. Allt frá því að ég gegndi störfum framkvæmdastjóra Hafnarfjarðarbæjar hef ég verið mikill ákafamaður um þetta. Ég fékk dágóðar undirtektir á þeim árum. Þessi mál hafa hins vegar, finnst mér, fallið milli skips og bryggju. Menn eru mjög uppteknir af því að fara í þessar rándýru framkvæmdir innan bæjarins og setja raunar Reykjanesbrautina að meira eða minna leyti í stokk í gegnum allar Hafnarfjörð þannig að þeir sem þar fara um sjá aldrei bæinn heldur keyra neðan jarðar í lokuðum stokki eða opnum eftir efnum og ástæðum á 80 km hraða í gegnum bæinn með tilheyrandi kostnaði.

Ofanbyggðarvegur sem færi ofanvert við iðnaðarsvæðið gegnt álverinu í Straumsvík og síðan norðanvert eða austanvert við Ásfjallið í legu gamla Flóttamannavegarins og tengdist síðan niður í Garðabæ, fyrst hjá Urriðakotsvatni niður á Reykjanesbrautina núverandi, í öðru lagi ofanvert við Vífilsstaði og væri með nokkrar tengingar við byggðina væri miklu skynsamlegri, ódýrari og eðlilegri leið. Ég held að skynsamlegt væri að hæstv. ráðherra notaði sumarið og gaumgæfði þennan þátt málsins því hann þarf miklu meiri peninga til þess að loka dæminu, og þá jafnvel á langtímavegáætlun næstu tólf árin, á Hafnarfjarðarsvæðinu til þess að fullnægjandi sé. Þessari vinsamlegu ábendingu vildi ég koma til hæstv. ráðherra því að um þetta gildir það sama og um Reykjanesbrautina sem ég gat um áðan, að á næstu þremur árum að þessu meðtöldu eru eingöngu til ráðstöfunar 800 millj. kr. til tvöföldunar Reykjanesbrautar frá Straumi suður í Fitjar.

Herra forseti. Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðherra að einu í sambandi við þetta því ég hef séð hönnun þessarar brautar og af því að ekki eru til allt of miklir peningar til skiptanna. Þar skipta hverjar 10 millj. máli. Hverjar 100 millj. skipta mjög miklu máli. Ég sá það í hönnun brautarinnar að gert er ráð fyrir mjög mislægum gatnamótum í Hvassahrauninu. En þar er engin byggð því sem næst. Ég kann ekki nákvæmlega á þetta. Ætli heils árs byggð sé ekki þarna í tveimur húsum. Einhver sumarhús eru þarna. Þau eru teljandi á fingrum annarrar handar. Á fundum með Vegagerðinni var okkur svarað því til að þarna þyrftu að koma mislæg gatnamót upp á 100 millj. kr. til þess að tryggja að ekki væru krossgatnamót á brautina alla leið og einnig til þess að hjólandi vegfarendur gætu farið yfir brautina einmitt þarna. Til eru miklu ódýrari leiðir til þess að leysa þennan vanda, a.m.k. tímabundið.

Herra forseti. Ég verð að segja eins og er að mér finnst það dálítill skandall og flottræfilsháttur að verja 100 millj. kr. til þess að búa til mislæg gatnamót sem ég skýt á, án þess að ég viti það, að fari 20 bílar um, kannski 30, á hverjum sólarhring --- ég efast um að þeir séu svo margir --- í stað þess þá að leyfa þessu fólki að fara með hægri beygju inn á brautina og keyra suður úr 2 km og taka síðan hring á mislægum gatnamót sem eru í Kúagerði.

Ég er bara með markvissar ábendingar til hæstv. ráðherra um að þó að litlir peningar séu ætlaðir í brautina er óþarfi að nota þessa litlu peninga til að fremja skandal á borð við þennan því að 100 millj. skipta máli. Þetta eru litlir peningar í hinu stóra dæmi. Því geri ég mér fullkomlega grein fyrir. En safnast þegar saman kemur.

Ég get svo sem haldið áfram að ræða þessi mál. Ég ætla hins vegar ekki að eyða tíma þingsins öllu frekar en ástæður eru til. Ég hef alla samúð með hæstv. ráðherra að þurfa að koma hingað til þingsins og þurfa að finna niðurskurði fjárlagagerðar frá desember sl. stað við þessar aðstæður þegar menn hafa verið að lofa á hægri og vinstri hinu og þessu. En þetta er veruleiki sem hann þarf að eiga við. Hann tapaði þessum slag við fjárlagagerðina, því að ég gef mér það að hæstv. samgrh. hafi tekið slag til að fá að halda sig við gildandi vegáætlun, þá vegáætlun sem Alþingi samykkti árið 2000 og stjórnarmeirihlutinn skar rækilega niður í desember sl. við fjárlagagerð yfirstandandi árs og er nú að uppskera í samræmi við það. Hér er auðvitað um verk stjórnarmeirihlutans að ræða. Hann er að standa frammi fyrir þeim gjörðum sem hann bar ábyrgð á við fjárlagagerðina í desember sl. Þess vegna gengur það ekki að einstaka stjórnarliði komi hálfkjökrandi í stólinn og beiðist undan því að þurfa að bera ábyrgð á eigin verkum og gjörðum. Þetta er hreinlega afleiðing þeirra eigin gjörða.

Auðvitað hefur margt verið ágætlega gert í vegamálum á síðustu árum. Ég ætla alls ekki að draga úr því. Ég efast ekkert um vilja og heilindi hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar, stjórnarmeirihlutans og allra þingmanna til þess að halda áfram því átaki sem hefur verið gert í þeim efnum. Mest er hins vegar um vert --- og þá árétta ég þau orð sem ég hóf ræðu mína á --- að við þær áætlanir sem gerðar eru verði hægt að standa og hægt að taka mark á þeim þannig að almenningur í þessu landi, fólk í dreifðum byggðum og í þéttbýli, geti með nokkurri vissu vitað að ályktanir Alþingis séu marktækar, ekki aðeins út árið heldur út allt áætlunartímabilið. Þannig hefur það því miður ekki verið. Það eru vond vinnubrögð sem við eigum ekki að temja okkur heldur snúa af braut með. Við í stjórnarandstöðunni getum hjálpað stjórnarliðunum með að standa þannig að verki að eitthvert vit sé í og að áætlanir séu þannig unnar að þær standist bæði tímans tönn og sveiflur og hæðir og lægðir í efnahagskerfi þjóðarinnar sem ævinlega verða alltaf til staðar.