Vegáætlun fyrir árin 2000--2004

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 16:38:07 (8664)

2002-05-02 16:38:07# 127. lþ. 135.11 fundur 680. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000--2004# þál. 28/127, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[16:38]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Við tökum til umræðu vegáætlun og ljóst að á því máli eru margar hliðar sem ástæða er til að velta upp. Hægt er að skoða málið t.d. út frá skiptingu á fjármagni til vegaframkvæmda til höfuðborgarsvæðisins annars vegar og landsbyggðarinnar hins vegar, sem ég ætla nokkuð að gera í máli mínu, og einnig þarf að skoða þetta mál líka út frá þáttum eins og nýlegri umferðaröryggisáætlun sem ríkisstjórnin kom með inn í þingið og hefur verið samþykkt og inna t.d. hæstv. samgrh. eftir því um umferðaröryggisáætlun og stefnumótun um aukið umferðaröryggi sem hér hefur verið samþykkt í 15 liðum, hvort fjármagn til vegaframkvæmda og vegáætlunar sé í samræmi við þá stefnumótun og hvort það sé svo þegar verið er að veita fjármagn til vegamála að stefnumótun í umferðaröryggismálum sem þingið hefur haft til skoðunar og búið er að samþykkja sé höfð til hliðsjónar.

Það er nefnilega allt of oft svo þegar verið er að samþykkja ýmis góð stefnumið og stefnumótanir í hinum ýmsu málaflokkum að minna verður úr því að framkvæmdarvaldið fari eftir því sem þingið setur framkvæmdarvaldinu í því efni. Þetta er allt of oft skraut sem lítið er notað eða höfð hliðsjón af þegar verið er að móta stefnur eða framkvæmdir í hinum ýmsu málaflokkum. Vissulega er það svo að vegáætlun á hverjum tíma og hvað er veitt til vegamála skiptir auðvitað máli upp á umferðaröryggi.

Ég held nefnilega, herra forseti, að sá niðurskurður og frestun sem við erum núna að ræða, niðurskurður fjármagns til samgöngumála og frestun á þeim, t.d. til nýframkvæmda, og ég get tekið höfuðborgarsvæðið sem dæmi og vissulega landsbyggðina líka, gangi gegn áætlun ríkisstjórnarinnar um að auka umferðaröryggi. Ég tel að allur niðurskurður og hvernig haldið hefur verið á þeim málum, t.d. að því er varðar höfuðborgarsvæðið og höfuðborgina, auki verulega á slysahættu. Umferðarþunginn hefur farið stöðugt vaxandi í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu er síaukin slysahætta, en gatnakerfið annar engan veginn umferðarþunganum á helstu álagstímum. Það er því alvarleg ógn við umferðaröryggi í borginni ef skera á niður fé til vegamála.

Arðsemi vegaframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu er líka yfirleitt mjög mikil sem skilar sér í miklu færri tjónum og slysum. Þegar við lítum á stefnumótun sem var samþykkt um aukið umferðaröryggi, þá ályktaði Alþingi að á næstu 11 árunum eða til loka ársins 2012 skuli stefnt að fækkun alvarlegra umferðarslysa um 40% miðað við fjölda slysa árin 2000 og 2001 og því takmarki verði náð með sameiginlegu átaki ríkis, sveitarfélaga, fyrirtækja og áhugahópa um umferðaröryggismál. Sú áætlun liggur fyrir mjög ítarleg og þar er einmitt talað um það í einum tölulið af þessum 15 að vinna skuli að því að bæta umferðarmannvirki með tilliti til aukins umferðaröryggis. Þetta er mikilvægt að skoða með það í huga sem hér er verið að afgreiða, en samkvæmt tillögum meiri hlutans er gerð tillaga um niðurskurð til vegamála frá gildandi vegáætlun á þessu ári um 2.219 millj. ef teknar eru með fjárveitingar til vegamála sem frestað var á síðasta ári um 700 millj. kr. og þá er beinn niðurskurður á þessu ári rúmar 1.500 millj. kr.

Herra forseti. Ég sagði að nauðsynlegt væri að skoða skiptinguna á vegafé og ég vil segja það, herra forseti, og hef ég setið nokkuð lengi á þingi, að ég hef fullan skilning á því að verulegur hluti af því fjármagni sem er til skiptanna hverju sinni þurfi að renna til landsbyggðarinnar. Ég hef tekið þátt í því, herra forseti, nokkuð mörgum sinnum á Alþingi að samþykkja að veita hlutfallslega miklu meira fjármagn út á landsbyggðina en hingað til höfuðborgarsvæðisins. Auðvitað er það svo að vegasamband við landsbyggðina var slæmt á árum áður og vissulega hefur það lagast mjög mikið. Samgöngur voru mjög erfiðar og eru víða enn þá og þess vegna höfum við þingmenn fyrir Reykjavík og Reykjanes haft skilning á því að veita þurfi hlutfallslega meira fjármagn út á landsbyggðina.

Engu að síður er athyglisvert, herra forseti, að skoða skiptinguna á fjármagni til nýframkvæmda alveg frá árinu 1995 til ársins 2001 og skoða hvað mikið hefur komið í hlut höfuðborgarsvæðisins og hve mikið í hlut landsbyggðarinnar og þær tölur eru nokkuð athyglisverðar. Höfuðborgarsvæðið hefur á sjö árum, frá 1995 til 2001, fengið tæpa 8 milljarða í sinn hlut en landsbyggðin 30 milljarða. Við erum þó, herra forseti, að tala um að á höfuðborgarsvæðinu eru 178 þús. íbúar og rúmlega 100 þús. á landsbyggðinni. En það er ekki nema fjórðungur sem hefur runnið á höfuðborgarsvæðið á þessu sjö ára tímabili, en 3/4 af öllu vegafé til nýframkvæmda eða 30 milljarðar hafa runnið til landsbyggðarinnar þannig að við erum að tala um út frá því að verulega hallar á höfuðborgarsvæðið í þessu efni, enda er það svo eins og ég nefndi í máli mínu að vegakerfíð á höfuðborgarsvæðinu og hérna í höfuðborginni annar engan veginn sívaxandi umferðarþunga með tilheyrandi slysahættu. Það sem við erum að kalla eftir, herra forseti, er að stjórnarflokkarnir hafi skilning á því að það verður líka að auka fjármagn til höfuðborgarsvæðisins til vegamála.

[16:45]

Þegar við ræðum fjármagn til vegaframkvæmda og niðurskurð í því efni og frestun á framkvæmdum skulum við hafa í huga að bifreiðaeigendur leggja mjög mikið fjármagn í ríkissjóð vegna þess að tekjur af bifreiðaeigendum eru gríðarlega miklar. Þær voru t.d. á árinu 2000 um 30 milljarðar. En á árinu 1995 voru þær 18,6 milljarðar kr. Það eru því sívaxandi tekjur af bifreiðaeigendum.

Það er líka staðreynd, sem vert er að hafa í huga þegar verið er að ræða fjármagn til vegamála, að tekjur sem ríkið hefur af bifreiðaeigendum eru miklu hærri hlutfallslega eða sem hlutfall af landsframleiðslu en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Samgöngur eru hér með þeim hætti að við verðum að veita myndarlegt fjármagn til þeirra verkefna. Eins og ég segi: Við þingmenn á höfuðborgarsvæðinu höfum haft mikinn skilning á vegaframkvæmdum á landsbyggðinni, en ætlumst líka til þess að sá skilningur sé gagnkvæmur og að við fáum fjármagn til þess að mæta vaxandi umferðarþunga á vegakerfinu á höfuðborgarsvæðinu, ekki síst í Reykjavík.

Þetta vildi ég láta koma fram, herra forseti. Ég sé að það á að skera niður. Ef ég horfi til Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins þá verður aðallega núna færsla Hringbrautar fyrir barðinu á niðurskurðinum. Þær framkvæmdir hafa orðið miklu dýrari en upphaflega var áætlað. En þetta er auðvitað svo brýn vegaframkvæmd að það er mjög slæmt ef þarf að fresta henni vegna fjárskorts.

Ég vildi gera að umtalsefni tvær samgöngubætur sem Reykvíkingar horfa mikið til. Í fyrsta lagi er það Sundabrautin. Tvær leiðir hafa farið í umhverfismat, ef ég skil málið rétt. Um það er tekist milli borgaryfirvalda og Vegagerðarinnar, sem ráðherra stýrir, hvora leiðina eigi að fara. Maður hefði haldið að það væri borgaryfirvalda að ráða nokkuð ferðinni í því máli. Ég hef ekki skilið annað en að bæði meiri hluti og minni hluti í borginni vilji fara þá leið sem borgaryfirvöld mæla með, þ.e. hina svokölluðu miðborgarleið norðan Holtagarða. Um þá leið er samkomulag í borginni. Það er sú leið, ef ég skil málið rétt, sem alltaf hefur verið á skipulaginu. Ég spyr hæstv. ráðherrann um afstöðu hans til þess að styðja borgaryfirvöld í þeirri leið sem samkomulag er um hjá minni hluta og meiri hluta að fara í þessu máli að því er varðar Sundabrautina.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra hvort nokkuð liggi fyrir um arðsemismat á Sundabraut, t.d. á þeirri leið sem hér er verið að leggja til af hálfu borgaryfirvalda. Ég spyr hvort borgaryfirvöld hafi ekki stuðning hæstv. ráðherra í að fara þá leið.

Síðan hefur verið tekist á, eins og menn þekkja, um gatnamót Miklubrautar og Hringbrautar sem er ekki hægt, herra forseti, að fresta miklu lengur og verður að taka á. Þar er mjög mikil slysahætta eins og allir vita. Hæstv. ráðherra þarf ekki að eyða tíma sínum í ræðustól að ræða um þann ágreining sem hefur verið um málið. Núna liggja fyrir ákveðnar hugmyndir um að taka á þessum málum með því að leggja Kringlumýrarbraut í stokk undir Miklubraut. Þetta er á aðalskipulagi Reykjavíkur og bíður staðfestingar ráðherra. Ég spyr hæstv. ráðherra hvað hann sjái fyrir sér varðandi þá miklu framkvæmd sem margir horfa til. Ég er alveg sannfærð um að arðsemi slíkrar framkvæmdar er gífurlega mikil. (Gripið fram í.) Ég spyr hvort nokkuð liggi fyrir t.d. um arðsemi þessara tveggja vegaframkvæmda sem ég er hér að nefna.

Þetta vildi ég sagt hafa, herra forseti. Við samgrh. tókumst nokkuð á um fjármagn til höfuðborgarsvæðisins. Á síðasta þingi hafði orðið verulegur niðurskurður til framkvæmda í Reykjavík eins og á árinu 2000. Af því að ég er með fyrir framan mig skiptinguna milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar, þá fékk höfuðborgarsvæðið ekki nema 724 millj. í sinn hlut, sem var bætt upp á árinu 2001 að nokkru leyti, á móti 4,4 milljörðum sem fóru á landsbyggðina. Það er alveg gegnumgangandi á því sjö ára tímabili sem ég er með fyrir framan mig að þrisvar til fjórum sinnum meira gengur í vegaframkvæmdir á landsbyggðinni.

Herra forseti. Ég skal ekki eyða tíma þingsins lengur í þetta mál þó það sé mjög brýnt og mikilvægt. Ég hefði viljað og óska eftir því að ráðherrann tjái sig aðeins um þær tvær framkvæmdir sem ég nefndi og hvernig hann sér þau mál fyrir sér á næstu árum, þ.e. hvernig hægt sé að ljúka þeim og hvort þess sé ekki að vænta að hann styðji þær framkvæmdir. Ég á að vísu ekki von á því að hann verði neitt lengur í stól samgrh. eftir næstu kosningar fremur en aðrir ráðherrar Sjálfstfl. En meðan hann stýrir þessum málum beini ég því til hans hvernig hann sjái fyrir sér þær brýnu vegaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu sem ég hef nefnt.