Vegáætlun fyrir árin 2000--2004

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 17:49:48 (8670)

2002-05-02 17:49:48# 127. lþ. 135.11 fundur 680. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000--2004# þál. 28/127, Frsm. 1. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[17:49]

Frsm. 1. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég gagnrýndi í ræðu minni niðurskurð til vegaframkvæmda frá vegáætlun. Ég gagnrýndi líka að verið væri að tengja vegaframkvæmdir sölu á einstökum ríkisfyrirtækjum sem mér finnst alveg fráleit nálgun.

Hins vegar kom hæstv. ráðherra og sagði að það þyrfti fjármagn til framkvæmda og auðvitað þarf fjármagn og þá forgangsröðun. Ég get bent hæstv. ráðherra á það t.d. að ég hefði talið skynsamlegra og eðlilegra að taka þær 300 millj. sem lagðar voru til einkavæðingarnefndar til þess að vinna að einkavæðingu Landssímans og setja þær í vegaframkvæmdir. Það hefði verið miklu eðlilegra. Og úr því að við erum hætt við að selja Landssímann, getum við þá ekki tekið þær 300 millj. og lagt þær í vegarspotta, vegaframkvæmdir?

Sömuleiðis hefðu þær 300 millj., eða hvað það nú er, 250--400 millj. sem fara eiga í NATO-fund sem á að halda á næstu dögum, verið betur komnar í vegaframkvæmdir t.d. úr því að hæstv. ráðherra er að spyrja um hvert megi sækja fjármagn. Þetta er spurning um forgangsröðun.

Hvað það varðar að þingmenn skipti ákveðnu fjármagni sem er deilt á kjördæmin, þá var það bara svo að ekki eru nema þrjár eða fjórar vikur síðan þingmenn Norðurl. v. voru kallaðir saman til þess að skipta því litla fjármagni sem þar var til útdeildingar. Þá lá niðurskurðurinn fyrir, niðurskurðurinn var ákveðinn í fjárlagagerð fyrir nærri ári síðan, á miðju ári á haustdögum fyrir nærri ári síðan, þá lá niðurskurðurinn fyrir og ákvörðun um framkvæmdir þannig að þingmenn standa nánast frammi fyrir orðnum hlut. Ég harma t.d. að það skuli verða að fresta framkvæmdum við breikkun á Vatnsdalsá, ég vil bara segja það. En þingmennirnir standa í rauninni frammi fyrir gerðum hlut að stórum hluta þegar þeir eiga að fara að skipta því vegafé þannig að þetta var óþarfaskot hjá hæstv. ráðherra.