Vegáætlun fyrir árin 2000--2004

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 17:52:07 (8671)

2002-05-02 17:52:07# 127. lþ. 135.11 fundur 680. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000--2004# þál. 28/127, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[17:52]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en mér finnst ekki mikið að þakka þó að einhver aukning hafi orðið á vegafé á föstu verðlagi þegar borin eru saman tímabil frá 1987--1992 eins og ráðherrann gerði eða frá 1995--2000. Það er ekki saman að jafna raunaukning á þjóðartekjum á þessu tímabili eða hvað ríkisvaldið eða ríkissjóður hefur haft í tekjur af bifreiðaeigendum, t.d. þegar tekin eru árin 1995 og 2000 þar sem aukning á fjármagni af bifreiðaeigendum sem ríkið hefur haft hefur aukist um 10--12 milljarða á þessu tímabili.

Það sem ég var aðallega að vekja athygli á er að höfuðborgarsvæðið hefur ekki fengið nema 1/4 af vegafé, af 38 milljarða kr. vegafé sl. sjö ár. Ég er að biðja um að höfuðborgarsvæðinu sé sýndur ákveðinn skilningur í þessu efni vegna þess að mikið umferðaröngþveiti er orðið á háannatímanum á höfuðborgarsvæðinu og veruleg slysahætta orðin og það þarf að taka verulega á í því efni.

En ég fagna því sem fram kom hjá hæstv. ráðherra varðandi Kringlumýrarbrautina. Það kom fram hjá ráðherra að hann telji að þessi mikilvæga samgöngubót eigi að koma framarlega í röð við endurskoðun á vegáætlun í sumar og haust. Ég fagna þeirri yfirlýsingu og tel að þarna sé ákveðin lausn í sjónmál sem menn hljóta að fylgja fast eftir. Ég spyr um arðsemismat að því er varðar Kringlumýrarbrautina. Liggur eitthvað fyrir um það?

Síðan varðandi Sundabrautina þá eru tvær leiðir í umhverfismati og það er mjög mikilvægt að fylgja því eftir sem borgin velur í því efni. Bæði minni hlutinn og meiri hlutinn vilja fara þarna ákveðna leið sem kölluð er miðborgarleiðin norðan Holtagarða sem hefur alltaf verið á skipulagi. En ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvenær arðsemismat muni liggja fyrir að því er varðar þessar tvær leiðir við Sundabrautina. Ég held að það sé afar mikilvægt að fá það fram sem fyrst.