Umhverfisstofnun

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 19:53:32 (8692)

2002-05-02 19:53:32# 127. lþ. 135.13 fundur 711. mál: #A Umhverfisstofnun# frv. 90/2002, Frsm. meiri hluta MS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[19:53]

Frsm. meiri hluta umhvn. (Magnús Stefánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson velti fyrir sér því sem fram kemur í frv. um staðsetningu stofnunarinnar. Það kom fram hjá fulltrúum ráðuneytisins að tillagan í frv., um að stofnunin sé staðsett í Reykjavík, markaðist fyrst og fremst af því að með því væri ekki verið að raska högum starfsfólks. Þær stofnanir sem verið er að sameina, þ.e. fyrst og fremst Hollustuverndin og Náttúruvernd ríkisins, eru staðsettar í Reykjavík. Eftir umfjöllun í nefndinni var niðurstaðan sú að gera tillögu um þá breytingu að stofnunin yrði staðsett á höfuðborgarsvæðinu. Það liggur að vísu ekki fyrir formleg skilgreining á höfuðborgarsvæði, að því er ég best veit, en ég hygg að menn hafi haft í huga svæði sem hv. þm. reyndar nefndi, Reykjavík og kragann. Það er alla vega minn skilningur. Ég geri hins vegar ráð fyrir að umhvrn. muni vinna úr því.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því að í nál. 2. minni hluta, sem fulltrúar Samfylkingarinnar standa að, er fjallað um þetta og þar telja hv. þm. fráleitt að kveða á um það í lögum að stofnun skuli staðsett í Reykjavík, höfuðborgarsvæðið sé eitt atvinnusvæði og það hljóti að ráðast af framboði hentugs leiguhúsnæðis á svæðinu hvar hagkvæmast er að setja niður stofnunina. Ég sé að hv. þm. 2. minni hluta eru sammála meiri hlutanum hvað þetta varðar. Það er auðvitað ánægjulegt mál.

Ég hygg að ég hafi svarað spurningu hv. þm. og vona að hann sé sáttur við það.