Umhverfisstofnun

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 19:56:49 (8694)

2002-05-02 19:56:49# 127. lþ. 135.13 fundur 711. mál: #A Umhverfisstofnun# frv. 90/2002, umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[19:56]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðurnar um þetta mál. Það hefur komið fram í máli nokkurra hv. þingmanna að við hefðum betur skoðað málefni eða stofnanir sem falla undir landbrn. og sjútvrn. við þessa uppstokkun. Eins og ég skýrði fyrr í umræðunum um þetta mál skoðuðum við einungis stofnanir umhvrn. Það er mun flóknara að skoða málaflokka sem tilheyra öðrum ráðuneytum. Ég tel málið það gott að við ákváðum að gera þetta svona, þ.e. skoða ekki stofnanir annarra ráðuneyta og bíða ekki eftir Matvælastofnun sem ég tel að verði stofnuð innan skamms. Það er mikill vilji til þess. En vegna þess að málið er til bóta fyrir umhverfismál í landinu var ákveðið að gera þetta strax en bíða ekki eftir hugsanlegum breytingum á öðrum sviðum.

Hér hefur komið fram í umræðunum að störf flytjist af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið með þessu frv. og með stofnun Umhverfisstofnunar. Þetta er alrangt. Ég undirstrika að þetta er alrangt. Ef eitthvað er skapast tækifæri fyrir aukna starfsemi úti á landsbyggðinni. Sú starfsemi sem núna fer fram á Akureyri og á Austurlandi, þar sem verða útibú nýrrar Umhverfisstofnunar, er mun einhæfari en sú starfsemi sem fram fer hjá nýrri Umhverfisstofnun. Það skapast tækifæri til að flytja störf á verksviði Hollustuverndar og verksviði Náttúruverndar út á landsbyggðina eftir að nýja stofnunin hefur tekið til starfa. Við vitum ekki nákvæmlega hvenær það mundi gerast en allt bendir til þess að útibúin muni sinna fjölbreyttari starfsemi hjá Umhverfisstofnun en nú er hjá veiðistjóraembættinu og hreindýraráði.

Hér var spurt sérstaklega um starfsemina á sviði hreindýramála. Það kemur fram í almennum athugasemdum með frv. að starfsemin sem nú fer fram á sviði hreindýramála verður áfram á Austurlandi. Það er því alls ekki þannig, eins og hv. þm. Einar Már var að ýja að, að færa ætti þá starfsemi til Reykjavíkur. Það er alls ekki meiningin og hefur komið skýrt fram í umræðunni um þetta mál.

Ég tel eðlilegt að fara þá leið sem meiri hluti umhvn. bendir á, þ.e. málið verði skoðað í starfshópnum sem undirbúa mun skipuritið fyrir Umhverfisstofnun, starfshópurinn er tilgreindur í ákvæði til bráðabirgða undir lið nr. 2. Ég tel eðlilegt að sá hópur skoði þessa hugmynd og hvernig hægt er að koma þeirri ráðgjöf sem farið hefur fram hjá hreindýraráði til Umhverfisstofnunar í nýrri mynd. Ég tek undir að slík hugmynd verði skoðuð.

Varðandi það hvernig unnið er að þessu máli er ég ósammála því að illa sé staðið að undirbúningi málsins. Ég tel eðlilegt að gera þetta með þessum hætti, þ.e. að ákveða að stofna Umhverfisstofnun og síðan setji forstöðumennirnir ásamt ráðuneytinu upp skipurit fyrir hina nýju stofnun og þetta verði gert hratt. Það hefur komið fram að forstöðumennirnir styðja þessa aðferð og telja að ganga eigi frá málinu hratt en ekki að fara í hægfara sameiningu. Þess vegna tel ég þetta rétta aðferð.

Ég vil leiðrétta tvennt sem hér hefur komið fram. Í fyrsta lagi hefur komið fram hjá 1. minni hluta að umhvrh. hafi símleiðis talað við forstöðumenn nokkrum stundum áður en þetta mál kom í fjölmiðlum. Það er alrangt. Þetta mál var kynnt á fundi með forstöðumönnum síðasta haust úti í Viðey. Það er afar langt síðan. Það er því ekki eins og þetta mál hafi komið upp í einhverjum símtölum nokkrum stundum áður en það kom fram í fjölmiðlum, alls ekki.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson hélt því fram að ég hefði verið að hlæja að þessu máli en það var alls ekki þannig. Ég var að hlæja að orðum hans um að þingstörfum mundi ljúka í nánustu framtíð. Ég vil alls ekki að það komi fram í þingtíðindum að ég hafi gert lítið úr þessum málum eins og hv. þm. hélt fram hér.

Virðulegi forseti. Ég tel eðlilegt, óski umhvn. eftir því, að hún hitti starfshópinn sem undirbýr stofnun Umhverfisstofnunar. Ég mun beita mér fyrir því að sá starfshópur kynni þetta mál fyrir hv. umhvn. ef nefndin óskar eftir því, eftir því sem þessu máli vindur fram.