Umhverfisstofnun

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 20:11:06 (8700)

2002-05-02 20:11:06# 127. lþ. 135.13 fundur 711. mál: #A Umhverfisstofnun# frv. 90/2002, Frsm. 2. minni hluta ÞSveinb (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[20:11]

Frsm. 2. minni hluta umhvn. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil af tilefni orða hæstv. umhvrh. í þessu síðasta andsvari vekja athygli á því að þó að svokölluð fagleg samlegðaráhrif geti orðið jákvæð er ekki þar með sagt að þau verði það. Hins vegar lýsti ég því í framsögu minni að við erum jákvæð gagnvart hugmyndinni sem slíkri.

Það eru hins vegar þessi vinnubrögð, herra forseti, sem eru hreint út sagt óviðunandi. Í öðrum löndum í Evrópu þar sem slíkar stofnanir hafa verið settar á fót hafa menn tekið sér nokkur missiri, nokkur ár, til undirbúnings til að tryggja að faglega væri staðið að málum, og allir hafðir með í ráðum eins og þar segir, herra forseti.

Mig langar að spyrja hæstv. umhvrh. hvort hún hafi hugsað sér að leita ráða hjá starfsfólki þessara stofnana og þá öðrum en forstöðumönnunum, eða forstjórunum núverandi sem verða síðan forstöðumenn einhverra deilda --- og síðan verður ráðinn forstjóri í sumar á stofnunina --- um þessa sameiningu, hvernig það muni gert og hvort hún muni tryggja starfsfólkinu sæti í starfshópnum.

Það var nefnilega þannig, herra forseti, að þegar fulltrúar starfsfólks komu á fund umhvn. hafði einn starfsmaður það á orði að betri væri snöggur dauði en aumt líf, og ég held að í þessari setningu kristallist viðhorf starfsfólksins til þessarar sameiningar. Það var tekin pólitísk ákvörðun. Starfsmenn voru aldrei spurðir um afstöðu sína til málsins. Nú á að láta þetta yfir sig ganga og þá er eins gott að það verði snöggt.