Umhverfisstofnun

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 20:12:50 (8701)

2002-05-02 20:12:50# 127. lþ. 135.13 fundur 711. mál: #A Umhverfisstofnun# frv. 90/2002, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[20:12]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú gerist umræðan heldur dramatísk. Ég tel að eðlilega hafi verið staðið að undirbúningi þessa máls. Ég vil draga það fram að forstöðumennirnir eru jákvæðir gagnvart því. Þeir telja þetta almennt til bóta þrátt fyrir að þeir sjálfir séu kannski í mestri óvissu um störf sín af því að það er alveg ljóst að þrír forstöðumenn komast ekki fyrir í einni stöðu nýs forstöðumanns. Mér finnst það segja ansi mikið um þetta mál að þeir sem þekkja mjög vel til telji það til bóta. Þeir telja mörg tækifæri falin í því máli að stofna nýja umhverfisstofnun þar sem menn geti lagt saman krafta sína og fengið faglegri og sterkari stofnun sem niðurstöðu.

Forstöðumennirnir eru fulltrúar starfsfólksins í undirbúningshópnum. Það liggur í augum uppi. Ég tel eðlilegt að starfshópurinn sem á að undirbúa Umhverfisstofnunina haldi fundi með starfsmönnum og ræði málin við þá. Forstöðumennirnir og starfsmennirnir hafa mesta þekkingu á sviði núverandi stofnana. Það er að sjálfsögðu eðlilegt að þetta verði rætt þar. Aðalkeppikeflið er að fá sterka stofnun út úr þessari sameiningu, og ég held að það sé best gert með því að menn vinni saman. Ég hefði ekki viljað gera þetta í öfugri röð, þ.e. setjast fyrst niður og setja upp skipuritið og fara svo að skoða lagafrv. (Gripið fram í.) Ég held að það eigi einmitt að gera þetta svona, taka ákvörðun og svo setja upp skipuritið. (Gripið fram í.) Og það mun örugglega breytast eftir því sem mál þróast. Það mun ekki verða um alla eilífð eins og það mun líta út fyrst.