Umhverfisstofnun

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 20:14:56 (8702)

2002-05-02 20:14:56# 127. lþ. 135.13 fundur 711. mál: #A Umhverfisstofnun# frv. 90/2002, Frsm. 2. minni hluta ÞSveinb (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[20:14]

Frsm. 2. minni hluta umhvn. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Þegar embættismenn, forstjórar ríkisstofnana, standa frammi fyrir pólitískri ákvörðun af þessu tagi hafa þeir um tvennt að velja, að vera jákvæðir og taka þátt í ferlinu eða hreinlega, held ég, segja upp starfi sínu. Það er í raun og veru ekkert val, herra forseti, þannig að ég gef ekki mikið fyrir rök hæstv. umhvrh. um það. Ég er henni algjörlega ósammála um aðferðina, um leiðina sem hún hefur farið að þessu máli.

Hæstv. umhvrh. byrjaði á öfugum enda. Í stað þess að huga vel að undirbúningi og taka tímann sem þurfti til þess að hafa alla með sér í þeirri ferð er hin pólitíska ákvörðun tekin fyrst. Síðan skulu allir fylgja í kjölfarið. Ég skora á hæstv. umhvrh. að tryggja að trúnaðarmenn starfsmanna eigi sæti í starfshópnum því að auðvitað þurfa ekki hagsmunir hinna almennu starfsmanna og hagsmunir forstjóra þessara stofnana alltaf að fara saman.