Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 21:36:47 (8707)

2002-05-02 21:36:47# 127. lþ. 135.1 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[21:36]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Nokkrum spurningum hefur verið beint til mín í umræðunni eins og eðlilegt er þegar um stórt mál er að ræða eins og hér er á ferð. En það má vera vont þingmál sem ekki er hægt að segja eitt einasta jákvætt orð um því það hefur ekki verið gert af hálfu þeirra þingmanna sem hér hafa talað við umræðuna og það mega vera ábyrgðarlitlir ráðherrar í ríkisstjórn sem standa að slíku máli ef marka má þann málflutning. Þó hef ég sérstaklega lýst því yfir úr þessum ræðustól að þeirri heimild sem hér er verið að veita mér sem fjmrh. verði beitt af varfærni og í fyllsta samræmi við þær reglur sem gilda um ríkisaðstoð á hinu Evrópska efnahagssvæði. Þess vegna kemur mér á óvart þegar þingmenn eru að halda því fram innan þings og utan að það eigi eftir að láta á það reyna hvort þetta fari ekki örugglega í bága við reglurnar á Evrópska efnahagssvæðinu. Mig minnir að hv. síðasti ræðumaður hafi sagt það í sjónvarpsviðtali síðast í gær að það væri algerlega óljóst --- eða hvort það var jafnvel í kvöld --- hvort þetta bryti allt saman í bága við þær reglur.

Ekki er auðvelt að rökræða um þessa hluti þegar aldrei er tekið mark á nokkrum hlut sem sagður er, ekki hið minnsta mark. Hv. þm. lauk máli sínu áðan með því að skora á mig að vera varkár í meðferð þessarar heimildar sem ég hef þegar að sjálfsögðu lýst yfir að ég muni verða. Að sjálfsögðu mun Alþingi fylgjast með því strax frá og með næsta hausti hvernig þessu máli vindur fram.

Að sjálfsögðu er með þessari heimild verið að leggja mikla ábyrgð og ríka á herðar fjmrh. og ríkisstjórn. Enginn gerir sér betur grein fyrir því en sá sem hér stendur. Þess vegna er það ásetningur okkar sem munum bera ábyrgð á þessu máli að fara eins vel með slíkar heimildir og nokkur kostur er og gæta hagsmuna ríkissjóðs og almennings eins vel og hægt er. En auðvitað erum við að fara af stað með þetta mál vegna þess að við teljum að það sé efnislega réttlætanlegt og skynsamlegt. Annars væri búið að fallast á öll rök gegn þessu máli sem fram hafa komið og þá mætti henda því bara í körfuna. Það er verið að þessu í ákveðnum tilgangi. Menn tala hér eins og þetta mál hafi engan tilgang annan en eitthvað neikvætt að því er þingmenn telja eins og að efla einkaframtak í landinu eða eitthvað því um líkt. Frumvarpið hefur þann tilgang að efla hátækni og vísindastarfsemi í landinu þjóðinni allri til góðs og almenningi til hagsbóta og ríkissjóði til hagsbóta þegar fram í sækir. Þess vegna eru menn að leggja það á sig að fara í gegnum málið og afla slíkra heimilda sem á eftir að láta fullreyna á með hvaða hætti verða nýttar. Það fer að sjálfsögðu m.a. eftir niðurstöðum úr viðræðum við Eftirlitsstofnun EFTA. Það þarf að senda þangað formlega tilkynningu eins og hv. ræðumaður ýjaði að. Eftir að öll gögn hafa borist í því efni hefur stofnunin tvo mánuði til þess að komast að niðurstöðu. Þá þurfa menn að fara vel yfir það hver staðan verður þá, bæði með tillilti til skilyrða af hálfu stofnunarinnar og annarra þátta, m.a. atriða sem snúa að fyrirtækinu sjálfu.

Ég get alveg sagt að ég tel fráleitt, sem hér hefur verið haldið fram, að vegna þess að grein í ríkisábyrgðalögunum um ábyrgðargjald eða áhættugjald eins og það er kallað sé vikið til hliðar þá megi ég ekki sem handhafi þessarar heimildar setja skilyrði um að greitt verði ábyrgðargjald. Ég tel að þetta sé öldungis fráleit túlkun og engum manni hafi dottið í hug að hægt væri að túlka þetta mál svona, enda hef ég margsagt það hér og annars staðar að að sjálfsögðu verður greitt ábyrgðargjald sem í almennu lögunum er kallað áhættugjald. En ekki er hægt að nefna upphæð gjaldsins eða hlutfall þess vegna þess að ekki er komin niðurstaða í þá flokkun sem skiptir máli á Evrópska efnahagssvæðinu, hjá þeirri ágætu stofnun EFTA. Þess vegna er það eitt af skilyrðunum sem ekki er búið að ganga frá.

Auðvitað finnst mér, ef það er rétt að fyrirtækið sé í skuld við ríkissjóð vegna nokkurra atriða sem þingmenn hafa hér haldið fram, sjálfsagt að ganga eftir því að slíkar skuldir séu gerðar upp. Mér finnst slíkt sjálfsagt. Ég tek undir það með þingmanninum að þetta fyrirtæki á að sjálfsögðu að gera upp skuldir sínar við ríkissjóð ef einhverjar eru. En ég þekki ekki nákvæmlega hvernig þeim málum er háttað.

Ég tók eftir því að hv. þm. Sverrir Hermannsson vitnaði til orða fyrrv. formanns framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar um að þessi verksmiðja ætti ekkert erindi hingað til lands. Þessi verksmiðja? Það er ekki verið að tala um neina verksmiðju nema þá kannski hugvitsverksmiðju. Þetta snýst ekki um það. Þetta er eitt af grundvallaratriðum í málinu og afhjúpar annaðhvort misskilning eða útúrsnúning að tala um þetta með þeim hætti.

Við munum að sjálfsögðu fara rækilega yfir öll atriði í þessu sem skipta máli áður en ábyrgðin verður veitt. Það er ekki verið að veita hana með því frv. sem við erum nú að láta verða að lögum. Ábyrgðin verður ekki veitt fyrr en síðar, eins og allir átta sig auðvitað á sem hafa lesið frv., og þá munum við fara yfir þau atriði gagnvart einstökum liðum í starfsemi félagsins sem hv. þm. Ögmundur Jónasson gat um. En eitt vildi ég þó nefna strax varðandi fyrirspurn hans um hvort það hefðu verð tilmæli ríkisstjórnarinnar til ríkisbankanna að leysa til sín einhverja milljarða af bréfum bandarískra áhættufjárfesta í fyrirtækinu. Ég kannast ekki við nein slík tilmæli, hef ekki komið nálægt þeim ef einhver hafa verið, fullyrði reyndar að svo hefur ekki verið, enda hef ég ekkert boðvald í þeim efnum gagnvart ríkisbönkunum. Ég átta mig satt að segja ekki alveg á því um hvað hv. þm. er að dylgja með þessum hætti, (ÖJ: Dylgja? Þetta var spurning.) að það hafi vísvitandi verið ásetningur ríkisstjórnarinnar að koma þessum hlutabréfum inn í landið til þess að hægt væri að hafa fé af almenningi með því að selja þetta of háu verði. Það er það sem er undirliggjandi í þessari spurningu alveg eins og hv. þm. Sverrir Hermannsson sagði. Hann vissi dæmi þess að bankarnir hafi verið að troða þessum bréfum upp á fólk á allt of háu gengi. Ég kann ekki við svona málflutning. Þetta er alveg tilefnislaust.

[21:45]

(ÖJ: Er það tilefnislaust?) Þetta er tilefnislaust, (ÖJ: Hvað finnst fólki ...?) hv. þm. Það er tilefnislaust að gera því skóna að ríkisstjórnin hafi gefið bönkunum einhver fyrirmæli í þessum efnum. Það er tilefnislaust.

Menn hafa síðan velt fyrir sér öðrum þáttum í þessu máli, m.a. hefur verið spurt um það í umræðunni, reyndar ekki núna heldur um daginn, hvort þessi ábyrgð hefði áhrif á lánshæfi ríkissjóðs. Ég tel ekki að svo sé. Reyndar er þessi upphæð af þeirri stærðargráðu að hún hefur ekki úrslitaáhrif á lánshæfi ríkissjóðs. En þar fyrir utan er málið þess eðlis að það eru engar líkur á því að lánshæfi ríkissjóðs skerðist og jafnframt ástæðulaust að gera því skóna.

Ég vil hins vegar nefna eitt atriði sem fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni og kom einnig fram hjá samflokksmanni hans við 2. umr. um málið, þ.e. hvað tekur við eftir þessi sjö ár. Verið er að tala um að veita ríkisábyrgð á láni til sjö ára. Hvað á svo að gera? Þetta finnst mér vera spurning sem við eigum að velta fyrir okkur, bæði í þessum ræðustól og annars staðar, vegna þess að ég tel að það sé ekki verið að marka þá stefnu með frv. að ríkissjóður haldi áfram að veita þessa aðstoð eftir sjö ár. Gert er ráð fyrir að þess þurfi ekki. Hins vegar tel ég athyglisvert og umræðuvert að benda á þetta, og þá gefst mér tækifæri til að segja það hér að ég tel ekki að það sé tilefni til að gera ráð fyrir því að aðstoðar verði þörf í þessu formi að þessum tíma liðnum. Reyndar geri ég mér góðar vonir um að það verði búið að gera upp þetta lán áður en lánstíminn, sjö ár, verður allur liðinn. Það eru því engin fyrirheit undirliggjandi í þessu máli um áframhaldandi fyrirgreiðslu af þessu tagi og það verður sjálfstætt og sérstakt mál að taka afstöðu til hjá þeim sem um það munu fjalla ef og þegar til slíks kæmi sem, eins og ég segi, ég leyfi mér að efast mjög um. (Gripið fram í.) Hvað segir þingmaðurinn? (Gripið fram í: Gæti gerst.) Þingmaðurinn gæti orðið fyrir bíl á morgun. Ég veit það ekki. Við getum ekki talað í slíkum viðtengingarhætti í þessu máli. --- En það eru engar fyrirætlanir um það, og auðvitað er ráð fyrir því gert að fyrirtækið verði komið það vel á veg að það þurfi ekki á neinu slíku að halda.

Út af vangaveltum um stjórnarskrána og almennu lögin um ríkisábyrgðir vil ég láta þess getið að eftir því sem ég best veit hefur ekki verið veitt ábyrgð á grundvelli þeirra laga frá því að þau tóku gildi 1. jan. 1998. Ef einhver hefði átt að fá ábyrgð á grundvelli þeirra hefði þurft að veita slíkum aðila heimild í lögum með svipuðum hætti og við erum að gera núna, þ.e. nafngreina aðilann og veita honum leyfið, veita honum ábyrgðina með samþykki á Alþingi. Það hefði sem sé þurft að tiltaka aðilann alveg eins og við höfum áður oft gert á Alþingi í gegnum árin og áratugina. Ég minnist þess að eitt fyrsta málið sem kom til minna kasta þegar ég sat á Alþingi sem varaþm. vorið 1986 var frv. til laga um aðstoð við flugfélagið Arnarflug. Lög um málefni Arnarflugs minnir mig að málið hafi síðan heitið. Nokkrum árum áður voru afgreidd lög um aðstoð við Flugleiðir. Þetta voru nafngreind fyrirtæki. Og þannig held ég að lögin um ríkisábyrgðir frá 1997, sem gildi tóku 1. jan. 1998, séu hugsuð. Það er ekki hægt að veita ábyrgðir á grundvelli þeirra nema Alþingi veiti sérstaka heimild til nafngreinds aðila. En tilfellið í þessu máli er reyndar að hér er um að ræða fyrirtæki sem jafnframt er heil atvinnugrein, ný atvinnugrein, og sjá þá allir að hér er um stærra og meira mál að ræða en aðstoð við eitt lítið fyrirtæki. Öll stærðargráðan í þessu máli er þess eðlis að við munum ekki fá þessa starfsemi hingað nema til komi einhver atbeini hins opinbera.

Eins og ég sagði við 1. umr. var þessi leið valin í stað þess að fara einhverja aðra leið til þess að hafa hönd í bagga með að fá starfsemina hingað til lands. En vegna þess sem ég er hér að segja tel ég að það sé alveg fráleitt að gera því skóna að hér sé um að ræða stjórnarskrárbrot eða að einhverjir aðrir aðilar séu sviptir vernd dómstólanna. Ef í ljós kemur að aðrir aðilar eru hluti af þeirri atvinnugrein sem hér er verið að ýta úr vör þarf auðvitað að skoða þeirra mál sérstaklega. Það munum við gera eftir að niðurstaða er komin í málið í heild hjá Eftirlitsstofnun EFTA og þegar menn telja sig hafa bundið svo um hnúta að það geti komið til greina að beita þeirri heimild sem hér er verið að veita. Það gerist ekki í dag og ekki á morgun. Það mun taka vikur, hugsanlega einhverja mánuði, m.a. með tilliti til þess frests sem Eftirlitsstofnunin hefur sjálf til að fara yfir þessi mál. Ég vara því við því að menn geri úlfalda úr mýflugu í þessu efni.

Ég vil að öðru leyti þakka fyrir þessar umræður þó að ég geti að sjálfsögðu ekki þakkað fyrir þau ummæli að hér sé verið að fara með málið í gegn með offorsi og ofbeldi eins og hv. síðasti ræðumaður sagði. (ÖJ: Því er rétt lýst.) En honum fyrirgefst ýmislegt í hita leiksins, tekur stundum stórt upp í sig, hv. þm., eins og ýmsir í þessum sal. Ég vil hins vegar fullvissa þingmenn, sem ég hef reyndar áður gert, um að varlega verði stigið til jarðar í þessu máli þegar að því kemur að beita þeim heimildum sem hér er verið að veita, og Alþingi mun verða upplýst um framgang málsins eftir því sem unnt verður og tækifæri gefst til strax á næsta vetri.