Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 22:03:51 (8713)

2002-05-02 22:03:51# 127. lþ. 135.1 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[22:03]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Þegar hefur komið fram af minni hálfu að ég tel að sé það svo að fyrirtækið sé í skuld við ríkissjóð og gjaldfallnir séu einhverjir reikningar af ríkisins hálfu gagnvart því, þá eigi að sjálfsögðu að greiða þá. Við munum þá kanna það áður en frá þessu máli verður gengið og ábyrgðir veittar að svo verði gert.

Að því er varðar það sem hv. þm. sagði fyrst um að það standi orð gegn orði, annars vegar mitt orð og hins vegar orð hæstaréttarlögmanns sem kom til efh.- og viðskn. í dag, þá spyr ég: Hvernig leysa menn slíkan ágreining? Ef einhver telur á sér brotið, hvað gerir hann þá? Þá leitar hann til dómstólanna. Ef hann telur að á honum sé brotið af hálfu einhverra annarra aðila og ef menn telja að löggjöf í landinu brjóti á þeim þannig að hún fari ekki að stjórnarskrá, þá láta menn á það reyna gagnvart dómstólum.

Að því er varðar ábyrgðargjaldið. Hugsum það mál örlítið. Hv. þm. hefur eftir lögmanninum að ekki megi leggja á ábyrgðargjald af því að ákvæðum í ríkisábyrgðalögum sé vikið til hliðar. Ég segi: Það er rangt og við munum innheimta ábyrgðargjald eða áhættugjald eins og það heitir. Hvaða aðili væri það þá sem gæti hugsanlega talið á sér brotið í því efni? Er það ekki aðilinn sem gjaldið er innheimt hjá, með öðrum orðum deCODE? Finnst fólki líklegt hér í salnum að deCODE muni fara í mál við íslenska ríkið vegna ábyrgðargjaldsins þegar deCODE er sá aðili sem er að njóta ábyrgðarinnar? Hvers lags vitleysismálflutningur er þetta? Halda menn að deCODE fari í mál vegna ábyrgðargjalds til þess að koma í veg fyrir að deCODE fái ábyrgðina?