Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 22:35:54 (8723)

2002-05-02 22:35:54# 127. lþ. 135.21 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, Frsm. meiri hluta DrH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[22:35]

Frsm. meiri hluta landbn. (Drífa Hjartardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum, frá meiri hluta landbn. á þskj. 1426 og brtt. á þskj. 1427.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hákon Sigurgrímsson frá landbúnaðarráðuneyti, Ara Teitsson og Sigurgeir Þorgeirsson frá Bændasamtökum Íslands, Runólf Sigursveinsson og Svein Sigurmundsson frá Búnaðarsambandi Suðurlands, Björn H. Barkarson frá Landgræðslu ríkisins, Jóhann Má Jóhannsson bónda, Ólaf Arnalds frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Aðalstein Jónsson frá Landssambandi sauðfjárbænda.

Meginmarkmið frumvarpsins er að lögfesta ákvæði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu á grundvelli gildandi samnings um framleiðslu sauðfjárafurða sem undirritaður var af Bændasamtökum Íslands, landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra 11. mars 2000. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að við gæðastýrða sauðfjárframleiðslu sé notast við gæðakerfi Bændasamtaka Íslands sem landbúnaðarráðherra staðfestir og lagður er grunnur að rekjanleika sauðfjárafurða og vottun framleiðsluaðferða og aðstæðna.

Nefndinni hafa borist nokkur erindi vegna málsins og hefur verið farið yfir þau.

Meiri hlutinn leggur áherslu á að ákvæði frumvarpsins um landnýtingu verði að byggjast á lögum um landgræðslu og að gæta þurfi sérstaklega að samræmi milli búvörulaga og landgræðslulaga hvað þennan þátt varðar. Ef lög um landgræðslu verða endurskoðuð þarf samhliða að endurskoða búvörulögin. Þá er það skilningur meiri hlutans að kostnaður við mat á landi skv. a- og b-lið 2. gr. frumvarpsins verði ekki lagður á landeigendur heldur greiðist af þeim fjármunum sem felast í samningi ríkisins og Bændasamtaka Íslands. Þá vill meiri hlutinn geta þess að það merkingarkerfi sem gæðastýringin krefst og frumvarpið gerir ráð fyrir er í raun það kerfi sem bændur nota nú samkvæmt gildandi gæðahandbók Bændasamtaka Íslands.

Eftir að hafa farið yfir málið telur meiri hlutinn rétt að leggja til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:

1. Lagt er til að gildistökuákvæði um gæðastýrðan framleiðsluferil verði frestað um eitt ár, til 1. janúar 2004. Vegna frestunar á gildistökuákvæðinu er lagt til að beingreiðslum sem svara til fyrstu 25.000 ærgildanna sem ríkið hefur keypt upp á grundvelli samnings um framleiðslu sauðfjárafurða frá 11. mars 2000 skuli áfram varið til að greiða álag á framleitt dilkakjöt á árinu 2003, þ.e. fyrstu þrjú árin frá gildistöku samningsins en samkvæmt gildandi lögum er einungis gert ráð fyrir að það verði greitt fyrstu tvö árin. Jafnframt er lagt til að sú fjárhæð sem beingreiðslur lækka um á árinu 2003, sbr. 39. gr., renni til greiðslu sérstaks álags á framleitt dilkakjöt á sama hátt og uppkaupaálag, sbr. 4. mgr. 38. gr.

2. Þá er lagt til að takmörkunum á frjálsu framsali greiðslumarks milli bænda verði aflétt frá gildistöku laganna en að sérhver aðilaskipti að greiðslumarki taki ekki gildi fyrr en staðfesting Bændasamtaka Íslands liggur fyrir, líkt og gildir um greiðslumark mjólkur.

3. Jafnframt er lagt til að samningur milli ríkisstjórnarinnar og Bændasamtaka Íslands um framleiðslu sauðfjárafurða frá 11. mars 2000 verði tekinn til endurskoðunar strax á þessu ári. Ef sú endurskoðun kallar á breytingar á búvörulögum leggur meiri hlutinn áherslu á að lagabreytingar verði lagðar fyrir Alþingi strax á haustþingi.

4. Einnig er lagt til að heiti Landgræðslu ríkisins verði haldið óbreyttu uns ný lög um landgræðslu hafa verið samþykkt en þau lög hafa verið til meðferðar hjá hv. landbn. Þau verða væntanlega með fyrstu málum sem tekin verða upp á haustþingi hjá nefndinni.

5. Að lokum eru lagðar til breytingar á tilvísunum í lagaákvæði vegna nýrra greina sem bætast við frumvarpið en þar er ekki um efnisbreytingu að ræða.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir hér að framan og koma fram í sérstöku þingskjali.

Undir nál. rita auk mín hv. þm.: Sigríður Jóhannesdóttir, með fyrirvara; Guðjón Guðmundsson; Karl V. Matthíasson, með fyrirvara, Einar Oddur Kristjánsson, Sigríður Ingvarsdóttir og Kristinn H. Gunnarsson.