Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 22:41:41 (8724)

2002-05-02 22:41:41# 127. lþ. 135.21 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, Frsm. minni hluta ÞBack (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[22:41]

Frsm. minni hluta landbn. (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég geri grein fyrir nefndaráliti minni hluta landbn. í þessu máli.

Meginmarkmið frumvarpsins er að lögfesta ákvæði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu á grundvelli gildandi samnings um framleiðslu sauðfjárafurða sem undirritaður var af Bændasamtökum Íslands annars vegar og landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra hins vegar 11. mars 2000.

Minni hlutinn tekur undir það sjónarmið að koma skuli á gæðastýrðri framleiðslu í sauðfjárrækt, sem og í öðrum greinum landbúnaðar. Einn megintilgangur gæðarstýringarinnar er að hafa framleiðsluna í samræmi við landkosti, æskileg landnýtingarsjónarmið og umhverfisvernd. Annar megintilgangur gæðastýringar er neytendavernd og um leið sóknarfæri til hærra vöruverðs, bæði á innanlandsmarkaði og á erlendum mörkuðum. Síðast en ekki síst á gæðastýringin að vera bændum hjálpartæki til að ná betri árangri í rekstri, kynbótum, búfjárhaldi og landnýtingu.

Minni hlutinn hefur gagnrýnt nokkra þætti sem lúta að framkvæmd fyrirhugaðrar gæðastýringar og telur að eins og gæðastýringin er sett fram í frumvarpinu muni ávinningur af henni ekki skila sér alla leið til neytenda. Gæðastýringin og gæðahandbók Bændasamtaka Íslands ná frá sauðburði að sláturhússdyrum, en eftir að dýrið er komið í sláturhúsið tekur við heilbrigðiseftirlit, kjötmat og flokkun, hver skrokkur er skráður samkvæmt viðurkenndu kjötmatskerfi en gæðastýringarkerfið sem slíkt er lagt til hliðar. Enginn munur er gerður á flokkun kjöts eftir því hvort um gæðastýrða framleiðslu er að ræða við kjötmatið né heldur við markaðssetningu vörunnar. Neytendur hafa ekki möguleika á að fá vottað hvort ræktandi taki fullt tillit til landnýtingarsjónarmiða og að lyfjagjöf sé í lágmarki á líftíma sláturdýranna. Þessi vitneskja kæmi fram með því að merkja kjötvörurnar með sérstöku viðurkenndu merki íslenskrar gæðastýringar. Því til viðbótar ættu upprunamerkingar að koma fram á neytendaumbúðum.

Herra forseti. Þessu til viðbótar má segja að í raun hafi verið búið til nýtt kerfi sem á sér enga fótfestu í flokkun á kjöti eða landbúnaðarvörum eftir því hvort þær eru lífrænar, vistvænar o.s.frv. Þess í stað er verið að búa til eitthvað sem heitir gæðastýrð framleiðsla án þess að falla að vistvænni vottun en þetta er haft sem ígildi þess.

Gæðastýrð framleiðsla af því tagi sem að framan greinir er nær því að nálgast kröfur neytenda og legði grunn að mismunandi verðlagningu kjötvara, eftir því hvort þær hefðu fengið vottun um gæðastýrða framleiðslu eður ei. Fyrst og fremst ættu tekjur sem gæðastýringin skapar að skila sér til bænda í formi hærra afurðaverðs, en ekki með sérstökum álagsgreiðslum sem teknar eru af stuðningi ríkisins við framleiðendur. Fjármagn það sem nú er ætlað til álagsgreiðslna vegna gæðastýringar þarf að haldast innan greinarinnar og bæta þarf við fé til að hvetja bændur til þátttöku í gæðastýringarátakinu.

Í grannlöndum okkar er hvarvetna verið að vinna áætlanir um lífræna landbúnaðarframleiðslu og minna má á þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi í þessa veru. Líta má á gæðastýringuna sem vottun fyrir vistvæna framleiðslu, þ.e. utan þess kerfist en reynt að gera að ígildi hennar.

Í núgildandi sauðfjársamningi er enginn sértækur stuðningur við lífræna sauðfjárrækt og það er augljóst að búum sem leggja stund á lífræna sauðfjárrækt mun ekki fjölga nema til komi frekari opinber stuðningur við greinina.

Minni hlutinn styður því að gildistökuákvæðum um gæðastýrðan framleiðsluferil verði frestað um eitt ár og tíminn notaður til að undirbúa málið betur.

Minni hlutinn styður þá tillögu að taka strax upp sauðfjársamninginn. Komið hafa fram mjög alvarlegar ábendingar um ágalla á samningnum sem nauðsynlegt er að fara yfir, að því gefnu að full sátt sé milli samningsaðila um að taka samninginn upp. Til að eyða rekstrarlegri óvissu hjá sauðfjárbændum við þessar aðstæður er mikilvægt að hraða endurskoðun samningsins. Stefnt verði að því að þeirri vinnu ljúki fyrir ágústlok. Það er mikilvægt að vinnu verði hraðað ef farið verður í að taka upp samninginn og vinnunni ljúki fyrir þann tíma, áður en bændur taka ákvörðun um hve margt fé þeir ætla að setja á fyrir veturinn.

Núgildandi sauðfjársamningur er framleiðsluhvetjandi í stað þess að taka mið af birgðastöðu, innanlandsmarkaði og stöðu markaðssetningar á erlendum mörkuðum. Hann hvetur til slátrunar á þyngri gripum og gengur í því sambandi gegn markaðssetningu á fersku kjöti og nýjum þróunarverkefnum á þessu sviði.

Minni hlutinn telur afar óhyggilegt að framsal á greiðslumarki verði gefið frjálst við þessar aðstæður. Komið hefur fram tillaga um að takmörkunum verði strax aflétt en ef taka á samninginn upp telur minni hlutinn rétt að hafa ákvæðið um að aflétta takmörkunum á frjálsu framsali inni í þeirri endurskoðun. Mjög mikilvægt er að fá góða greiningu á því hvernig uppkaup ríkisins á greiðslumarki samkvæmt sauðfjársamningnum hafa komið út með tilliti til dreifingar og búsetuskilyrða fyrir aðra sauðfjárbændur.

Minni hlutinn telur því öll rök mæla með því að hraða endurskoðun búvörusamningsins sem mest og fresta afnámi takmarkana á viðskiptum með greiðslumark svo og öðrum slíkum breytingum sem eðlilegt er að hafa undir í samningaviðræðum um nýjan grundvöll búvöruframleiðslunnar. Minni hlutinn mun því flytja breytingartillögu í þessa veru.

Sauðfjárbændur eru flestir mjög tekjulágir og því brýnt að auka ekki álögur á búgreinina. Gjaldþrot Goða hf. hefur komið mjög hart niður á mörgum bændum og mun enn auka á útflutningsskyldu allra sauðfjárbænda.

Þessu til stuðnings eru hér nokkur fylgiskjöl sem borist hafa hv. landbn., m.a. ábendingar um ágalla á sauðfjársamningnum sem slíkum og eins varðandi gæðastýringuna. Þessi skjöl fylgja sem vegarnesti í samningaviðræðurnar sem fram undan eru líkt og þær voru gagnlegar hv. landbn.

Það er alveg ljóst að það er mikill ágreiningur milli bænda um hvernig eigi að útfæra gæðastýringuna, hvað hún þýðir. Er þetta eingöngu fyrirkomulag til að styðja bændur í að fá landnýtingarþáttinn inn í framleiðsluferlið eða er þetta einhvers konar vottun á vistvænni framleiðslu? Væri ekki rétt að láta hlutina heita sínu rétta nafni og taka upp slíka vottun?