Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 22:58:05 (8726)

2002-05-02 22:58:05# 127. lþ. 135.21 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, EOK
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[22:58]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Aðalatriðið sem kemur fram í áliti meiri hluta og áliti landbn. er að samningurinn milli ríkisins og sauðfjárbænda skuli tekinn til endurskoðunar þegar í sumar. Það er aðalatriði málsins. Það er mjög eðlilegt að gera vegna þess að hér erum við að fjalla um mál sem er hagsmunamál mjög margra þó mörgum þyki líka orka mjög tvímælis hvernig eigi að standa að.

Stærsta deilumálið hefur þó löngum verið landnýtingaráætlunin sem í þessu er fólgin og hefur fylgt þessu máli. Ég vil hins vegar segja, herra forseti, að af því hef ég engar áhyggjur. Ég tel að þeim málum sé mjög vel komið fyrir í frv. og það geta allir mjög vel sætt sig við það. Verið er að fara inn á þær brautir sem ég held að sé þverpólitísk samstaða um. Við verðum að passa okkur. Vinstri höndin verður að vitað hvað sú hægri gerir. Við ætlum að ganga þannig um landið og það er sameiginlegt markmið að það bíði ekki tjón heldur verðum við í sókn á öllum vígstöðvum.

Vandamálið varðandi sauðfjárræktina er hrikalega stórt, fyrst og fremst þegar menn horfa framan í þær áætlanir sem við höfum gengið út frá. Þær vonir sem við bundum við að útflutningur á lambakjöti gæti orðið meiri og verðið mundi halda áfram að hækka eins og á árunum 1995--1999 hafa mjög dvínað svo ég segi ekki meira. Enn þá verra er þó að markaðshlutdeild lambakjöts innan lands hefur hríðfallið og er nú komið niður í 7.000 tonn. Þetta eru hinar uggvænlegu staðreyndir sem við stöndum frammi fyrir. Ekki er óeðlilegt að bændur hafi af þessu áhyggjur og að skiptar skoðanir séu á því hvernig við eigum að ganga fram í málinu.

Eins og samningurinn var gerir hann ráð fyrir að hann væri að mörgu leyti framleiðslutengdur, álagsgreiðslurnar kæmu á allar afurðir svo framarlega sem búið fullnægði þeim reglum sem við settum um gæðastýringuna. Margir hafa um þetta efasemdir vegna þess að þeir benda á að þetta gæti auðveldlega leitt til meiri framleiðslu í minnkandi markaði sem yrði þá aftur til þess að útflutningurinn mundi enn vaxa og yrði bændum óskaplega dýr. Ég vona að bændur fari yfir þetta í sumar. Ég vona að þeir komist að farsælli niðurstöðu. Þeir eiga að ráða ferðinni. Það er rétt að áskilja þeim þann rétt. En einnig er ástæða til að horfast í augu við kjör sauðfjárbænda. Þau eru, herra forseti, að mínum dómi skelfileg. Það er engin stétt í landinu sem stendur jafnilla að vígi og sauðfjárbændur. Og þegar við skoðum verðmyndunina sjálfa, þá segi ég, herra forseti: Það skelfir mig líka.

Bændasamtök landsins hafa um árabil af miklum metnaði og eflaust af miklum og góðum vilja verið að byggja upp ákveðinn farveg fyrir slátrun og afurðasölu. En sá farvegur er skelfilega dýr þannig að það er mjög lítið og allt of lítið sem kemur í hendur bóndans sem má síst við því. Ég efast ekkert um, eins og ég sagði, að bændaforustan hefur í gegnum árin verið að vinna að þessu máli af miklum heilindum í þeirri trú að þetta væri hin rétta leið og þannig ættum við að gera. En ég verð að segja, herra forseti, og láta þess getið að ég efast mjög mikið og ég held að bændur verði að skoða fleiri leiðir. Ég hef margsinnis bent á t.d. sjávarútveg, oft bent á hrognkelsaveiðarnar sérstaklega þar sem einstaklingurinn, einyrkinn hefur getað sýnt fram á að hann er fullkomlega fær um að sýna hið mesta hreinlæti á öllum stöðum alls staðar og fullnægt öllum ströngustu reglum til útflutnings á þeirri dýru afurð sem hrogn eru. Ég held að bændur verði að hugsa til þess hvort þessi löggjöf sé ekki allt of dýr, hvort við getum ekki horft á það af sanngirni og ímyndað okkur að bændurnir sjálfir geti unnið miklu frekar að afurðamálum sínum. Þeir geta og eiga að geta og ég trúi því að í hinum afskekktari byggðum, a.m.k. í hinu meira strjálbýli, þá eigi þeir að geta, hvort sem það er einstaklingurinn eða hópar þeirra, tveir, þrír eða fjórir, haft möguleika á því að stunda slátrun sjálfir. Mennta þarf slátrara á Íslandi. Gera þarf almennar kröfur um hreinlæti, frágang og meðferð á mat og ég er viss um að bændur mundu standast þær kröfur fullkomlega. Þannig komast þeir í snertingu við markaðinn, þannig verða þeir sinnar eigin gæfu smiðir, þannig munu þeir markaðssetja vöru sína sjálfir og þannig geta þeir unnið að velferð sinni sjálfir, ekki með miðstýrðum hætti, eins og við höfum verið að fara inn í hvað eftir annað áratug eftir áratug, heldur með því að einstaklingurinn sjálfur fái að nýta getu sína, atorku og gerhygli til þess að fá meiri tekjur af búi sínu.