Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 23:04:37 (8727)

2002-05-02 23:04:37# 127. lþ. 135.21 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[23:04]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég get um margt tekið undir með hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni þar sem hann var að fjalla um sýn sína á sauðfjárræktina og jafnframt það að þróunin og það sem hefur verið gert hefur gengið í þveröfuga átt en hann rakti sem sína sýn. Dæmi um þessa hrikalegu oftrú á hagkvæmni stærðarinnar var þegar verið var að keyra alla slátrun á kannski bara þrjú eða fjögur sláturhús í landinu.

Ég ætlaði að spyrja hv. þm. um túlkun hans á þeirri grein í brtt. meiri hlutans þar sem stendur að samningur milli ríkisstjórnar Íslands og Bændasamtaka Íslands um framleiðslu sauðfjárafurða skuli tekinn til endurskoðunar á árinu 2002. Ber að skilja það svo að þeirri endurskoðun skuli ljúka á árinu 2002? Ég vek athygli á því að það er hægt að byrja alla mögulega hluti en þeir geta tekið endalausan tíma. Er það réttur skilningur sem ég vil leggja í þetta að þeirri endurskoðun skuli ljúka á árinu 2002?