2002-05-03 04:48:19# 127. lþ. 135.24 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[28:48]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið. Eins og fram hefur komið er samkomulag um að ljúka umræðu um þessi mál. Í raun flutti ég í fyrri atrennu 3. umr. afstöðu okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði til málsins. Þetta frv. til laga um breytingu á lögum nr. 38 frá 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, samrýmist engan veginn okkar stefnu. Það eru einkum fjórir liðir sem þarna er farið í. Ég vil bara fara efnislega í gegnum það.

Við getum ekki sætt okkur við að ekki sé opnað fyrir nýjar víddir í hafrannsóknum. Við höfðum lagt til að það væru aðrir aðilar hefðu aðkomu að hafrannsóknum, félagasamtök, einstakir vísindamenn eða háskólar í landinu. Það var almennur vilji fyrir því í sjútvn., þar sem ég er áheyrnarfulltrúi, en það er greinilega ekki ríkisstjórnarstemmning fyrir því dæmi. Þær hugmyndir komust því ekki í gegn hjá ráðuneyti og ráðherra þó að vilji nefndarmanna stæði til þess. Ég tel það mjög miður.

Svo er lyft þaki varðandi hlutdeild í tegundum þó að búið sé að lækka það aftur frá upprunalegum tillögum. Þaki á karfa er t.d. lyft. Leyft er að fara upp í 35% af veiðiheimildunum, þ.e. að eitt fyrirtæki hafi svo mikla hlutdeild. Í upprunalegum tillögum hafði verið gert ráð fyrir 50% í ýmsum tegundum, t.d. ýsu, ufsa, karfa og grálúðu. Þessu hefur nú verið breytt aftur og ég tel að það sé af því góða. Í raun hefur ekkert ýtt á að þessi þök yrðu hækkuð hingað til. Ég held að ég fari með rétt mál þegar ég segi að Grandi er ekki einu sinni kominn upp í þakið í karfanum. Hann er með 19% hlutdeild.

Í þriðja lagi sættum við okkur ekki við veiðigjaldið eins og það er ákveðið í frv. Það samræmist engan veginn hugmyndum okkar. Þetta er einhvers konar friðþægingarveiðigjald og útgerðin kemur til með að borga 2--2,5 milljarða í veiðigjald eftir sérstökum formúlum. Það er ekki ásetningur okkar að skattleggja útgerðina en við mundum vilja nota veiðigjald sem hluta af stýringu til að ná fram markmiðum um vernd og viðgang fiskstofnanna. Þannig megum við ná betri árangri. Við getum ekki fallist á aðferðina sem valin er í frv.

Að auki teljum við frv. hluta af aðferð hæstv. ríkisstjórnar eins og hún hefur keyrt sjávarútvegsstefnuna. Með þessu er verið að slökkva eldana og vandamálin eins og þau koma upp í sjávarbyggðum landsins með því að hafa potta til útdeilingar frá sjútvrh. Þessir pottar eru vandræðalausn. Ég kom að því í ræðu minni síðast þegar ég fjallaði um þetta mál í fyrri umræðu. Pottarnir eru einfaldlega leið til að leysa vandamál sem koma upp vegna kerfisins sem leiðir til fækkunar og stækkunar fyrirtækjanna. Þar með spretta stöðugt upp ný vandamál í sjávarbyggðum landsins.

Í málflutningi mínum hefur komið fram að við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði viljum sjá allt aðra þróun í sjávarútvegi en hér er lagt upp með. Við höfum lagt fram sjávarútvegstillögur okkar sem byggja á að fara blöndu af svokallaðri fyrningarleið og veiðigjaldsleið. Það sem stendur upp úr í málflutningi okkar er að við viljum byggðatengja kvóta, endurúthluta með byggðatengingum. Við teljum það algert réttlætismál og á því byggjum við stefnu okkar.

Virðulegi forseti. Inn á þetta allt kom ég í fyrri ræðum mínum og nú stendur yfir 3. umr. um þetta mál. Ég held að ég hafi komið öllum sjónarmiðum okkar á framfæri í málflutningi mínum hingað til. Þetta frv. festir í sessi þá stefnu sem tekin hefur verið, með fækkun og stækkun fyrirtækja, stöðugum vandamálum í sjávarbyggðum landsins. Um þetta er hægt að flytja langar og miklar ræður og fara ofan í smáatriði en ég geri það ekki núna, m.a. af tillitssemi við starfsfólk okkar í þinghúsinu sem sumt hefur verið 20 tíma að vinnu. Sum okkar þurfa síðan að sinna skyldustörfum á vegum þingsins á nýjan leik innan örfárra klukkutíma. Ég held að ég hafi skilað því í umræðuna sem ég hef fram að færa og læt máli mínu lokið.