Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Föstudaginn 03. maí 2002, kl. 14:09:26 (8793)

2002-05-03 14:09:26# 127. lþ. 137.2 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, KHG (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur, 127. lþ.

[14:09]

Kristinn H. Gunnarsson (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Samkvæmt lögum sem ekki eru orðin fimm ára gömul ákvað Alþingi að því aðeins mætti veita heimild til ábyrgðarskuldbindingar að Alþingi veitti samþykki sitt í hverju og einstöku tilviki. Það er því rétt og eðlileg málsmeðferð sem nú er að flytja sérstakt frv. um að veita slíka heimild. Það er í samræmi við þau lög og þær leikreglur sem Alþingi setti sjálft árið 1997.

Í öðru lagi er hæstv. fjmrh., sem fær heimildina, bundinn af öðrum lögum sem Alþingi hefur sett, lögum um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Alþingi hefur ákveðið að sá samningur hafi einnig forgang fram yfir önnur lög með þeim hætti að þau lög verða skýrð til samræmis við efni meginmáls EES-samningsins. Í þeim samningi eru mjög skýr ákvæði um það hvernig eigi að standa að því að veita ríkisstyrki og ríkisábyrgðir, ekki bara á Íslandi heldur á öllu Evrópska efnahagssvæðinu.

Í þriðja lagi eru settar upp sérstakar stofnanir til að fylgjast með því að stjórnvöld sem fái heimildir til ábyrgðar hverju sinni fari að þeim leikreglum sem Alþingi Íslendinga hefur samþykkt. Það er því fullkomlega eðlilega að þessu máli staðið og ég vísa á bug öllum dylgjum um annað sem hér hafa komið fram í umræðunum, herra forseti.