Stefna í byggðamálum 2002--2005

Föstudaginn 03. maí 2002, kl. 14:28:20 (8806)

2002-05-03 14:28:20# 127. lþ. 137.3 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál. 30/127, KLM (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur, 127. lþ.

[14:28]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Við greiðum nú atkvæði um stefnu í byggðamálum sem fram hefur komið að er upp á 20 línur. Hér er bæði hölt og lömuð ríkisstjórn að leggja fram byggðastefnu sína og skila verki, byggðastefnu í fimm stafliðum eins og fram hefur komið. Málsmeðferð stjórnarliða segir allt sem segja þarf um þetta mesta olnbogabarn núverandi ríkisstjórnarflokka, enda hefur hæstv. félmrh. sagt að hæstv. ríkisstjórn hafi gleymt landsbyggðinni. Ég er honum hjartanlega sammála.

Jöfnun lífskjara er mikilvægasta byggðamálið í dag. Hér eru ekki stigin stór skref í átt til jöfnunar lífskjara. Nei, nei. Hér eru heldur ekki stigin stór skref til að jafna samkeppnisaðstöðu atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni. Nei, nei. Og það eru ekki heldur stigin stór skref í að lækka stórhækkuð flutningsgjöld til og frá landsbyggðinni. Hér er aðeins stigið hænufet í byggðamálum. Hér gefur að líta moðsuðu stjórnarflokkanna sem er hvorki fugl né fiskur. Þetta er byggðastefna í skötulíki sagði einn stjórnarþingmaður í nótt og það fer vel á því, herra forseti, að byggðastefna sé rædd í skjóli myrkurs. Ég sit hjá.