Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)

Þriðjudaginn 02. október 2001, kl. 20:33:59 (14)

2001-10-02 20:33:59# 127. lþ. 2.1 fundur 34#B Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)#, SJS
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 127. lþ.

[20:33]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Voðaatburðirnir vestur í Bandaríkjunum 11. sept. sl. eru mönnum að vonum ofarlega í huga. Allir þeir sem nú eiga um sárt að binda bæði í Bandaríkjunum og annars staðar eiga samúð okkar óskipta. Við fordæmum þessa atburði eins og við hljótum að fordæma ofbeldi og valdbeitingu utan laga og réttar hvar sem er, hvenær sem er og í hvaða meinta tilgangi sem er. Ekki síst gildir þetta ef saklausir borgarar eru fórnarlömb.

Í þessu sambandi, herra forseti, var ánægjulegt að heyra þann vitnisburð sem fram kom um viðhorf íslensku þjóðarinnar þegar Gallup gerði skoðanakönnun hér á landi og í nokkrum öðrum löndum. 90% íslensku þjóðarinnar vilja að þeir sem bera ábyrgð á þessum voðaverkum verði dregnir fyrir dóm og látnir sæta ábyrgð og taka út refsingu samkvæmt lögum og rétti. Sömu 90% eru ekki fylgjandi árásum eða hefndaraðgerðum af þessu tilefni. Íslendingar eru með öðrum orðum trúir arfleifð sinni sem vopnlaus og friðelskandi smáþjóð og vonandi verður þetta, sá ótvíræði þjóðarvilji sem þarna birtist, þeim ráðamönnum okkar sem hvað herskáastir hafa verið í tali holl leiðsögn.

Af heimavettvangi, herra forseti, eru mér m.a. ofarlega í huga málefni tveggja ríkisstofnana eða ríkisfyrirtækja. Það eru Ríkisútvarpið og Landssíminn. Ríkisútvarpinu er haldið í spennitreyju fjársveltis og það hefur sætt langvarandi einelti af hálfu Sjálfstfl. Þetta birtist, um þessar mundir, m.a. í því endemis metnaðarleysi að verið er að skera niður við trog starfsemi Ríkisútvarpsins og sá niðurskurður bitnar á svæðisútvörpunum sérstaklega. Starfinu sem þar hefur verið byggt upp sl. 20 ár eða svo, þeirri fréttamiðlun um land allt og innan svæðanna og því framlagi til dagskrárgerðar og menningar í landinu er nú verið að rústa. Þetta er, herra forseti, þvílíkt metnaðarleysi af hálfu ráðamanna Ríkisútvarpsins og ríkisstjórnarinnar, menntmrh. og stjórnarmeirihlutans, sem á þessu ber ábyrgð, að engu tali tekur. Eða ætla stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar í hópi þingmanna af landsbyggðinni að láta bjóða sér þetta? Von að spurt sé.

Þetta, herra forseti, er mikið áfall á þeim svæðum þar sem þessi starfsemi hefur verið að eflast og þjónað mikilvægum tilgangi sem innbyrðis fréttamiðill og líka sem framlag þessara svæða til sameiginlegrar dagsakrárgerðar og menningar í landinu.

Þá að Landssímanum, herra forseti. Þar hefur ríkisstjórnin hæstv. anað áfram í sínu einkavæðingarofstæki, ekki hlustað á gagnrýni, ekki hlustað á andstöðu þjóðarinnar, sem liggur fyrir og er umtalsverð, og ekki einu sinni hlustað á ráðleggingar sérfræðinga, og því fer sem fer að Landssíminn gengur ekki út. Og hvað er þá gert? Jú, eins og venulega er leitað að sökudólgi. Aldrei man ég eftir því að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, þegar hún hefur klúðrað einhverju með hæstv. forsrh. í broddi fylkingar, hafi dottið í hug að það væri henni sjálfri að kenna --- aldrei. Það er ævinlega einhverjum öðrum að kenna: Þjóðhagsstofnun, Seðlabankanum, Hæstarétti, Skipulagsstofnun, Samkeppnisstofnun; bara einhverjum öðrum, en ekki ríkisstjórn Davíðs Oddssonar.

Hver var sökudólgurinn í Landssímaklúðrinu? Það var ræfils Búnaðarbankinn sem gerði ekkert annað en fara að fyrirmælum ríkisstjórnarinnar og einkavæðingarnefndar, en hann var samt sökudólgurinn. Eins og aumingja Búnaðarbankinn hafi nú ekki fengið að þola nóg af þessari ríkisstjórn með viðskrh. sem lagði hann lengi í einelti, eins og kunnugt er.

Nei, herra forseti. Vel á minnst, Framsfl., er hann ekki stoltur af framgöngu sinni í Landssímamálinu? Það átti að standa í lappirnar í því máli. Það kom ekki til greina að selja grunnnetið. Það kom ekki til greina að útlendingar fengju meiri hlutann. En svo lak allt niður eins og venjulega hjá Framsfl. Er hann ekki stoltur af frammistöðu sinni í málinu?

Það var þannig, herra forseti, þegar ég var að alast upp að það þótti ekki stórmannlegt að kenna öðrum um sín eigin mistök og axarsköft. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar með hann sjálfan í broddi fylkingar hefur tekið upp aðra siði og eftir því er tekið.

Herra forseti. Nú er upp hafinn mikill söngur í þjóðfélaginu. Skattalækkunarkórinn er kominn á sviðið. Í honum syngja ýmsar raddir, ungir sjálfstæðismenn, popp-prestar úr Verslunarráðinu og öðrum virkjum eignamanna og athafna; þeir sem eru að undirbúa landsfund Sjálfstfl., greinargerð fjárlagafrv. og ræður ráðherra. Skattalækkunarsöngurinn er þar kveðinn við ýmis stef. En hvar ætla þeir að bera niður? Ætla þeir að styrkja íslenska menningu með því að fella niður virðisaukaskatt á bókum? Nei, ég hef ekki heyrt það. Ætla þeir að lækka virðisaukaskatt á barnavörum? Hef ekki heldur heyrt það. Ætla þeir að afnema skatt á húsaleigubótum? Ekki heyrt á það minnst.

Þeir ætla að lækka hátekjuskattinn --- hátekjuskattinn. Það er nauðsynlegast, segja þeir. Þetta óverulega álag á tekjur einstaklinga með hátt á þriðja hundrað þúsund á mánuði og hjóna með vel á fimmta hundrað þúsund krónur. Þar sér ríkisstjórn Davíðs Oddssonar þörf á að bera niður og svo hjá gróðafyrirtækjunum.

Nú er það þannig, herra forseti, að sá hópur landsmanna sem sérstaklega hefur sætt auknum álögum að undanförnu er lágtekjufólk. Það hefur gerst í gegnum það að skattleysismörk hafa ekki fylgt verðlagi og þaðan af síður launaþróun. Öryrki, einhleypur öryrki á fullum bótum í dag sem engar aðrar tekjur hefur, hvað fær hann? Hann fær 80.199 kr. á mánuði. En vegna þess hvernig skattleysismörkin hafa þróast borgar hann 5.840 kr. í skatt af þessum tekjum á hverjum mánuði og fær þar af leiðandi ekki útborgaðar nema rúmar 74 þús. kr. Tólf sinnum þessi upphæð eru 70 þús. kr. rúmar eða rétt tæplega mánaðartekjur þessa öryrkja eða aldraða einstaklings, sem er í sambærilegri stöðu, eftir skatta á mánuði hverjum. Það eru engar tillögur uppi hjá Davíði Oddssyni, Geir Hilmari Haarde eða Halldóri Ásgrímssyni um að lækka skatta þessa hóps. Nei, en hátekjufólkið og gróðafyrirtækin --- ekki endilega þau sem eru að komast á legg eða hefja starfsemi á landsbyggðinni eða sinna þróun eða nýsköpun í atvinnulífi --- nei, fyrirtækin sem þó eru að hagnast. Það á að koma til móts við þau.

Þessari skattapólitík höfnum við. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er ekki til viðtals um skattapólitík af þessu tagi. Ef menn hafa efni á því að lækka skatta og veikja tekjugrundvöll ríkisins eiga þeir ekki að byrja á þessum enda heldur hinum þar sem þörfin er mest fyrir bætt kjör.

Herra forseti. Talandi um atvinnulíf og efnahagsmál þá eru sérkennilegir textar í ræðum hæstv. forsrh. um þá hluti, að svo miklu leyti sem hann telur svara kostnaði að nefna það. Hæstv. forsrh. ræðir t.d. ekki mikið um gengismálin og skautar svona tiltölulega léttilega í gegnum þá staðreynd að gengi íslensku krónunnar hefur hrunið á þriðja tug prósenta á þessu ári. Auðvitað er það þannig, herra forseti, að nær væri að tala um stórfelldar vaxtalækkanir en þann skattalækkunarkór sem nú er upp hafinn. Vaxtalækkanir kæmu bæði atvinnulífi og ekki síður skuldsettum heimilum til góða. Það þarf og er mjög brýnt að skapa forsendur til þess að vextir geti lækkað en því miður hafa hagstjórnarmistök undanfarinna missira gert það að verkum að vextir eru hér með því hæsta sem þekkist og ágreiningur er uppi um það hvort enn séu forsendur til þess að lækka þá.

Herra forseti. Svo kostulegur sem texti forsrh. er á köflum, t.d. um efnahagsmál, þá tekur steininn úr þegar vikið er að sjávarútvegsmálum í þessari ræðu en þar segir m.a.:

,,Sjávarútvegsráðherra hefur nýlega kynnt tillögur nefndar um stjórn fiskveiða og hefur þrátt fyrir allt náðst meiri sátt um þær tillögur en títt er og er þó ágreiningur nægur.``

Fyrir það fyrsta, herra forseti, hvað þýðir nú þessi latína hjá hæstv. forsrh.? Eða lifir hæstv. forsrh. virkilega í þeim draumaheimi að tillögur þessa svokallaða meiri hluta, þingmanna Sjálfstfl. og tveggja embættismanna, séu sáttagrundvöllur? Það er meiri hluti í nefndinni, segir forsrh. En hvernig er hann samansettur? Jú, og svo er einn stjórnarþingmaður með fyrirvara. Er þá sérálit hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar orðið að ómerkilegum fyrirvara? Ja, honum er ekki sýnd mikil virðing í þessu.

Nei, herra forseti. Öllum er það ljóst að þetta nefndarstarf hefur ekki fært menn hænufet nær sáttum. Það eina sem eitthvert gagn er að í því eru sérálitin. Þar hefur fulltrúi okkar, Árni Steinar Jóhannsson, sett fram ítarlegar og sundurliðaðar tillögur um hvernig við viljum vinna okkur út úr þessu kerfi í áföngum og skipta þeim veiðiréttindum sem til staðar verða í framtíðinni milli leigumarkaðar, sveitarfélaganna, fyrir hönd sjávarbyggðanna, og útgerðarinnar, sem gæti fengið aðgang að sínum hlut á grundvelli afnotasamninga.

Svipað mætti segja, herra forseti, þegar forsrh. kemur að umhverfismálum. Það er kostulegur texti að orða sem svo að virkjun við Kárahnjúka sé mjög álitlegur kostur hvernig sem á málið er litið: ,,Virkjunin við Kárahnjúka er mjög álitlegur kostur hvernig sem á málið er litið,`` segir hæstv. forsrh. Er hæstv. forsrh. að segja að virkjun við Kárahnjúka sé mjög álitlegur kostur frá umhverfislegu sjónarmiði? Ef svo er þá er nú gengið lengra í þessari álnauðhyggju en ég hef áður heyrt og er þá mikið sagt. Eins og kunnugt er eru þeir menn til hér á landi sem virðast trúa því statt og stöðugt að ekkert nema álver geti tryggt atvinnu og skapað hagvöxt á komandi árum. Það er ótrúleg framtíðarsýn, ótrúleg vanþekking á því fjölbreytta sviði nýsköpunar í atvinnumálum sem er hér í gangi og allt í kringum okkur og byggist ekki á því að upphaf og endir allra hluta séu eða verði að vera álver. Það er ekki svo.

Vandinn, herra forseti, er nefnilega ekki sá að landsbyggðina eða landsmenn skorti tækifæri og möguleika í atvinnumálum. Hann er ekki sá. Vandi landsbyggðarinnar og það sem er að hrekja framleiðslustarfsemi af landsbyggðinni eru óhagstæð skilyrði, þ.e. hár flutningskostnaður, lélegar samgöngur, léleg fjarskipti, hátt orkuverð, vöntun á þriggja fasa rafmagni og svo ýmsir félagslegir og umhverfislegir erfiðleikar sem menn búa við, að koma börnum sínum til náms o.s.frv. Þetta gerir það að verkum að atvinnulíf og byggð á landsbyggðinni lætur undan síga, öfugt við það sem ætti að vera, að sköpuð væru sérstaklega hagstæð skilyrði til að byggja þar nýja hluti upp. Þeir hlutir verða ekki leystir með einu álveri sem e.t.v. kemur eða kemur ekki á einum stað á landinu, svo mikið er víst.

Herra forseti. Síðastliðið vor var haldið upp á tíu ára valdaafmæli Davíðs Oddssonar og það var mikið um dýrðir og þeir héldu boð hver fyrir annan, hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. og fleiri stórmenni. Það var mikil mærð í fjölmiðlunum. Skömmu síðar hrundi gengi íslensku krónunnar um 20% og verðbólgan mældist í fyrsta skipti í rúman áratug í tveggja stafa tölu.

Það er þannig, herra forseti, að tímabært er að breyta þarna um kúrs, það er löngu tímabært. Menn sem hafa setið svo lengi við völd eða völdin hafa leikið þannig að allt sem gerist, stórt og smátt sem ekki lýtur þeirra ýtrasta vilja, reiti þá til reiði, þeir þurfa að fara að hvíla sig. Því fyrr sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar fer frá völdum því betra.

Nú er seinni hálfleikur kjörtímabilsins hafinn og það er tímabært að hefja sókn sem miðar að því og því einu að koma henni frá.

Ég þakka þeim sem hlýddu. Góðar stundir.