Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)

Þriðjudaginn 02. október 2001, kl. 21:07:25 (17)

2001-10-02 21:07:25# 127. lþ. 2.1 fundur 34#B Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)#, MF
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 127. lþ.

[21:07]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Eðlilega hóf hæstv. forsrh. ræðu sína á því að minnast þeirra hryllilegu voðaverka sem framin voru í Bandaríkjunum 11. sept. sl. Öll þjóðin fylgdist með hvernig þúsundir saklausra borgara voru myrtar á grimmilegan hátt. E.t.v. höfum við verið sofandi fyrir því að hryðjuverk, sem bitna fyrst og fremst á saklausum borgurum, fara vaxandi í heiminum og eru framin vikulega og jafnvel daglega.

Við sjáum stuttar svipmyndir af hörmungum sem fólk í fjarlægum löndum má þola. Við fréttum af því að tugþúsundum barna og ungra kvenna sé rænt á ári hverju, seld í vændi, misþyrmt og jafnvel myrt. Sprengjuárásir, stríð og hungur --- allt stuttar svipmyndir í fjölmiðlum af hörmungum og illvirkjum af mannavöldum.

En 11. sept. sáum við illvirkin á annan hátt, tókum þátt í vanlíðan, sorg og reiði, fylgdumst náið með atburðarásinni klukkutímum saman. Við vorum allt í einu óbeinir þátttakendur og það vakti okkur illilega til meðvitundar um þann veruleika vaxandi hryðjuverka sem við búum við. Því tökum við óhikað þátt í þeirri baráttu þjóða, sem vonandi er hafin, gegn hvers konar hryðjuverkastarfsemi. Sú barátta má þó aldrei vera háð á forsendum illvirkjanna eða með þeirra aðferðum þannig að lífi þúsunda saklausra borgara sé fórnað.

Góðir áheyrendur. Það kvað við svolítið nýjan tón hjá hæstv. forsrh. hvað varðar þróun efnahagsmálanna. Hér talaði ekki sá bullandi bjartsýni ráðherra sem við höfum hlustað á síðustu ár, sem með orðum sínum hefur hvatt fólk til að auka neyslu, og var sannarlega kominn tími til að hann skipti um gír í þessum efnum. Skattar á fyrirtæki hafa verið lækkaðir verulega. Ríkisstjórnin boðar enn frekari lækkun þeirra og verkalýðshreyfingin samdi um stiglækkandi tekjuskatt einstaklinga.

Ég tek undir að það er nauðsynlegt efnahagslífinu að fyrirtæki hér búi ekki við lakari rekstrarskilyrði en fyrirtækin í þeim löndum sem við miðum okkur við. En gleymum þá ekki minnstu en jafnframt mikilvægustu fyrirtækjum landsins, ef hægt er að orða það svo, þ.e. fjölskyldunni, hornsteini hvers þjóðfélags. Henni verður að skapa sambærileg og ekki síðri rekstrarskilyrði en í þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Það er hægt að lækka skatta einstaklinga og fyrirtækja á þann hátt sem formaður Samfylkingarinnar benti á áðan en einnig með því að endurskoða frá grunni í hvað fjármunir hins opinbera eiga að fara. Slík heildarendurskoðun er löngu tímabær. Tekjur ríkisins hafa aukist verulega á síðustu árum en það hefur einnig orðið gífurleg útgjaldaaukning og ekki allt til brýnna samfélagslegra verkefna. Við í Samfylkingunni erum ekki í nokkrum vafa um hver forgangsverkefnin eru í traustu efnahagsumhverfi. Góð velferðarþjónusta, menntun fyrir alla, öflugt heilbrigðiskerfi, samábyrgð og jöfn tækifæri eru lykilorðin í stefnu Samfylkingarinnar.

Það fer því um mann hálfgerður hrollur við að lesa drög að ályktunum landsfundar Sjálfstfl. Af þeim verður ekki annað skilið en þar á bæ sé fullur vilji til að markaðsvæða heilbrigðiskerfið, einkavæða velferðarþjónustuna. Þetta gerist á sama tíma og vöntun er á fjármagni til heilbrigðisstofnana, deildir eru lokaðar og mikilvæg stétt heilbrigðisstarfsmanna, sjúkraliðar, eru í verkfalli. Þá eru þetta skilaboðin frá Sjálfstfl. Boðað er að rjúfa eigi sáttina um samábyrgðina, að sjá eigi á bak þeim þætti sem mörg okkar eru hvað stoltust af í íslensku samfélagi og forverar okkar vinstri manna í pólitíkinni börðust fyrir, og unnu sigra sem allir njóta góðs af.

Ráðherrann gat þessara drauma flokksforustu sjálfstæðismanna ekki í ræðu sinni. E.t.v. er þetta óuppgert mál við Framsfl., en hann hefur nú ekki reynst erfiður. Ég hvet ykkur, hlustendur, til að fylgjast grannt með hver verður niðurstaða landsfundar Sjálfstfl. Hver trúir því að frekari einkavæðing í heilbrigðiskerfinu muni tryggja okkur jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu án tillits til efnahags? Eða er það stefnan að skapa hér tvískipt heilbrigðiskerfi, eitt fyrir þá ríku og annað fyrir þá efnaminni? Samfylkingin gerir kröfu um trausta og ábyrga stjórn efnahagsmála sem tryggi jafnan rétt allra til velferðarkerfisins án tillits til efnahags.

Góðir áheyrendur. Formaður Samfylkingarinnar fór yfir það hér áðan hversu mikilvægt það er fyrir okkur að renna styrkari stoðum undir lýðræðið og að við eigum auðvitað að hafa lýðræðisleg vinnubrögð í heiðri í hvívetna. Alþingi hefur til að mynda sett lýðræðislegar leikreglur um ákvarðanir er lúta að landnotkun á Íslandi og umhverfisvernd. Við búum t.d. við reglur sem snúa að gerð og framkvæmd skipulagsáætlana og um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Einn mikilvægasti þáttur þessara reglna er aðkoma almennings og möguleiki hans til að segja álit sitt. Það skiptir lýðræðið í landinu máli að þetta ferli sé virkt og fái að ganga til enda og að ekki sé varpað fram sleggjudómum áður en endanleg niðurstaða fæst, líkt og við höfum séð gerast varðandi mat á áhrifum Kárahnjúkavirkjunar. Sleggjudómar eru jafnslæmir hvort sem í þeim felst afstaða með eða á móti viðkomandi framkvæmd. Samfylkingin leggur áherslu á að þær leikreglur sem Alþingi hefur sett séu virtar, síðan eigi sér stað málefnaleg umræða og á grundvelli hennar taki menn svo afstöðu.

Þjóðfélagið hefur á mörgum sviðum sett sér skýrar leikreglur, reglur sem í daglegu lífi ráða miklu í samskiptum okkar við annað fólk. Við viljum flest að þessar reglur séu í heiðri hafðar. Ef okkur falla þær ekki þá eigum við að breyta þeim en ekki fótumtroða. Markmið Samfylkingarinnar er virkt lýðræði þar sem framsýni í efnahagsmálum, öflug velferðarþjónusta og kröftug menntastefna hefur forgang. --- Góðar stundir.