Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)

Þriðjudaginn 02. október 2001, kl. 21:27:10 (20)

2001-10-02 21:27:10# 127. lþ. 2.1 fundur 34#B Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)#, GAK
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 127. lþ.

[21:27]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. hefur nú gjörsamlega lagt í rúst afkomu fjölskyldna sjómanna á 80 smábátum sem stunduðu þorskveiðar í 40 daga með 30 tonna aflahámarki af þorski á sl. fiskveiðiári.

Slík er stjórnviska, réttlæti og góðmennska ráðherrans að hann úthlutaði atvinnurétti á þessu fiskveiðiári þar sem hver maður má veiða allt niður í 1,1 tonn af þorski.

Þeim hjónum, Pétri og Jóhönnu Thorarensen, sem eiga Hildu ST 33 frá Gjögri á Ströndum, er ætlað að lifa af því ásamt 638 kg af ýsu, 386 kg af ufsa og 933 kg af steinbít. Ýsunni og steinbítnum er nú ætlað að bíta á handfærin hans Péturs. Það er af flestum sem til þekkja talin lítil von til þess að áðurnefndar fisktegundir taki upp þá nýbreytni á nýrri öld. Það verður að fara þess á leit við dýralæknismenntaðan hæstv. sjútvrh. að hann taki að sér endurhæfingu þessara nýkvótasettu fisktegunda svo þær veiðist á veiðarfæri handfærakarlanna því næstu 40 menn í þessu kerfi fá mest að veiða 6,7 tonn af þorski allt fiskveiðiárið. Þeir fá sömu kíló af ýsu og steinbít og þau Pétur og Jóhanna. Sá sem mest má veiða í þessum flokki smábáta fær 14 tonn af þorski. Endurhæfing fisktegunda svo þær viti á hvaða króka þær eiga að bíta eða bíta ekki er því afar brýn nú í kjölfar þeirra mörgu stjórnviskuskrefa til sátta um stjórn fiskveiða sem sjútvrh. hefur þegar stigið.

Aðeins sjö bátar af þessum tæplega 80 bátum eru 6 tonn að stærð en 55 þeirra eru 2--4 brúttótonn að stærð. Hvar er atvinnuréttur þeirra sem haft hafa sjómennsku að atvinnu í áratugi? Það væri fróðlegt að sjútvrh. eða forsrh. segðu þessu fólki á næstu dögum hvernig það eigi að lifa. Þetta kallar forsrh. sjálfsagt í ræðu sinni að hengja sig í hin smærri atriði. Spurt er: Er ráðherra leyfilegt að nota lög og reglugerðir sem hann veit fyrir fram að sjómennirnir geta ekki unnið eftir refsilaust?

Nú liggur fyrir að fjölmörg svokölluð sáttaskref, eins og kvóti á löngu, keilu og skötusel, verða stigin af ríkisstjórninni í kjölfar þess víðtæka sáttavilja sem lagapöntunarfélagi LÍÚ hefur þegar verið sýndur og birtist í meirihlutaáliti hinnar svokölluðu sáttanefndar.

Ungir sjálfstæðismenn telja það sósíalisma að fara fyrningarleiðina og opna fyrir jafnræði í aðgangi að aflakvótum á markaði. Það er auðséð á þessum viðhorfum að sjálfstæðismenn standa ekki lengur fyrir stefnu sem vill efla byggðir og jafnræði með fólki í landinu.

Sjálfstfl. styður auðvaldsklíkur og kvótabraskara. Stefna hans og ríkisstjórnarinnar er eyðibyggðastefna sem þjóðin hlýtur að rísa upp gegn fyrr en síðar.