Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)

Þriðjudaginn 02. október 2001, kl. 21:43:11 (23)

2001-10-02 21:43:11# 127. lþ. 2.1 fundur 34#B Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)#, MS
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 127. lþ.

[21:43]

Magnús Stefánsson:

Hæstv. forseti. Góðir tilheyrendur. Atvinna er undirstaða velferðar okkar. Öflugt atvinnulíf er helsta forsenda hagsældar, lífsgæða og öflugs velferðarkerfis. Við verðum að nýta náttúruauðlindir okkar til lands og sjávar skynsamlega og með sjálfbærum hætti til þess að atvinnulífið megni að halda áfram uppi lífskjörum eins og best þekkjast. Við verðum að setja okkur leikreglur um nýtingu auðlindanna, auðlindirnar eru takmarkaðar og við verðum að umgangast þær sem slíkar.

Sjávarútvegurinn nýtir okkar mikilvægustu auðlind. Hann hefur skilað þjóðarbúinu það miklu á undanförnum árum að okkur hefur tekist að skapa hér lífskjör eins og best þekkjast í heiminum. En þjóðin hefur skiptar skoðanir um hvaða leikreglur eigi að gilda um afnotin af auðlindinni. Nú sem fyrr á sér stað mikil umræða um að gera þurfi verulegar breytingar á lagaumhverfi sjávarútvegsins. Í þeirri umræðu verðum við að gæta þess að aðgerðir stjórnvalda veiki ekki starfsgrundvöll sjávarútvegsins og þar með efnhagskerfið og vinni ekki gegn hagsmunum þjóðarinnar í heild.

Það er afar mikilvægt að þessi atvinnugrein búi við stöðugt starfsumhverfi þannig að menn viti hvert stefni til framtíðar. Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra að þessari atvinnugrein sé ekki íþyngt með sköttum og gjöldum umfram aðrar atvinnugreinar þannig að vegið sé að rekstrargrundvelli hennar. Hins vegar er eðlilegt að sjávarútvegurinn taki þátt í kostnaði sem snertir greinina beint.

[21:45]

Í umræðunni sem fram undan er um starfsskilyrði sjávarútvegsins verður að taka tillit til margra ólíkra þátta sem málið snerta. Nefna má örfá dæmi um slík atriði. Óstöðugleiki og vanhugsaðar stjórnvaldsaðgerðir geta haft bein og neikvæð áhrif á afurðamarkaði sjávarútvegsins til tjóns fyrir greinina og þjóðarbúið. Gæta þarf jafnræðis milli landvinnslu og sjóvinnslu m.a. varðandi nýtingarhlutfall hráefnis vinnsluskipa sem skiptir einnig verulegu máli þegar litið er til heildarafla flotans.

Við verðum að finna leiðir til að minnka brottkast, jafnvel þannig að veiddur afli komi á land og þannig verði dregið úr verðmætasóun. Einnig þurfum við að komast að niðurstöðu um að tryggja rekstrargrundvöll strandveiðiflotans og smábáta. Við verðum að standa saman um að efla rannsóknir á hafinu og lífríki þess ásamt því að auka veiðarfærarannsóknir. Loks þurfum við að leggja aukna áherslu á eldi sjávarfiska og rannsóknir því tengdar.

Lífríki hafsins og umgengni um það skiptir miklu þegar til framtíðar er litið og okkur ber skylda til að tryggja hagsmuni kynslóða framtíðarinnar að þessu leyti. En auðsuppspretta okkar liggur ekki aðeins í auðlindum hafsins því við eigum miklar auðlindir sem felast í orkunni. Á síðasta kjörtímabili gengu stjórnvöld með ráðherra Framsfl. fremsta í flokki gegnum mikla orrahríð við uppbyggingu Norðuráls í Hvalfirði. Nú hefur sú gagnrýnisumræða að mestu hljóðnað og er von til þess að fljótlega verði ráðist í stækkun álverksmiðju Norðuráls sem mun bæta hag okkar enn frekar. Nú eigum við góða möguleika á stórfelldri atvinnuuppbyggingu á Austurlandi sem getur skipt miklu í byggðaþróun og skilað þjóðinni auknum þjóðartekjum ef af verður. Skiptar skoðanir eru um málið og sumir andstæðingar þess halda því fram að beislun vatnsafls við Kárahnjúka valdi miklu varanlegu náttúrutjóni og því beri að leggja þessi áform til hliðar.

Að sjálfsögðu ber að taka tillit til sjónarmiða náttúruverndar en við verðum einnig að líta til hagsmuna mannfólksins og byggðanna í landinu og við eigum að vega hlutina og meta og ná skynsamlegri niðurstöðu. Sumir andstæðingar þessa máls telja uppbyggingu virkjana og stóriðju á Austurlandi ekki heppilega og krefjast þess að ráðist verði í eitthvað annað. Þessi ,,eitthvað annað``-atvinnustefna sem þorri stjórnarandstöðunnar talar fyrir er ekki líkleg til að skapa okkur þau lífsskilyrði sem við stefnum að. Hún er fremur til þess fallin að skapa hér svipuð lífsskilyrði og hjá þjóðum sem við viljum alls ekki bera okkur saman við. Þessi atvinnustefna kallar yfir okkur atvinnuleysi og lakari kjör. Framsfl. vill ekki stuðla að slíku ástandi.

Nýjasta útspil Vinstri grænna í þessum efnum er að dæla hundruðum millj. kr. á Austurland til þess að gera ,,eitthvað annað`` án skilgreindra markmiða. Þetta er glæsileg stefna eða hitt þó heldur.

Hæstv. forseti. Auðlindir lands og náttúru eru grundvöllur landbúnaðarins. Mikil þróun hefur átt sér stað í hefðbundnum landbúnaði og víða er verið að byggja upp í sveitum landsins ásamt því að unnið er að rekstrarlegri hagræðingu í greininni. Aukin menntun, rannsóknir og þróunarverkefni eru grundvöllur framþróunar og gera landbúnaðinum kleift að standa sig betur í aukinni samkeppni. Við eigum fyrirmyndar mennta- og rannsóknarstofnanir sem skipta miklu í þessu sambandi.

En hlutverk landbúnaðarins er annað og meira en framleiðsla fyrsta flokks matvæla með nýtingu hreinnar náttúru. Landbúnaðurinn tengist náið menningu og sögu þjóðarinnar sem og þróun búsetu og byggðar í landinu.

Nú er unnið að skilgreiningu fjölþætts hlutverks landbúnaðarins, enda er það ein af forsendum landbúnaðarstefnu framtíðarinnar.

Góðir áheyrendur. Okkur berast váleg tíðindi utan úr heimi. Afleiðingar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum í síðasta mánuði birtast okkur daglega í nýjum myndum og atvinnuvegir sem allir dásömuðu fyrir nokkru berjast nú í bökkum. Það hriktir í stoðum efnahagskerfis heimsins. Ótti og óvissa grefur um sig meðal almennings um allan heim. Við slíkar kringumstæður er gott að tilheyra matvælaframleiðsluþjóð sem framleiðir hágæðamatvæli. Við þessar aðstæður sjáum við hve ríkir við Íslendingar erum af landinu okkar, náttúrugæðunum, samfélagsgerðinni og mannauðnum. Við erum sjálfum okkur nóg að mestu og við eigum að lifa í sátt og samlyndi hvert við annað og við land okkar. Það eru forréttindi að vera Íslendingur og búa á Íslandi. Það skulum við hafa í huga. --- Góðar stundir.