2001-10-03 13:59:28# 127. lþ. 3.1 fundur 35#B hryðjuverkin í Bandaríkjunum og viðbrögð við þeim, skýrsla utanríkisráðherra# (munnl. skýrsla), TIO
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 127. lþ.

[13:59]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Árás hryðjuverkamanna á Bandaríkin 11. sept. sl. markar dapurleg þáttaskil í alþjóðlegum samskiptum og öryggismálum. Ekki beinlínis vegna þess að siðleysi hryðjuverkahópa, takmarkalaus fyrirlitning þeirra, mannfyrirlitning þeirra og grimmd hafi ekki áður endurspeglast í árásum á saklausa borgara. Þessi þáttaskil markast heldur ekki af því að okkur væri ekki kunnugt um að hryðjuverkahópar nytu velþóknunar og hernaðarlegs og fjárhagslegs stuðnings ákveðinna ríkja. Upplýsingar um beinan stuðning Sovétríkjanna og leppríkja þeirra við hryðjuverkamenn liggja fyrir, eru skjalfestar og hafa verið gefnar út.

Þáttaskilin urðu jafnvel ekki vegna þess að okkur væri ókunnugt um að hryðjuverkahópar og verndarar þeirra leituðu allra leiða, þar á meðal efna- og sýklavopna, til að koma höggi á hinn siðmenntaða heim. Upplýsingar liggja fyrir um tilraunir Íraka til að koma sér upp kjarnavopnum og efnavopnum. Þessar upplýsingar hafa einnig verið gefnar út á prenti.

Nei, hin dapurlegu þáttaskil hafa orðið vegna þess að á einum degi skilgreindu atburðirnir sjálfir og umfang þessara atburða þá meginógn sem nú steðjar að þjóðum heimsins. Og þessi ógn steðjar að þjóðum heimsins en öllu öðru framar steðjar hún að lýðræðisþjóðfélögum þar sem frelsi á öllum sviðum mannlegra samskipta er orðið undirstaða samfélagsins. Árásin á Bandaríkin er því aðför að lýðfrelsi og einstaklingsfrelsi, aðför að opnum og greiðum samskiptum í markaðshagkerfi sem hefur öðru fremur bætt hag þjóða heimsins.

[14:00]

Árásin var umfram allt aðför að þeirri öryggistilfinningu sem er undirstaða slíkra opinna samfélaga, undirstaða mannlegra samskipta, undirstaða ferðalaga, alþjóðlegs samstarfs og samskipta.

Umfang atburðarins, manntjónið en einnig aðferðir glæpamannanna, hófu áður þekkta ógn í annað og meira veldi en menn höfðu getað ímyndað sér. Ekki aðeins var vopnum beitt gegn saklausum borgurum heldur var saklausum borgurum og almennum samgöngutækjum breytt í tortímingarvopn og þeim beitt með áður óþekktum afleiðingum.

Umfang atburðarins og val skotmarkanna breytti í raun eðli hermdarverka og þessi breyting er varanleg. Það er ljóst að tilgangur hryðjuverkamannanna var ekki aðeins að ráðast gegn Bandaríkjunum og því sem þau standa fyrir ásamt bræðraþjóðum sínum. Tilgangurinn var einnig að hrinda þjóðum heimsins út í trúarbragðaátök. Sérstaklega ber að fagna því hve einarðlega þjóðarleiðtogar hafa hafnað því að hér sé um að ræða átök milli trúarbragða. Sá stóri vandi sem upp er kominn er vandi allra þjóða og allra trúarbragða. Hann er vandi allra heimshluta og allra þjóðskipulaga. Svo einstæður atburður krefst sérstakra viðbragða, hann krefst mikils styrks, jafnt pólitísks styrks sem siðferðilegs. Hann krefst yfirvegunar en jafnframt kallar hann á fumlaus og hörð viðbrögð.

Viðbrögð Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra í Atlantshafsbandalaginu hafa verið ákveðin og yfirveguð. Bandalagið hefur lýst því yfir að litið sé á árásina sem árás á öll bandalagsríkin. Gagnkvæmar skuldbindingar 5. gr. Norður-Atlantshafssáttmálans verða þar af leiðandi virkar. Það markar tímamót sem og sú ákvörðun að líta svo á að hryðjuverk falli undir hinar gagnkvæmu skuldbindingar.

Enn er óljóst hvernig Bandaríkjamenn munu bregðast við í samræmi við rétt sinn til sjálfsvarnar. Mikilvægt er að átta sig á því að 5. gr. Norður-Atlantshafssáttmálans byggir á 51. gr. stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna sem tryggir öllum ríkjum rétt til sjálfsvarnar. Í tilvikum þar sem þessi réttur á við er ekki gert ráð fyrir því að leita þurfi sérstaks umboðs öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna til hernaðarlegra aðgerða. Ljóst er þó að viðbrögð Bandaríkjamanna við þessum hörmulegu atburðum verða mjög margþætt. Gripið verður til pólitískra, efnahagslegra og lagalegra aðgerða. Bandaríkin hafa lagt áherslu á samstöðu ríkja heimsins um slíkar ráðstafanir.

Afar mikilvægt er að þau ríki sem skotið hafa skjólshúsi yfir hryðjuverkamenn, veitt þeim aðstöðu til þjálfunar og fjármagnað athæfi þeirra, verði einangruð, aðþrengd og látin svara ábyrgð. Skilaboð breska forsætisráðherrans í þessu efni voru skýr og tæpitungulaus.

Óljóst er með hvaða hætti bandalagsþjóðir NATO taka þátt í aðgerðum. Hitt er ljóst að atburðirnir hafa þegar haft djúptæk áhrif á samstarf bandalagsþjóðanna. Þær þjappa sér saman og efla samstarf sitt. Bandalagsríkin hafa lýst yfir óskiptum pólitískum stuðningi við Bandaríkin og þær almennu aðgerðir sem þau hafa gripið til. Bandalagsríkin hafa einnig undirbúið stóraukið samstarf á því sviði sem hefur í raun verið allt of veikt, þ.e. samstarf á sviði upplýsingaöflunar. Það er ekki síst mikilvægur liður í forvarnastarfi og vörnum gegn frekari voðaverkum sem kunna að vera í undirbúningi.

Herra forseti. Utanrmn. Alþingis samþykkti á fundi sínum 12. sept. sl. ályktun um hina miskunnarlausu árás á Bandaríkin. Nefndin vottaði bandarísku þjóðinni sína dýpstu samúð og lýsti yfir stuðningi við Bandaríkjastjórn. Nefndin lagði áherslu á að þeir sem bæru ábyrgð á voðaverkunum yrðu dregnir til ábyrgðar og að þjóðir heimsins sameinuðust í baráttu gegn hryðjuverkamönnum og þeim sem veita þeim skjól. Nefndin stóð öll að þessari samþykkt og það undirstrikar þá breiðu pólitísku samstöðu sem þessi aðför að lýðræði og mannréttindum hefur skapað.

Á 2. fundi utanrmn. var staðfestur mótatkvæðalaust heils hugar stuðningur við ákvarðanir ríkisstjórnarinnar og stuðning hennar við ákvarðanir Norður-Atlantshafsráðsins. Miklu skiptir að almenn pólitísk samstaða verði um afstöðu til aðgerða vegna þessara hörmulegu atburða. Það er mikið í húfi. Einarðri kröfu um að hryðjuverkamennirnir verði framseldir hefur verið komið á framfæri. Ekkert bendir til þess enn að við þeirri sjálfsögðu kröfu verði orðið.

Í skoðanakönnunum hefur komið fram eindreginn stuðningur við framsal glæpamannanna hér á landi. Hins vegar hefur ekki komið fram hver afstaðan er til þess sem gera þarf ef framsalskröfunni verður áfram hafnað, enda hefur ekki verið leitað eftir þeirri afstöðu öfugt við það sem haldið hefur verið fram.

Eftir að kalda stríðinu lauk hafa þær raddir gerst háværari að ekki þyrfti að sinna öryggismálum. Andstæðingurinn hefði týnst, óvinurinn væri ekki í sjónmáli. Þeir sem hafa haft fætur á jörðinni hafa lagt áherslu á varnar- og öryggismál og bent á að að ýmsu leyti væri umhverfi öryggismála óljósara og ástandið óvissara en áður. Það hefur komið í ljós að þeir höfðu enn einu sinni rétt fyrir sér. Við þurfum að treysta varnarviðbúnað okkar og leita nýrra leiða gegn nýrri ógn. Við þurfum enn að reka ábyrgðarmikla varnarstefnu og treysta sameiginlegar varnir bandalagsþjóða okkar.

Íslendingar eru friðsöm þjóð. Í Atlantshafsbandalaginu sameinast þjóðir sem vinna saman að því að varðveita frið í sínum heimshluta með sameiginlegum öryggisráðstöfunum og skuldbindingum. Viðbrögð bandalagsríkjanna við þeim mikla vanda sem við stöndum nú frammi fyrir hafa verið yfirveguð og fumlaus. Ef til aðgerða kemur til að refsa hinum seku og uppræta útungunarstöðvar hryðjuverkamannanna og bandamanna þeirra er hins vegar brýnt að þjóðir heimsins sýni samstöðu og bandalagsþjóðir NATO virði skuldbindingar sínar. Ekkert er hættulegra en að láta hryðjuverkamenn og verndara þeirra finna að þeir geti leikið á samstöðuleysi og úrræðaleysi þeirra sem standa vörð um lýðræði og mannréttindi.

Ljóst er að þessir miklu atburðir munu hafa afar neikvæð efnahagsleg áhrif á hagkerfi heimsins. Ljóst er að auðugri þjóðir munu hafa meira þanþol til að bregðast við þessum erfiðleikum en hinar fátækari. Þessir atburðir munu því hafa verst áhrif á stöðu fátækustu þjóða heimsins.

Það má búast við því að fyrstu viðbrögðin verði skammtímaviðbrögð, yfirveguð, vel grunduð skammtímaviðbrögð. Síðan munu menn velta því fyrir sér hvernig hægt sé að bregðast við til lengri tíma. Þá mun athygli heimsins beinast að því hve efnahagur heimsins styðst í vaxandi mæli, með hverju ári, við jarðefnaorkuvinnslu í Miðausturlöndum þar sem ríkir landlægt öryggisleysi, stjórnmál eru í upplausn og grundvöllur viðskipta háður duttlungum ófyrirleitinna harðstjóra og fjöldamorðingja á borð við Saddam Hussein. Þegar til lengri tíma er litið munu þjóðir heimsins ræða aðferðir og leita leiða til þess að draga úr efnahagslegu vægi þessa heimshluta og draga úr pólitískri þýðingu jarðefnaorku ef takast á að leggja grundvöll að friðsamlegum alþjóðasamskiptum.