2001-10-03 14:20:02# 127. lþ. 3.1 fundur 35#B hryðjuverkin í Bandaríkjunum og viðbrögð við þeim, skýrsla utanríkisráðherra# (munnl. skýrsla), SvH
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 127. lþ.

[14:20]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það verður ekki ofsögum sagt af því að við lifum í nýrri veröld, gerbreyttri veröld frá því sem var. Slík hamskipti urðu á allri aðstöðu í veröldinni hinn 11. sept. sl. sem engan gat órað fyrir og enginn sér enn nema jaðar af þeim ósköpum sem þetta á eftir að hafa í för með sér. Sá jaðar slengdist að okkur nýverið þegar við þurftum að ganga í ábyrgð vegna flugsamgangna okkar, ábyrgjast upphæðir sem eru handa einhverjum stjarnfræðingum að nema en ekki venjulegu fólki.

Það þykir kannski of djúpt í árinni tekið að jafna þessum degi, 11. sept., við 1. sept. 1939 en sem stendur kann mönnum að ofhasa sú samlíking. En við vitum það ekki, okkur er það ekki ljóst af því að ég trúi að alla skorti hugmyndaflug til að gera sér grein fyrir því með nokkrum hætti til hvers þetta kann að leiða. Við sjáum aðeins brotabrot af því sem þær munu sjálfsagt valda, enda þarf meira en litla langsýni til að átta sig á því.

Nú hafa þessi ógnarlegu þrælmenni gefið fordæmi sem vekur mikinn ótta. Þarna sjá þeir sem ekki vilja á sárs höfði sitja við þjóðir heims, ekki við almenning, ekki við börn og gamalmenni, hverju er hægt að fá framgengt, hvað má takast í því æði, morðæði og vitfirringu sem þeir vilja stunda. Þeir eru ófáir sem starfa á þessum vettvangi svo að það er meira en vafasamt því miður að hægt verði að uppræta ódæðismenn eða sjá við vélabrögðum glæpalýðsins, því er verr og miður. En það er þó gerð tilraun til þess. Það er mjög merkilegt hversu víðtæk samstaða þjóða heims hefur tekist og það er vonandi að það boði að sínu leyti nýja tíma.

Maður sem ólst upp í kalda stríðinu hlýtur að fagna því þegar stórþjóðir heims í austri og vestri, Sovétríkin eins og það hét áður, Rússland nú, og Bandaríkin taka höndum saman. Það er auðvitað af hinu góða og því þarf að fylgja eftir. En það er alveg óvíst að það nægi til. Trúarbragðadeilur blandast þessu máli og ekkert í veröldinni hefur verið eins hatrammt og trúarbragðadeilur eða miskunnarlaust. Evrópa man tímana tvenna í því. Hún þarf ekki annað en rifja upp rannsóknarréttinn á Spáni á sínum tíma. Það hefur verið sagt í mín eyru af sögufræðingi að fáar eða engar stofnanir ættu eins mörg líf á samviskunni og kaþólska kirkjan. Ég kann ekki að rekja sannindi þessa.

Við Íslendingar stöndum nú frammi fyrir þeim ótrúlegu aðstæðum að í gildi gengu ákvæði í sáttmála Norður-Atlantshafsbandalagsins, að árás á einn aðila skuli vera árás á alla. Ég verð að játa að mig óraði aldrei fyrir því að til þess drægi en fyrst að svo er þá er okkar að standa við okkar þátt í þessum sáttmála undanbragðalaust. Á hinn bóginn er Ísland óvopnuð smáþjóð sem mun aldrei taka beinan þátt í vopnaviðskiptum. Við getum lagt til lið til friðargæslu en okkar er auðvitað fyrst og fremst að bera klæði á vopnin. Við getum lagt til hina dýrmætu aðstöðu á Suðurnesjum sem hefur verið eina og aðalframlag okkar til samtaka NATO. Ég hygg að sú eðlilega von sem menn báru í brjósti, m.a. ég, um að við mundum lifa þann dag að þurfa ekki að hafa her í landi okkar, sé borin von. Ég hygg að um ófyrirsjáanlega framtíð sé það borin von að hugsa til þess, hvað þá meira.

Í upphafi þótti mér að vísu sem forseti Bandaríkjamanna virtist nokkuð bráður til hefnda. Yfirlýsingar sem þaðan bárust voru með þeim hætti að vakti nokkurn óhug. Ég verð líka að játa að mér fannst þeir fullherskáir, okkar forustumenn, í fyrstu orðum sínum um þessa atburði. En þeim er auðvitað vorkunn.

Við Íslendingar eigum siðalögmál vegna hefnda. Ég vil að gamni rifja það upp að í Málsháttakvæði, sem svo heitir, segir: ,,Eigi veit, áður hefndum lýkur.`` Við Íslendingar, á sinni tíð þegar við bárum vopn hver á annan, höfðum af því þessa reynslu sem blasir við.

Í Konungsskuggsjá segir á einum stað svo, með leyfi forseta:

,,En þó að nauðsynlegar sakir þröngvi þig til óspektar, þá gerst þú eigi bráður í hefndum, fyrr en þú sérð að vel verði framgengt og þar komi niður sem maklegt er.`` --- Og enn segir í þeirri bók:

,,Hefn meður hófi og sannsýni, en eigi meður illgjarnlegri ákefð.``

Þetta eru okkar siðalögmál. Þegar að því kemur að bandamenn okkar fara að sækja um skör fram eða gerast offari í hefndunum þá skulum við kynna þeim þessi siðalögmál okkar.

Eins og ég sagði er vonandi að nú rísi upp nýir tímar í betri samstöðu og samvinnu stórþjóða heims og allra þjóða. En þar er langt í land og á meðan þurfum við að fást við þessi ógnarvöld, ógnarofstækið sem hvorki spara fé né fjör til að koma ósköpum sínum fram. Það er dálítið erfitt fyrir okkur að setja okkur í þau spor að hægt sé að magna slíkt trúarofstæki upp í ungum mönnum að þeir fórni til þess lífi sínu en þar virðast múslimar hafa um auðugan garð að gresja. Og þá vita menn að á því kann að verða von að þeir sem hafa nóga peninga handa á milli, eins og t.d. þessi bin Laden, mæti einn góðan veðurdag á Concorde-torginu í París með atómsprengju, hún þarf ekki einu sinni að vera stór.

Möguleikar þessara manna, ef þeir vilja beita þeim eru ótæmandi og þess vegna er ógnin svona ótrúleg.

Framlag okkar eins og sakir standa er augljóslega að ljá áfram land okkar vegna þeirrar aðstöðu sem herveldi getur eignast þar og er af mörgum talin ein hin mikilvægasta.

Ég vil að svo komnu lýsa yfir stuðningi Frjálslynda flokksins í einu og öllu við athafnir íslenskra stjórnvalda að svo komnu vegna ógnaratburðanna í Bandaríkjunum 11. sept. sl.