2001-10-03 14:29:39# 127. lþ. 3.1 fundur 35#B hryðjuverkin í Bandaríkjunum og viðbrögð við þeim, skýrsla utanríkisráðherra# (munnl. skýrsla), MS
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 127. lþ.

[14:29]

Magnús Stefánsson:

Hæstv. forseti. Sú grimmd og mannvonska sem birtist okkur í aðgerðum hryðjuverkamanna í Bandaríkjunum 11. sept. sl. er óskiljanleg og um leið ógnvekjandi. Það að farþegaþotur með saklausum borgurum séu notaðar líkt og árásareldflaugar í þeim tilgangi að fórna sem flestum mannslífum, granda táknrænum mannvirkjum og vega að efnahagskerfi heimsins hlýtur að snerta tilfinningar fólks um allan heim, enda er það svo að ótti og óöryggi einkennir nú mannlíf og atvinnustarfsemi víðast hvar um heiminn. En hvað er til ráða?

[14:30]

Hæstv. utanrrh. hefur gert grein fyrir viðbrögðum íslenskra stjórnvalda. Í mínum huga einkennast þau af styrk og festu og rökréttri afstöðu. Ég styð afstöðu og viðbrögð ríkisstjórnarinnar af heilum hug og um leið vil ég nota tækifærið og hrósa hæstv. utanrrh., starfsmönnum utanríkisþjónustunnar og stjórnvöldum almennt fyrir þeirra þátt í þessu erfiða og viðkvæma máli. Einnig hefur hæstv. utanrrh. gert grein fyrir viðbrögðum og áformum sem almennt eru uppi í alþjóðasamfélaginu og er í sjálfu sér ekki miklu við það að bæta.

Við skulum hafa það alveg á hreinu að ógnir hryðjuverkanna steðja að okkur nánast hvar sem er. Fram hafa komið fréttir af árangri stjórnvalda víða við að uppræta og koma í veg fyrir áform um hryðjuverk. Þær fréttir eru ógnvekjandi og vekja óhug. Til dæmis mun hafa tekist að koma í veg fyrir eiturgasárás á Evrópuþingið í Strassborg þar sem markmið hryðjuverkamanna mun hafa verið að deyða yfir 600 þingmenn og starfsmenn Evrópuþingsins, og í fjölmiðlum í dag kom fram að hryðjuverkamenn munu hafa haft uppi áform um árásir á franska knattspyrnulandsliðið þegar Evrópukeppni landsliða stóð yfir í Hollandi á síðasta ári. Við heyrum einnig nánast daglega fréttir af hryðjuverkum í einhverri mynd sem framkvæmd eru einhvers staðar í heiminum. Þessi villimennska bíður alls staðar handan við hornið.

Það hefur komið fram að hryðjuverkamenn og samtök þeirra nota sölu eiturlyfja til að fjármagna starfsemi sína. Í því birtist ein mynd glæpamennskunnar. Þeir eru ekki einugis holdi klædd drápstól sjálfir heldur einnig sölumenn dauðans og teygja á þann hátt anga sína inn í okkar samfélag.

Í umræðunni um þessi mál hefur m.a. verið vitnað í niðurstöðu könnunar sem var gerð hér á landi og bendir til að nánast öll þjóðin vilji að hryðjuverkamenn verði framseldir án hernaðarárása á þau lönd sem hýsa þá. Ég er ekki í vafa um að við öll sem hér erum höfum sömu skoðun á þessu. Vandinn er hins vegar sá að við höfum ekki þann aðgang að talibönum í Afganistan sem þarf til að hafa áhrif á þetta. Það vitum við öll. Þess vegna eru tilvitnanir í svona skoðanakannanir marklaus rök gegn fyrirhuguðum aðgerðum gegn talibönum og hryðjuverkamönnum í Afganistan.

Hins vegar má benda á að sama könnun sýnir að mikill meiri hluti er fyrir því að árásir verði gerðar á hernaðarlega mikilvæg mannvirki þessara glæpamanna til þess að ná til þeirra. Öll linkind gagnvart hryðjuverkamönnum er ávísun á frekari dauða og limlestingar saklausra borgara. Ekki mun duga að senda þeim væmin ástarbréf með ósk um að vera góðir strákar og virða frið. Það verður að mæta þeim af fullri hörku, koma böndum á þá og uppræta samtök þeirra. Það er liður í almennri baráttu gegn glæpum í heiminum og það er einnig liður í baráttunni gegn eiturlyfjum sem við höfum lagt svo mikla áherslu á og er þjóðþrifamál í okkar samfélagi.