2001-10-03 14:33:35# 127. lþ. 3.1 fundur 35#B hryðjuverkin í Bandaríkjunum og viðbrögð við þeim, skýrsla utanríkisráðherra# (munnl. skýrsla), RG
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 127. lþ.

[14:33]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. 11. september er dagurinn sem við munum aldrei gleyma, dagurinn sem enginn má gleyma, ekki til að ala á hatri heldur til að muna, skilja og læra af.

Herra forseti. Ég hef í starfshópi á vegum Norðurlandaráðs um friðargæslu komið að stefnumörkun um aukna samvinnu Norðurlandanna á átakasvæðum og innan alþjóðastofnana um fyrirbyggjandi aðgerðir á spennusvæðum, borgaralega áhættustjórnun og enduruppbyggingu í kjölfar átaka. Þessi starfshópur skilaði forsætisnefnd skýrslu stuttu fyrir hina hörmulegu atburði í Bandaríkjunum og mótaðist umræða í forsætisnefnd Norðurlandaráðs mjög af þeim atburðum sem höfðu þá orðið. Tillögur starfshópsins verða teknar fyrir á fundi Norðurlandaráðs í október en í skýrslunni er ásamt tillögum að finna álit og niðurstöður hópsins og jafnframt samantekt á störfum og stefnumörkun þeirra alþjóðastofnana sem við m.a. erum aðilar að og helstu áherslur hvers af Norðurlöndunum, og hef ég óskað eftir að skýrslunni verði dreift í utanrmn. Alþingis.

Evrópuráðið hefur líka nýverið tekið hryðjuverkin í Bandaríkjunum til umræðu. Rauður þráður í ræðum manna þar var að grípa ekki til hefndaraðgerða, hins vegar verði alþjóðasamfélagið að sameinast um að sækja þá glæpamenn sem að hryðjuverkunum komu og fyrir þeim stóðu til saka í nafni réttlætis, draga þá fyrir dómstóla.

Íslendingar eiga náið samstarf við Evrópuþjóðir þó að við séum ekki aðilar að Evrópusambandinu. Nú verðum við að hafa aðkomu að umfjöllun um hagsmuni Evrópu á þessum örlagatímum. Það má alls ekki gerast að skrifræði og stofnanavægi Evrópusambandsins bitni á okkur sem fyrir utan stöndum og verði til hindrunar því samstarfi sem við viljum eiga í Evrópu. Ísland má ekki vera veiki hlekkurinn í samstarfi Evrópuþjóða.

Herra forseti. Við viljum verja lýðræðið, frelsið og hin opnu samfélög Vesturlanda. Við trúum að hægt sé að brúa bil ólíkra trúarbragða og þjóðfélagsgerða, að unnt verði að útrýma fátækt og fordómum. Við vonum að einhvern tíma í framtíðinni náum við þangað að þjóðir heims lifi í sátt og samlyndi við gagnkvæmt umburðarlyndi.

En það sem skiptir máli núna er samstaða þjóða um að taka á saman gegn hryðjuverkum því það sem gerðist í New York 11. sept. getur gerst í Berlín á morgun eða jafnvel í okkar litla landi ef hryðjuverkahópur teldi sér akk í að sýna með því vald sitt. Okkur ber að ræða hvort sérstakan viðbúnað íslenskra stjórnvalda þurfi til að bregðast við aðgerðum hryðjuverkamanna. Utanrmn. mun að ósk fulltrúa Samfylkingarinnar í nefndinni fara á næstunni yfir hvað líði framkvæmd þeirra tilagna sem fram koma í skýrslu utanrrh., ,,Öryggis- og varnarmál Íslands við aldamót``, sem við ræddum á Alþingi vorið 1999 og hvaða hætta okkur mundi helst stafa af hryðjuverkum.

Herra forseti. Ég tek undir það með formanni Samfylkingarinnar að það var þýðingarmikið að Evrópuríki brugðust svo sterkt við. Því ber að fagna að ekki var gripið til hefndaraðgerða með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Bandaríkin hafa haldið vel á málum hingað til þrátt fyrir glannalegt tungutak um stríð. Glæpur hefur verið framinn. Réttlætis er krafist. Hryðjuverk á að stöðva og að því standa Vesturlönd öll saman.