2001-10-03 15:03:03# 127. lþ. 3.1 fundur 35#B hryðjuverkin í Bandaríkjunum og viðbrögð við þeim, skýrsla utanríkisráðherra# (munnl. skýrsla), ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 127. lþ.

[15:03]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Hinn 11. september sl. nötraði heimsbyggðin og má segja að fólk við sín daglegu störf ekki aðeins brann upp í báli hermdarverks heldur hvarf líka hin daglega veröld okkar í reyknum og eimyrjunni. Við tökum að sjálfsögðu öll undir samúðarkveðju hæstv. utanrrh. til bandarísku þjóðarinnar. Það er alveg ljóst að sú kveðja á sér stuðning hvarvetna þar sem Íslendingar eru og voru staddir á þessum dögum sem í kjölfarið komu. En okkur er dálítið orðfátt enn þá yfir því ótrúlega hatri sem illvirkið bar með sér, svo skefjalaust sem það var, en allir þeir sem sáu á eftir ástvinum og nánum samferðamönnum eiga samúð okkar og virðingu og sömuleiðis þökk og virðingu þeir sem hafa starfað við björgun í rústunum og starfað þar af ótrúlegri hetjulund og hafa unnið mörg þrekvirki.

Það er hins vegar ekki svo einfalt að árásinni hafi eingöngu verið beint gegn Bandaríkjunum þó svo að sárin hafi mest orðið þar því að skotmarkið var bygging þar sem starfaði mikill fjöldi fólks við alþjóðasamstarf, alþjóðaviðskipti. Af öllu þessu er alveg ljóst að hinn vestræni heimur opinna frjálsra samfélaga varð allur fyrir árás og henni var beint að grundvallarstoðum hans hvort sem hann er eingöngu um Vesturlönd eða nær inn í fleiri álfur sem er hið rétta. Afleiðingarnar koma ekki einungis fram í sárum þessa fólks sem mest hefur misst heldur líka í gífurlega miklum efnahagslegum skaða og vafalaust verður hann mestur hjá þeim sem minnst hafa til þessa borið úr býtum.

Hið rétta er að ofstækisfullir stríðsæsingamenn, hvar sem þeir taka til starfa, hafa reynt að koma slíku fram um langt árabil en þessi gjörð er stærst og verst og þungbærust. Það voru ekki einasta Bandaríkjamenn sem horfðu á eftir ástvinum sínum. Fórnarlömbin teljast hafa verið af um 40 þjóðernum og frá nærri því 40 þjóðríkjum.

Það er rétt að við getum þess í leiðinni að Bandaríkjamenn hafa á síðustu öld skipað sér sess sem ein af bestu vinaþjóðum Íslendinga og við hljótum að senda þeim hlýhug okkar. Við hljótum að fylgja þeim eftir þegar þeir leita leiða til að koma fram aðgerðum til að draga til ábyrgðar þá sem ábyrgir eru og þá sem hafa stutt ódæðismennina í gjörðum þeirra eða veitt þeim skjól. Það er mikil nauðsyn að þessar aðgerðir allar verði yfirvegaðar eins og þær hafa verið til þessa, þær verði einbeittar og skilyrðislausar. Það er nauðsyn okkur öllum sem viljum í framtíðinni búa áfram í veröld sem verður sem best opin og frjáls. Ef þetta tekst ekki verður heimurinn ekki lengur opinn og frjáls.

Það er alveg ljóst af samþykktum Atlantshafsráðsins og öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna að þar er samhljómur með þeim ákvörðunum og ályktunum sem hér hafa verið settar fram af hálfu ríkisstjórnar Íslands og utanrmn. Alþingis. Og það er alveg ljóst að til þess að fylgja þeim ályktunum og ákvörðunum eftir verður Ísland að leggja sitt af mörkum til stuðnings við vinaþjóð í raun til þess að sameiginlegar aðgerðir bandalagsríkja þeirra beggja nái árangri og nái að hrinda frá þeim og íbúum þeirra illvirkjum hvenær sem þeir vilja koma sínu fram.

Það skiptir öllu máli, herra forseti, að við gerum okkur grein fyrir því að ef það tekst ekki verður ekkert frelsi því að það er ekkert frelsi án öryggis.