2001-10-03 15:07:23# 127. lþ. 3.1 fundur 35#B hryðjuverkin í Bandaríkjunum og viðbrögð við þeim, skýrsla utanríkisráðherra# (munnl. skýrsla), KolH
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 127. lþ.

[15:07]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vil taka undir þakkir þeirra þingmanna sem orðað hafa þakkir til hæstv. utanrrh. fyrir að eiga frumkvæði að þeirri umræðu sem hér fer fram og sömuleiðis þakkir til hæstv. dómsmrh. vegna yfirlýsinga hennar um undirritun og væntanlega fullgildingu þeirra alþjóðlegu samninga sem ætlað er að ná til hryðjuverka og annarrar skipulagðrar glæpastarfsemi sem nær þvers og kruss yfir landamæri þjóða.

Baráttan gegn hryðjuverkum í heiminum í dag er á ábyrgð allra þeirra sem fordæma hvers kyns voðaverk í veröldinni. Baráttan er á ábyrgð þeirra sem trúa á réttlætið en það er ekki létt eða einfalt að standa undir þessari ábyrgð. Það er gífurlega vandasamt og það krefst yfirvegunar og það krefst visku. Það krefst líka upplýstrar og vitrænnar umræðu. Það krefst yfirsýnar og skilnings, t.d. skilnings á því að hryðjuverk og önnur skipulögð glæpastarfsemi eru áþreifanlegur þáttur í ógn og ótta milljóna saklausra borgara um allan heim. Þessa saklausu þegna allra þjóða þarf að vernda, alla.

Ótal spurningar fara í gegnum hugann í þessu sambandi, herra forseti, og þær lúta margar að ábyrgð. Hver er ábyrgð þeirra stjórnvalda sem styðja og hýsa hryðjuverkamenn í dag? Hverjar eru þær þjóðir og hverjir eru þeir hryðjuverkamenn? Og hvaða hryðjuverk eru talin með? Eru jarðsprengjur taldar til hryðjuverka? Þær granda ótal saklausum borgurum á hverju einasta ári. Eru aðgerðir hers og lögreglu víða um heim gegn almennum borgurum taldar til hryðjuverka? Það má nefna Kína í því sambandi, herra forseti.

Hvað með fylgifiskana eins og eiturlyfin, herra forseti? Hvar eru markaðirnir fyrir eiturlyfin og hverjir kaupa eiturlyfin? Eru þeir gerendur eða þolendur og hverjir bera ábyrgðina?

Herra forseti. Hvar eru markaðarnir fyrir vopnin? Hverjir framleiða þau vopn sem ganga kaupum og sölum? Hverjir selja þau og hverjir kaupa þau og hvar er þeim beitt? Hverjir falla fyrir þeim vopnum og hverra er ábyrgðin?

Herra forseti. Hverjir búa til eftirspurnina fyrir líkama kvenna og barna sem seld eru mansali til kynlífsþrælkunar? Herra forseti. Hverjir borga þá 7 milljarða bandaríkjadala sem árlega er talið að greiddir séu glæpahringjum sem standa að baki þrælasölunni, að baki nauðungarsölu hundruð þúsunda kvenna og barna á ári hverju? Hver er ábyrgð þeirra sem búa til þessa eftirspurn? Eða þeir fjármálamarkaðir, herra forseti, sem staldra ekki við eða spyrja einskis, skipta sér jafnvel ekki af þó að þeir finni nálykt af því fé sem sýslað er með. Ef þeir fjármálamarkaðir eru til, herra forseti, hver er þá ábyrgð þeirra?

Herra forseti. Ræðum um ábyrgð, ræðum um hlutina þó að þeir séu erfiðir, ræðum um þá út í hörgul og stöndum undir þeirri ábyrgð sem því fylgir að fylgja réttlætinu til sigurs.