2001-10-03 15:11:19# 127. lþ. 3.1 fundur 35#B hryðjuverkin í Bandaríkjunum og viðbrögð við þeim, skýrsla utanríkisráðherra# (munnl. skýrsla), LMR
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 127. lþ.

[15:11]

Lára Margrét Ragnarsdóttir:

Hæstv. forseti. Blóðbaðið, eldhafið og eyðileggingin sem við urðum vitni að 11. sept. sl. eiga sér ekki fordæmi í allri sögunni. Þar var farið langt yfir mörk þess sem við höfum kynnst áður af hálfu hryðjuverkamanna því þann dag köstuðu hinir óþekktu hryðjuverkamenn stríðshanskanum, einhliða og án viðvörunar, gegn vinum okkar, bandamönnum og frændum, og sögðu reyndar stríð á hendur öllu því sem hið frjálsa og lýðræðislega samfélag stendur fyrir.

Harmur og sorg eru nú orðin að reiði eða jafnvel hatri. Um leið og við biðjum fyrir fórnarlömbum þessa áfalls og fjölskyldum þeirra verðum við að hafa í huga hversu gríðarlega mikilvægt það er að viðbrögðin verði nákvæm og vel skilgreind og byggð á réttlátum grundvelli.

Hatur er ekki leið til endurgjalda. Hatur er hættulegt og leiðir til vítahrings sem ekki er unnt að losa sig úr. Umheimurinn og einkanlega bandaríska ríkisstjórnin sýndi í verki aðdáunarverða varkárni til að koma í veg fyrir nánast óhindraðar hefndarárásir sem í sjálfu sér hefðu verið skiljanlegar. Tel ég rétt að virða og meta þau varkáru viðbrögð. Áframhaldandi varkárni í viðbrögðum er nú lífsnauðsyn og alþjóðasamfélagið ber ábyrgð á því að brjóta vítahring hryðjuverka með sameinuðu átaki.

Til að leysa þennan hryllilega vanda verðum við að reyna að skilja hvað stendur á bak við slíkan voðaverknað, hvernig á að mæta honum og hvernig á að koma í veg fyrir endurtekningu. Þær tilgangslausu og yfirþyrmandi árásir sem við höfum nú reynt hafa breytt skilningi okkar á hugtakinu hryðjuverk. Við þurfum að setja okkur í önnur spor, búa okkur annan hugarheim til að skilja tilurð þeirra. Eingöngu alþjóðleg samvinna mun geta yfirunnið slíkan grimmdarverknað. Þolinmæði og sjálfsagi verða að hafa yfirhöndina í slíkri samvinnu.

Þótt stríðsrekstur sé okkur ekki að skapi er ekki unnt að sjá aðra leið til að mæta hryðjuverkum af þessu tagi. Við Íslendingar verðum að leggja okkar af mörkum eins og aðrar þjóðir. Fram til þessa höfum við horft á 5. gr. NATO-sáttmálans fyrst og fremst sem varnargrein okkur í hag. En nú er komið að okkur að veita af okkar takmarkaða framlagi til lausnar þessu ástandi. Styð ég ríkisstjórn okkar heils hugar í þeim efnum.

Ef við reynum aftur að leita skýringa á þeim ósköpum sem dunið hafa yfir þá verður ekki hjá því komist að viðurkenna að allt of oft hafa lönd fátæktar, óréttlætis, kúgunar og öfgastefna verið grunnurinn að hryðjuverkum. En við megum ekki einungis leita skýringa á þeim sviðum. Um allan heim, í austri sem vestri, norðri sem suðri, eru starfandi auðmagnskeðjur ólöglegra viðskipta, keðjur sem sýna ógnarvöld gagnvart þeim óupplýstu og fátæku. En gleymum ekki heldur þeim sem eru háðir þessum aðilum, t.d. vegna neyslu fíkniefna eða ólöglegra viðskipta. Þessir aðilar spyrja ekki um trúarbrögð, fátækt eða landamæri. Þeir eru starfandi í því hnattræna umhverfi sem við störfum í. Því er það enn brýnna að ná alþjóðlegri samstöðu um vel ígrunduð viðbrögð okkar við þeirri dæmalausu ógn sem við lifum í dag.