2001-10-03 15:19:50# 127. lþ. 3.1 fundur 35#B hryðjuverkin í Bandaríkjunum og viðbrögð við þeim, skýrsla utanríkisráðherra# (munnl. skýrsla), EKG
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 127. lþ.

[15:19]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það nálgast brátt mánuðinn frá því að voðaverkið í Bandaríkjunum átti sér stað. Það er dálítið sérkennilegt að hugsa til þess að svo langur tími sé liðinn, svo mjög er þessi atburður okkur í fersku minni sem fylgdust með honum, eins og heimsbyggðin öll nánast í beinni sjónvarpsútsendingu. Áhrifin eru, eins og hér hefur margoft komið fram í þessari umræðu, ólýsanleg. Fyrst og fremst kemur upp í hugann hinn mannlegi harmleikur þegar yfir sex þúsund manns, saklausir borgarar, týndu lífi vegna fólskulegra árása. En áhrifin eru líka þau sem hæstv. utanrrh. vakti réttilega athygli á. Áhrifin eru verst fyrir þá sem lakast standa í heimsbyggðinni sem verða nú fyrir því að heimsframleiðsla dregst saman og möguleikar þess fólks til þess að bjarga sér verða lakari. Þess vegna sjáum við að hér er ekki um að ræða stríð á milli mismunandi heimsviðhorfa, eins og stundum hefur verið haldið fram, heldur baráttuna á milli góðs og ills. Þar er línan auðvitað dregin. Við erum að fást við miskunnarlaust fólk sem eirir engu, síst af öllu mannslífum. Við verðum að nálgast það mál út frá því.

Það er ástæða til þess að vekja athygli á, eins og raunar kom fram í máli hv. 7. þm. Reykv. Össurar Skarphéðinssonar, þeirri hófstillingu, yfirvegun og varkárni sem Bandaríkjamenn hafa sýnt frá því að þessir óskaplegu atburðir gerðust. Það er ástæða til að undirstrika þetta vegna þess að menn hafa stundum rætt um stríðsæsingar í þessu sambandi, þegar Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra hafa lagt fram hugmyndir sem lúta að því að uppræta hin illu öfl hryðjuverkamannanna vítt og breitt um heiminn. Það er augljóst mál, hvernig sem á málin er litið, að vitaskuld þurfa menn að bregðast við. Vitaskuld þurfa menn með einum eða öðrum hætti að ráðast gegn þessum öflum. Það getur vel verið að við verðum að tryggja friðinn með því að fara með ófriði vegna þess einfaldlega að við erum að fást við ofbeldisfólk sem mun ekki láta það aftra sér að grípa aftur til þess að fórna saklausum mannslífum.

Virðulegi forseti. Í hinu ágæta tímariti The Economist var fyrir skömmu sagt að við gætum ekki tryggt friðinn nema að berjast fyrir honum. Ég óttast að þannig sé það núna. Við þurfum að uppræta þau hryðjuverkasamtök hvar sem þau eru í heiminum sem standa að þessum voðaverkum. Við eigum ekki að vera þau börn að ímynda okkur að það verði gert án þess að við þurfum að beita óhefðbundnum aðferðum.

Bandaríkjamenn hafa upp á síðkastið aflað sér sönnunargagna sem benda í vaxandi mæli til sökudólgsins bak við þessi voðaverk. Það hefur verið unnið skipulega að þessum málum til að koma í veg fyrir að hryðjuverkamönnunum takist ætlunarverk sitt, þ.e. að hryðjuverkin leiði til þess að fleiri mannslífum verði grandað og við sláum af hugmyndum okkar um frelsi og siðmenningu í okkar heimshluta.

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem hér hefur verið sagt. Íslenska ríkisstjórnin hefur haldið af mjög mikilli skynsemi á þessu máli og það er fagnaðarefni hve góð pólitísk samstaða hefur tekist á Alþingi og meðal þjóðarinnar um þetta mál. Ég hvet til þess að áfram verði haldið á þeirri braut varkárni og yfirvegunar sem hefur verið farin upp á síðkastið og íslenska ríkisstjórnin hefur svo sannarlega fylgt.