2001-10-03 15:26:28# 127. lþ. 3.1 fundur 35#B hryðjuverkin í Bandaríkjunum og viðbrögð við þeim, skýrsla utanríkisráðherra# (munnl. skýrsla), TIO
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 127. lþ.

[15:26]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Þessar umræður hafa verið mjög gagnlegar. Hér hefur komið fram mikil pólitísk samstaða um viðbrögð íslenskra stjórnvalda við þessum atburðum og stuðningur við yfirveguð viðbrögð Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra í Atlantshafsbandalaginu. Þessi stuðningur er mikils virði.

Enn fremur er athyglisvert að taka eftir því, en í raun ekki undarlegt, hversu djúp áhrif þessir hörmulegu atburðir hafa haft á umræðu og hugmyndir allra, þar með talinna þingmanna, um öryggis- og varnarmál.

Ég vil aðeins taka fram í sambandi við það sem hefur komið fram á þessum fundi, t.d. hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, sem hefur efasemdir um túlkun 5. gr. og hvar eigi að draga mörkin, að þó að þarna sé um að ræða nýja tegund ógnar og menn séu að bregðast við hættu sem þeir hafa ekki brugðist við áður þá held ég að öllum sé ljóst, þegar menn líta á umfang þessa atburðar, að það var gjörsamlega ómögulegt annað en líta á þennan atburð sem árás á Bandaríkin og sem árás á hinn siðmenntaða heim, enda held ég að árásin hafi verið hugsuð þannig. Ég held að grundvöllur hennar hafi einmitt verið að láta þessa árás líta út sem árás á hinn siðmenntaða heim. Þess vegna tel ég ekkert annað hafa komið til greina en að láta þennan atburð gera 5. gr. Atlantshafssáttmálans virka.