2001-10-03 15:37:02# 127. lþ. 3.2 fundur 53. mál: #A bótaábyrgð vegna tjóns af notkun loftfars vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða áþekkra atvika# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 120/2001, fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 127. lþ.

[15:37]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Mál það sem nú er tekið á dagskrá er náskylt þeirri umræðu sem hér var að ljúka, um hryðjuverkin í Bandaríkjunum. Hér er verið að mæla fyrir þingmáli sem ekki nokkrum manni hefði dottið í hug fyrir fáum vikum síðan að þyrfti að koma til kasta Alþingis með þeim hætti sem nú gerist, hvað þá þau atvik sem urðu þess valdandi að setja þurfti bráðabirgðalög 23. september sl.

Ég mæli, herra forseti, fyrir frv. til staðfestingar bráðabirgðalaga, um heimild ríkissjóðs til þess tímabundið að takast á hendur tryggingu eða endurtryggingu á bótaábyrgð sem flugrekendur kunna að baka sér gagnvart þriðja aðila vegna tjóns er hlýst af notkun loftfars vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða áþekkra atvika.

Umrædd bráðabirgðalög eru nr. 118/2001 og tóku gildi 23. september sl. eins og ég gat um.

Eins og nafn frv. ber með sér er gert ráð fyrir að ríkissjóði verði heimilt að takast um skamman tíma á hendur tryggingu eða endurtryggingu á bótaábyrgð sem íslensk flugfélög kunna að baka sér gagnvart þriðja aðila vegna tjóns af notkun loftfars sem stafar af hernaði, hryðjuverkum eða svipuðum aðgerðum. Hér er m.a. haft í huga það tjón sem flugvélar geta valdið ef þær lenda á byggingum eða öðrum mannvirkjum utan flugvalla.

Eins og þingheimi er kunnugt og ég vík nánar að hér á eftir, var aðdragandi nefndra bráðabirgðalaga mjög skammur. Þar sem brýna nauðsyn bar til þess að ríkissjóður gæti með skömmum fyrirvara tekist á hendur tryggingu eða endurtryggingu gegn þeim tjónsatburðum sem ég hef gert grein fyrir var ákveðið að setja bráðabirgðalög sem veittu ríkissjóði slíka heimild.

Í lána- og flugvélaleigusamningum íslenskra flugrekenda sem stunda flug til og frá Íslandi og erlendis er almennt kveðið á um að viðkomandi flugrekandi skuli vátryggður fyrir nánar tiltekinni lágmarksfjárhæð gegn hverju einstöku tjóni af völdum viðkomandi loftfars sem verði hjá þriðja aðila vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka og áþekkra atvika.

Eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum hinn 11. september sl. og vegna þeirrar óvissu sem ríkt hefur í kjölfarið sögðu vátryggingarfélög um allan heim upp slíkum ábyrgðartryggingum og tilkynntu flugrekendum að þau mundu aðeins veita lítinn hluta af þeirri vátryggingavernd sem þau hafa veitt fram til þess. Uppsögn trygginganna tók gildi á miðnætti 24. september sl. Í kjölfarið tilkynntu lánveitendur íslenskra flugrekenda og eigendur flugvéla sem þeir nota þeim að þeir litu svo á að afnám tryggingaverndarinnar fæli í sér vanefndir á viðkomandi láns- og flugvélaleigusamningum. Þó svo að líkur séu taldar á að fljótlega verði unnt að fá keyptar einhverjar viðbótartryggingar á alþjóðlegum tryggingamörkuðum var ljóst að það mundi ekki standa til boða áður en ábyrgðartryggingar flugrekendanna féllu úr gildi. Því lá fyrir að allt flug íslenskra flugrekenda til og frá landinu og erlendis mundi stöðvast á miðnætti mánudaginn 24. september sl. ef ekki tækist fyrir þann tíma að veita þeim nauðsynlegar viðbótartryggingar.

Flugfélög um allan heim hafa leitað eftir því hjá stjórnvöldum í heimaríkjum sínum að þau tækjust á hendur nauðsynlegar ábyrgðartryggingar og hefur sú leið víða verið farin. Á fundi efnahags- og fjármálaráðherra Evrópusambandsins hinn 22. september sl. var samþykkt að við ríkjandi aðstæður færi tímabundinn stuðningur ríkisstjórna sambandsins við flugrekendur ekki gegn meginreglum sambandsins og var við það miðað að slíkar stuðningsaðgerðir gætu staðið í einn mánuð.

Í ljósi þess að afar brýnt var að flugrekstur íslenskra flugfélaga stöðvaðist ekki og ekki var séð að koma mætti í veg fyrir það nema ríkissjóður kæmi þar að sem ábyrgðaraðili með einum eða öðrum hætti, var farin sú leið að heimila slíkt með bráðabirgðalögum, samanber áðurnefnd bráðabirgðalög, nr. 118/2001. Við undirbúning lagasetningarinnar var haft samráð við fulltrúa stjórnarandstöðunnar og lýstu þeir sig sammála þeirri leið sem farin var.

Ég vil nota þetta tækifæri, eins og forsrh. gerði í gærkvöldi, og þakka fulltrúum stjórnarandstöðunnar fyrir samvinnu þeirra í þessu máli.

Tekið skal fram að gildistími laga þessara er skammur, eða til 25. október nk. Það er mat þeirra sem að málinu komu að innan þess tíma muni flugrekendum standa til boða tryggingar hjá tryggingafélögum sem munu uppfylla tryggingaþörf þeirra.

Í frv. sem ég mæli hér fyrir er gert ráð fyrir sama gildistíma, þ.e. til 25. október nk. En ég tel góðar líkur á því að innan þess tíma verði búið að finna einhverja lausn á þessu máli þannig að í raun verði gildistími þeirra ábyrgða sem hér um ræðir skemmri.

Í kjölfar setningar bráðabirgðalaganna gerði fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs samkomulag við Sjóvá-Almennar hf. og Samtök norrænna flugvátryggjenda um endurtryggingarverndina. Samkomulagið gildir frá 24. september til 25. október 2001. Í samkomulaginu kemur m.a. fram að ríkissjóður sem endurtryggjandi ábyrgist Sjóvá-Almennum fyrir hönd Samtaka norrænna flugvátryggjenda sem frumvátryggjendum, fulla greiðslu á tjónum sem kunna að verða bótaskyld úr þeim vátryggingum sem Sjóvá-Almennar hf. munu gefa út fyrir hönd Samtaka norrænna flugvátryggjenda í framhaldi af gildistöku bráðabirgðalaga nr. 118/2001.

Einnig kemur fram að vátryggingarnar séu ætlaðar íslenskum flugrekendum og eru flugvélarnar og hámark tryggingaverndar fyrir hverja og eina flugvél tilgreint í fylgiskjali við samninginn. Í samkomulaginu er jafnframt gerð grein fyrir vátryggingaskilmálum þeirra vátrygginga sem samkomulagið nær til.

Sjóvá-Almennar hf. munu innheimta iðgjald fyrir frumvátryggingar fyrir hönd Samtaka norrænna flugvátryggjenda. Iðgjaldið er 25--50 bandarísk sent fyrir hvern farþega og fer fjárhæðin eftir þeirri tryggingavernd sem veitt er. Fyrir ábyrgðartryggingar loftfara í vöruflutningi verður innheimt tiltekið iðgjald fyrir frumvátrygginguna. Iðgjöldin verða innheimt í lok vátryggingatímabilsins, sem er að hámarki 30 dagar frá dagsetningu samkomulagsins og munu 85% af því renna í ríkissjóð sem gjald fyrir endurtryggingu ríkissjóðs samkvæmt samkomulaginu.

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnarskrárinnar skal leggja bráðabirgðalög fyrir Alþingi þegar það kemur saman á ný. Því er það sem ég mæli hér fyrir þessu frv. sem, eins og áður segir, er samhljóða lögum sem sett voru með bráðabirgðalögum 23. september sl.

Ég legg til að lokum, herra forseti, að máli þessu verði að umræðunni lokinni vísað til 2. umr. og hæstv. efh.- og viðskn.