2001-10-03 15:52:11# 127. lþ. 3.2 fundur 53. mál: #A bótaábyrgð vegna tjóns af notkun loftfars vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða áþekkra atvika# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 120/2001, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 127. lþ.

[15:52]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Fyrir hönd þingflokks Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, lýsi ég stuðningi við þetta frv. þótt ég hafi að sjálfsögðu fyrirvara við einstaka þætti þess. Ég tel að ríkisstjórnin hafi ekki átt annarra kosta völ en grípa til þess ráðs að setja bráðabirgðalög. Það er rétt sem fram kom að fulltrúar stjórnarandstöðu voru kvaddir til fundar. Samráðsfundur er hugsanlega heldur dýrt orð því fundurinn átti sér stað fáeinum mínútum áður en fjölmiðlum var tilkynnt um bráðabirgðalögin. En ég endurtek að tíminn var naumur og menn urðu að hafa skjótar hendur.

Á þessum samráðsfundi lýstum við því yfir að við teldum brýnt að þessar tryggingar næðu til allra hlutaðeigandi flugfélaga, Flugleiða, Atlanta, allra þeirra aðila sem hagsmuna eiga að gæta. Við lögðum áherslu á að þessar ráðstafanir væru til skamms tíma og kæmu til umfjöllunar á Alþingi.

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs fyrst og fremst til þess að lýsa stuðningi okkar við framgangsmáta ríkisstjórnarinnar í þessu máli.