Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 11:02:41 (58)

2001-10-04 11:02:41# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[11:02]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Inntak ræðu hæstv. fjmrh. var skattalækkanir eða skattbreytingar og sala á ríkisfyrirtækjum til þess að hafa áhrif á fjármál ríkisins. Þessar boðuðu skattbreytingar, sem hæstv. ráðherra gerði grein fyrir, eru í sjálfu sér pólitísk yfirlýsing og pólitísk stefnumörkun um það hvernig ríkisstjórnin hyggst láta mál þróast. Skattlagning hefur áhrif. Hún hefur áhrif á afkomu einstakra greina, hún hefur áhrif á einstaklinga og hún hefur líka mikil áhrif á t.d. búsetu fólks. Ef skattbreytingar leiða til þess að einni atvinnugrein er hyglað á kostnað annarrar eða að með þessum skattbreytingum séu atvinnugreinar í dreifbýli skattlagðar meira en áður var, þá er verið að taka pólitíska stefnu.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra, hann hlýtur að hafa velt því fyrir sér hvaða áhrif þessar skattbreytingar, þ.e. lækkun á tekjuskatti og hækkun á tryggingagjaldi, hafi á atvinnulíf í landinu, atvinnuvegi í dreifbýli, atvinnuvegi í þéttbýli, frumatvinnugreinarnar, þjónustuatvinnugreinarnar --- með þessu er verið að gefa pólitísk skilaboð. Getur hæstv. ráðherra gert grein fyrir því hvernig hann hefur metið þetta?