Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 11:07:24 (60)

2001-10-04 11:07:24# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[11:07]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir þær óskir hæstv. ráðherra að fyrirtæki geti skilað hagnaði. En ég heyrði líka að hæstv. ráðherra hefur ekkert velt þessu fyrir sér og að það kemur flatt upp á hann að velta þessu fyrir sér.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann hafi ekki spurt stjórnarformann Byggðastofnunar hvaða áhrif þessi skattbreyting hefði á atvinnulíf í landinu. Því að við vitum, hvort sem ráðherrann veit það eða ekki, að tryggingagjald leggst á laun og tryggingagjald leggst fyrst og fremst á lífeyrisgreiðslur sem atvinnurekandi greiðir launþegum, þannig að þetta er skattheimta á laun í landinu og þetta er skattheimta á þau fyrirtæki þar sem meginútgjöldin eru laun. Ég er hér með töflu, sem ég get sýnt hæstv. ráðherra við tækifæri, sem sýnir hve mörg fyrirtæki á landsbyggðinni greiða nú tekjuskatt. Þau eru ekki mörg. Meginhluti tekjuskattsins fellur til hjá fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu.

Hins vegar er miklu hærra hlufall af fyrirtækjum úti um land sem greiðir tryggingagjald. Þetta segir þann veruleika sem við erum í. Ég harma það, herra forseti, að heyra að hæstv. ráðherra virðist ekki hafa sett sig inn í þann veruleika sem þarna er verið að sigla inn í. Ég hélt t.d. að það hefði þá verið í lófa lagið að spyrja stjórnarformann Byggðastofnunar um hvaða áhrif þessi skattbreyting hefði á atvinnulíf í landinu, á ferðaþjónustuna sem er fyrst og fremst launagreiðandi, ekki tekjuskattsgreiðandi, landbúnaðinn, sjávarútveginn, frumvinnslugreinarnar, sem eru fyrst og fremst launagreiðendur en ekki tekjuskattsgreiðendur. Ég hlýt því, herra forseti, að harma hve þetta er illa undirbúið, og af svörum hæstv. ráðherra hvað hann hefur lítið gert sér grein fyrir hvað verið væri að fara út í.