Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 11:47:31 (68)

2001-10-04 11:47:31# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[11:47]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Eftir að hafa hlýtt á ræðu hæstv. fjmrh. áðan og stefnuræðu hæstv. forsrh. fyrr í vikunni og eftir að hafa farið yfir og lesið stefnumörkun sem fjárlögin bera með sér og ekki síst núna þær skattbreytingar sem boðaðar eru, kom mér í hug, herra forseti, hvort þessir ágætu ráðherrar sem bera ábyrgð á stjórn landsins, sem eiga að leiða okkur í jöfnuð og réttlæti, væru komnir á hreinar villigötur. Ég hef alvarlegar áhyggjur af þessu því að hvar sem við berum niður birtist þessi takmarkalausa trú, þessi mikla oftrú á mátt stærðarinnar, samruna og stækkun fyrirtækja. Og nú í skattamálunum á að gera sem best við þá efnamestu, líklega af því að í þeirra huga eru einmitt þessi stóru, efnuðu fyrirtæki sem geta greitt tekjuskatt og þeir einstaklingar sem geta greitt háa tekjuskatta máttarstólpar þjóðfélagsins. Það eru þeir máttarstólpar sem við gerum aldrei of vel við. Og ef við sjáum svigrúm og reyndar þó við sjáum ekki svigrúm eigum við samt að reyna að gera eins vel við þá máttarstólpa og við getum og meira en það.

Við sjáum þetta í íslensku atvinnulífi. Þar er markið sett á aukna samþjöppun, stækkun fyrirtækja og stækkun fyrirtækja um takmarkaðar auðlindir sem þýðir að önnur eru lögð niður. Og þetta afl fjármagnsins á að ráða ferð.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að minna hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn á að hógværð er dyggð og það er líka dyggð að vera smár. Við skulum vera minnugir þess litla vísukorns sem segir:

  • Oft velta þar fleiri völum úr leir
  • sem veikburða eru og smáir.
  • Þeir eiga líka rétt á athygli okkar, umönnun og hvatningu og að bera ekki síður með þeim byrðar alveg eins og hinum þessum auðugu máttarstólpum þjóðarfélagsins sem þetta frv. og þær skattatillögur sem hér eru lagðar fram, herra forseti, taka mið af að bæta hag. Það er svo mikilvægt fyrir þjóðarhaginn.

    Herra forseti. Menn tala um haustkvöld í efnahagsmálum Íslendinga. Jú, það haustar og sem betur fer er lífi okkar þannig farið að við lútum sveiflum náttúrunnar, við fáum vor, við fáum sumar og haust og við fáum vetur og hver árstíð hefur allt gott til síns og ekki vildum við vera án neinnar þeirra. En hitt finnst mér nokkuð bratt sagt, herra forseti, að hausta þurfi svo sérstaklega í íslenskum efnahagsmálum og að það þurfi að koma eitthvað svo sérstaklega á óvart. Hefur eitthvað gerst? Hefur eitthvað gerst síðustu tíu ár? Höfum við verið að skipta oft um ríkisstjórnir eða forustu í ríkisfjármálum? Nei, það er alveg það sama.

    Það voru að vísu alvarlegir hlutir sem gerðust þegar við fengum jarðskjálftana miklu á Suðurlandi í fyrra og vissulega er það svo þegar koma slíkar náttúruhamfarar að þá geta þær haft áhrif á efnahagslíf okkar. En ef frá eru talin slík tilvik verður að segjast eins og er að undanfarin ár hefur ríkisbúskapurinn búið við afar góð ytri skilyrði. Og í rauninni hefur ekkert breyst í því á þessu ári fyrr en þá kannski á allra síðustu mánuðum og allra síðustu vikum. Þó svo að gert hafi verið ráð fyrir að draga þurfi saman í fiskafla og vissulega er það alvarlegt, þá hefur það komið fyrir áður, og sá samdráttur er samt sem áður ekki svo tilfinnanlegur að hann eigi að valda neinum kollsteypum í sjálfu sér annað en að taka þarf fullt tillit til þess í efnahagsmálunum og í ríkisfjármálunum. Það er ekki fyrr en nú að við, bara á síðustu vikum, erum að upplifa mikla óvissu í alheimsviðskiptum og í öryggismálum vegna voðaverka sem unnin voru vestur í Bandaríkjunum og hafa áhrif á alla heimsbyggðina og er ekki fyrir séð. En þangað til höfum við í rauninni búið við ytri stöðugleika. Þess vegna hljótum við að verða að líta í eigin barm til að sjá hvað hefur gerst. Og mér finnst það, herra forseti, mjög bratt og ómaklegt þegar hæstv. ríkisstjórn eða hæstv. fjmrh. er að reyna að finna sökudólga aðra en hann og aðra en ríkisstjórnina fyrir því hvernig farið hefur í efnahagsmálum á þessu ári.

    Ég vil leyfa mér, herra forseti, að vitna til Viðskiptablaðsins 29. ágúst -- 4. september 2001, með leyfi forseta. Viðskiptablaðið fylgist með viðskiptum og ég veit ekki til þess að það sé neitt sérlega andsnúið ríkisstjórninni sem slíkri né heldur fylgjandi henni ef út í það er farið. En í blaðinu segir að mistökin sem ríkisstjórnin hefur gert á undanförnum árum, ríkisstjórn sem hefur haft meiri þingmeirihluta en nokkur önnur ríkisstjórn um langan tíma, séu eftirfarandi:

    ,,Erlend lántaka leiddi til mikils innflæðis fjármagns sem aftur varð til þess að gengi krónunnar styrktist. Seðlabankinn og ríkisvaldið hefðu átt að taka höndum saman um að koma í veg fyrir hækkun krónunnar t.d. með því að nota innflæðið til að greiða niður erlendar skuldir ríkisins.``

    Ríkisstjórnin hafði fullt vald á þessu öllu. Seðlabankinn laut forustu fyrst viðskrh. og síðan forsrh. og þeim var í lófa lagið að stýra þessu. En þeir létu það vera. Það var hlaupin einhver glýja í augun, kannski vorglampi af því sem menn voru að tala um haustið áðan. Ég minnist þess þegar maður lét kálfana út á vorin í sveitinni, þá hlupu þeir stundum út í skurð og út í dý. Ég sá það og það var oft bið að draga þá upp úr dýjunum aftur. En þeir voru orðnir hinir rólegustu að hausti.

    Ætli það sér kannski eins með þessa ríkisstjórn, að hún sést ekki fyrir þegar hún hleypur út úr fjósinu sínu á vorin, fer beint í dýin og skurðina. Áfram stendur í Viðskiptablaðinu, með leyfi forseta:

    ,,Afnema átti vikmörk krónunnar miklu fyrr en gert var í mars á þessu ári. En vikmörkin voru eins konar ríkisábyrgð á gengi krónunnar og urðu til þess að einstaklingar og fyrirtæki vanmátu þá gengisáhættu sem fylgir erlendum lántökum.``

    Hver réð yfir þessu? Hver réð yfir því að taka á þessu máli? Ríkisstjórnin? Ráðherrar sem fóru með efnahagsmálin, efnahagsstjórnina? Það var enginn jarðskjálfti þarna sem hafði áhrif þannig að þegar gengið var gefið frjálst, þegar vikmörkin voru afnumin, þá var eins og kæmi fram í máli hæstv. fjmrh. áðan að einhverjar náttúruhamfarir hefðu leitt til þess að vikmörkin voru afnumin og þess vegna fór allt svona illa. Ég hef aldrei heyrt slíka fjármálaspeki.

    Vikmörkin voru afnumin fyrir kraft þeirra sem fóru með efnahagsstjórnina og þeir eru gagnrýndir hér fyrir að hafa ekki gert það fyrr. En þeir eru líka gagnrýndir fyrir það sem þeir gerðu svo á eftir og gerðu ekki.

    Við ræddum á öðru þingi um rýmkun fyrir lífeyrissjóðina til þess að fjárfesta erlendis. Hér segir í Viðskiptablaðinu, með leyfi forseta:

    ,,Fara átti varlegar í að rýmka heimildir lífeyrissjóða til erlendra fjárfestinga. Það er eðlilegt að lífeyrissjóðirnir kaupi erlendar eignir, en sú þróun verður að ganga í smáum skrefum svo þjóðhagslegum stöðugleika sé ekki raskað.``

    Það kemur ekki fram hversu stór þáttur þetta er, en þessi lög voru sett af þeim meiri hluta sem hér ræður ríkjum. Síðan segir, með leyfi forseta:

    ,,Aðhald í ríkisfjármálum hefði mátt byrja mun fyrr, en fjárlögin 1998 og 1999 báru töluverðan keim af kosningunum sem þá voru.``

    Og síðan en ekki síst, herra forseti.

    ,,Aðilar í atvinnulífi og stjórnkerfi fóru inn í þessa uppsveiflu innblásnir af kenningum kenndum við nýja hagkerfið, sem urðu til þess að möguleikar tæknifyrirtækja sem framleiðslugeta hagkerfisins í heild voru stórlega ofmetnir. Það leiddi m.a. til bólu á hlutabréfamarkaði.``

    Herra forseti. Hver minnist ekki ræðu hæstv. fjmrh. fyrir ári síðan sem fjallaði nánast eingöngu um lofsöng til þessa nýja hagkerfis sem átti öllu að bjarga og stefnuræða hæstv. forsrh. hljómaði á það nákvæmlega sama? Já, það var vorleikur í þeim drengjunum þá.

    [12:00]

    Herra forseti. Það þurfti ekki að koma á óvart eftir þessa efnahagsstjórn árum saman, að kominn væri svo mikill viðskiptahalli. Allir efnahagssérfræðingar voru búnir að segja að gengið stæðist það ekki og það hlyti að koma að því að gengið sigi. Jafnmikill viðskiptahalli og verið hefur á undanförnum árum hlaut að leiða til brots.

    Hið alvarlegasta við viðskiptahallann er að í allnokkur ár þróaðist hér atvinnulíf sem byggðist og nærðist á viðskiptahalla. Við byggjum upp heilu borgirnar, hvort sem þær heita Smáralind eða Kringla, sem nærast á viðskiptahalla. Þó að það sé nauðsynlegt að byggja verslun þá er varhugavert að byggja heilu atvinnugreinarnar og möguleika fólks á viðskiptahalla. Það hlýtur að koma að því að það gangi ekki lengur.

    Ofan á þetta allt bætist síðan þetta mikla vor, þetta góðæristal. Auðvitað voru góð ytri skilyrði en það var ástæðulaust að ala svo á væntingum langt umfram það sem hið góða ástand gaf. Það leiddi til offjárfestinga og ofneyslu.

    Ég má til með, herra forseti, að koma inn á þetta. Hæstv. fjmrh. leit á það eins og náttúruhamfarir að vikmörk gengisins hefðu verið gefin frjáls. Þetta hefur allt verið fullkomlega undir stjórn og á ábyrgð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Það sem við upplifum nú í því sem menn kalla samdrátt er fullkomlega á hennar ábyrgð.

    Vík ég þá aftur að fjárlögunum sem eru hér til umræðu. Það hefur verið fjallað um það í ræðum að forsendur fjárlaganna væri nánast hvergi að finna eða þær faldar aftarlega í texta frv. Og það verður að segjast eins og er, herra forseti, að mér finnst undirbúningi fjárlagagerðarinnar sjálfrar og framlagningu frv. ábótavant. Mér finnst að fjárln. eigi að koma miklu fyrr að gerð fjárlagafrv. og undirbúningi fjárlaga, fremur en að hún fái frv. í hendur eins og við hér almennt og síðan sé unnið úr því. Fjárln. á að koma að þeirri vinnu miklu fyrr að mínu mati. Það er þingið í heild sem vinnur að fjárlögum en ekki bara meiri hlutinn, ekki bara ráðherrarnir og framkvæmdarvaldið. Þess vegna er mikilvægt að svo verði.

    Nú þegar í ljós kemur að framkvæmdarvaldið sjálft er farið að setja sér eigin efnahagsforsendur þá erum við komnir á hálan ís. Þá er ég ekki að tala um það út frá því að þar sé ekki nógu vel unnið heldur eiga að vera slík skil á milli framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins að löggjafarvaldið geti með sjálfstæðum hætti ákveðið og metið þær efnahagsforsendur sem vinna þarf út frá. Ég tel því afar mikilvægt, herra forseti, að þingið verði styrkt, hugsanlega þannig að hluti Þjóðhagsstofnunar eða sú starfsemi sem þar er fari beint undir þingið og verði þinginu og fjárln. til aðstoðar við að ganga frá fjárlögum, sem gæti vel verið.

    Athugið bara eitt: Ef það gerðist nú að fjmrn. eitt hefði þetta vald, það verkefni að undirbúa efnahagsforsendur og kveða þar úr um og svo allt í einu segði fjmrn: Ja, það verður halli eða eitthvað sem ekki passaði. Ja, yrðum við þá ekki bara að leggja fjmrn. niður? Stæði þá ekki þingið frammi fyrir því, ef einstakir ráðherrar hegðuðu sér þannig að öðrum í ríkisstjórninni félli það ekki í geð, að þá yrði á bara að leggja það niður, þó opinbert sé?

    Það er ekki hægt annað en að minnast á sölu ríkiseigna. Sala ríkiseigna er grundvöllur þessa fjárlagafrv. eins og það hefur verið lagt fram, bæði fyrir fjárlög á þessu ári og hinu næsta. Herra forseti, það er hvorki traustur botn í þessu frv. né fjárlögum þessa árs því að enn er ekki búið að selja þær ríkiseignir sem þó hafði verið gert ráð fyrir að selja til að tryggja þá útkomu fjárlaganna sem gert hafði verið ráð fyrir. Það átti að selja Landssímann en sem betur fer, að mínu mati, þá hafnar þjóðin því, enn sem komið er, að Landssíminn verði seldur. Þjóðin á enn þá Landssímann og vill hafa svo áfram og vill ekki setja hann á markaðstorg til að þjóna þar hagsmunum fjármagnsins.

    Ég vil minna á, í sambandi við Landssímann, að þær yfirlýsingar voru gefnar á sl. vetri eða fyrirvari, þegar lög um heimild til þess að selja Símann voru samþykkt, að tryggja ætti að ákveðin þjónusta, grunnþjónusta í gagnaflutningum, væri komin út um allt land áður en Landssíminn yrði seldur. Það átti líka að vera búið að jafna verð á gagnaflutningum um allt land áður en hann yrði seldur.

    Ekkert af þessu liggur fyrir. Nú er búið að ákveða að selja fyrirtækið og í fjárlögum er hvergi gert ráð fyrir fé sem ætlað væri að sinna þeirri ábyrgð, sem þó hafði verið rætt um að ætti að vera fyrir. Nú, þegar við búum við mikið óöryggi í heimsmálum, í öryggismálum og heimsviðskiptum, þá ætti hver heilvita maður að sjá að þetta er ekki tíminn til að selja ríkiseignir. Þetta er ekki tíminn til að selja eitt mesta öryggisnet landsins, Landssímann. Þetta er heldur ekki tíminn til að selja aðrar mikilvægar ríkiseignir úr landi eða hvert sem er.

    Herra forseti. Fjárlagafrv. sem byggir á sölu ríkiseigna, eigna sem ég vil halda fram að velflestir landsmenn séu andvígir því að selja, fjárlagafrv. sem byggir á því að hér verði óbreytt gengi og því að verðbólga fari lækkandi --- þó að við óskum okkur þess --- er byggt á mjög veikum grunni.