Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 12:28:39 (70)

2001-10-04 12:28:39# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., EOK
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[12:28]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Við 1. umr. um fjárlögin 2002 er nú eins og reyndar oft áður við fjárlagaumræðu dálítið erfitt að henda reiður á málflutningi stjórnarandstöðunnar, átta sig á því hvað hún vill og hvað hún vill ekki. Mér sýnist að þetta hafi mest farið í sagnfræðilega upprifjun á því hvað hafi gerst í efnahagsmálum og hvað hafi ekki gerst en lítið verið rætt efnislega um þennan lagabálk. Stjórnarandstaðan hefur gert heilmikið úr því að hér sé um hækkun rekstrarkostnaðar að ræða, að rekstrarkostnaður hafi hækkað, laun hafi hækkað, verðbólga hafi aukist og gengið hafi fallið.

Ég get svo sem eins og þeir líka farið í nokkra sagnfræði, herra forseti. Við 1. umr. fjárlaga í fyrra, svo og við 2. og 3. umr. fjárlaga í fyrra, gerði ég það að meginmáli að til þess að fjárlögin gætu staðist skipti öllu að launaþróun ríkisstarfsmanna yrði hin sama og á hinum almenna markaði. Þessu var fálega tekið, sérstaklega af stjórnarandstöðunni, og tók nú enginn undir.

[12:30]

Hitt er annað mál að í nærri allt fyrrahaust, sérstaklega meðan á hinu óheppilega vonda verkfalli kennara stóð, var vikulega efnt til upphlaups hér í þinginu. Hæstv. fjmrh. og hæstv. menntmrh. lágu undir ámælum. Fyrir hvað? Jú, fyrir að láta ekki undan kröfunum um 60--80% kauphækkun. Það var talið alveg forkastanlegt að ekki skyldi látið undan þessum kröfum. Það fór ekki á milli mála að öll stjórnarandstaðan stóð saman að þessu. Meira að segja formaður Frjálslynda flokksins lét ekki sinn hlut eftir liggja, herra forseti. Hann taldi í þeirri umræðu að sýnt væri að engir aðrir ríkisstarfsmenn mundu fara fram með kröfur eins og kennarar, að aðeins laun kennara ættu að hækka. Hann vildi þá láta líta þannig út að hann væri fæddur í gær. Það var valkosturinn sem hann taldi henta sér þá.

Hvernig fór þetta svo? Jú, það var samið. Það var samið við alla. Því miður var það þannig. (SJS: Vildirðu hafa þá enn í verkfalli eða hvað?) Því miður var það þannig að samið var um miklu hærri kauphækkanir til ríkisstarfsmanna en á hinum almenna vinnumarkaði. Ekki það að hinn ágæti ríkisstarfsmaður eigi ekki skilið að fá góð laun. Staðreynd lífsins er bara sú að þeir sem vinna hjá ríkinu geta ekki til langframa, í heildina talið, búist við að kauphækkanir þeirra verði meiri en framleiðsluatvinnuvegirnir, þeir sem þurfa að standast samkeppni við útlönd og standa undir þessu þjóðfélagi, geta borið. En staðreyndin er sú, þannig fór þetta, að laun ríkisstarfsmanna hækkuðu meira en annarra.

Og svo koma þessir sömu menn hér og hneykslast á því að ríkið hafi aukið útgjöld sín. Þeir hneykslast á því. Hvernig skyldi standa á því að íslenska krónan lét undan síga á umliðnum missirum? Ætli það hafi ekki verið vegna þess að framleiðsluatvinnuvegirnir stóðust ekki þá skráningu. Markaðurinn dæmdi það svo. Markaðurinn dæmdi það. Krónan er frjáls og ræðst af markaði. Það er rétt að menn hafi þetta í huga þegar þeir hneykslast á ríkisútgjöldum.

Staðreyndin er sú, ekki ætla ég að mæla því á móti, að rekstrarkostnaður hins opinbera er allt of mikill. Því miður. Hann er allt of mikill. Við verðum að gera okkur grein fyrir því og það er hin ömurlega staðreynd sem við stöndum frammi fyrir. Við höfum ekki getað hamið útgjöld hins opinbera á umliðnum árum, alls ekki, þrátt fyrir mikla og góða viðleitni. Menn hafa lítið gert af því hér í dag að ræða fjárlagafrumvarpið, en ég skal t.d. benda á útgjöldin til heilbrigðismála.

Útgjöld íslenska ríkisins til heilbrigðismála eru orðin gríðarlega mikil. Þau eru á áttunda tug milljarða. Þrátt fyrir að við höfum rætt þetta, farið ofan í það ár eftir ár og haft uppi miklar meiningar um að við vildum staldra við og reyna að ná tökum á þessu, þá er staðreyndin sú að okkur hefur ekki tekist það. Svo háttar til hér á Íslandi og reyndar í flestum Evrópuríkjum að stighækkandi kostnaður við heilbrigðismál, síaukinn kostnaður, er efnahagsvaldamál, bæði á Íslandi og í flestum öðrum ef ekki öllum OECD-ríkjunum. Svo hefur verið lengi.

Ég minni á að þetta var niðurstaðan fyrir tíu árum. Fyrir tíu árum gerðu flest Evrópuríki sér grein fyrir því að þau yrðu að taka á þessum síaukna kostnaði við heilbrigðismál. Það var Evrópudeild WHO, sem staðsett er í Kaupmannahöfn, sem hafði forustu um þetta og sneri sér til OECD. Þessar stofnanir hafa unnið að því í tíu ár undir leiðsögn Alþjóðabankans að reyna að stemma stigu við síhækkandi kostnaði, sérstaklega í hátæknigreinum heilbrigðismálanna, sem er alveg hreint að kæfa okkur.

Sum ríki Evrópu hafa þegar náð árangri. Ég vil nefna Þýskaland. Ég vil nefna Holland. Ég vil nefna Belgíu og sérstaklega vil ég nefna Frakkland. Frakkland hefur náð heilmiklum árangri í að stemma stigu við kostnaði. Ég vil nefna Frakkland vegna þess að í fyrra útnefndi Alþjóðabankinn Frakkland sem það ríki sem besta stjórn hefði á heilbrigðismálum sínum og næði þar bestum árangri þrátt fyrir að þeir eyddu alls ekki meira en aðrar þjóðir til heilbrigðismála. Þeim hefði tekist að stöðva sífellda aukningu framlaga til heilbrigðismála.

Ég held að rétt sé í þessari umræðu að benda hæstv. heilbrrh. á að athuga hvort ekki sé kominn tími til þess að við fáum aðstoð frá OECD og WHO. (Gripið fram í: Fá hann til að vera hérna við.) (SJS: Ætlið þið ekki að taka ráðuneytið?) Það er engin minnkun fyrir okkur Íslendinga að fá ráð frá þeim sem náð hafa árangri, árangri eins og margar Evrópuþjóðir. Við skulum horfast í augu við að við erum ekki að ná árangri í heilbrigðismálunum. Við skulum bara viðurkenna það. Þetta er langstærsti hluti útgjaldanna sem við erum að fást við í dag. Það sem skiptir máli gagnvart ríkisfjármálunum er nákvæmlega það sem hv. þm. Sverrir Hermannsson sagði áðan, að koma böndum á útgjöldin. Það var hárrétt.

Menn hneykslast og tala mikið um forsendur fjárlaga, hvort þar geti verið villa um hálft prósent eða eitt í spám manna. Við höfum nú uppli fað það undanfarin ár að fram hafi komið margra prósenta mismunur, þegar dæmin hafa verið gerð upp, á því sem raunverulega hefur gerst og því sem menn ætluðu í spám sínum og þjóðhagsspá. Við skulum því ekki hafa miklar áhyggjur af því vegna þess að við erum, um leið og við samþykkjum fjárlög, okkar eigin gæfu smiðir og við höfum verulega mikið um það að segja hvernig efnahagsmálin þróast og ríkisútgjöldin ráða þar mjög miklu um.

Ef það er eins og hinir svartsýnu --- svartsýnir menn geta oft verið raunsæir --- vilja halda fram, að ýmis vá sé fram undan þá ætla ég ekki að gera lítið úr því. Við skulum ekki neita að hlusta á það. Svo kann að vera. Heimurinn er allur eins og kvika, a.m.k. þessar vikurnar a.m.k. og síðustu mánuði. Hið góða skaðar ekki og sé réttara að miða við svartsýnni spár þá skiptir öllu fyrir Alþingi að koma böndum á útgjöld sín því rekstrarkostnaður ríkisins skiptir höfuðmáli og það hvernig hann þróast. Hann má ekki halda áfram að vaxta sem hlutdeild vergrar landsframleiðslu. Það skiptir máli og þannig getum við haft áhrif á gang efnahagsmála á Íslandi. Það eigum við að gera. (SJS: Sú lægsta á Norðurlöndum hér.) Það skiptir í sjálfu sér ekki máli við hvað við miðum sem hlutfall. Ef rekstrarkostnaðurinn eykst þá erum við að taka frá einhverjum öðrum. Það er það sem skiptir máli. Við þurfum að vernda efnahagslífið. Við þurfum sannarlega á því að halda burt séð frá því hvort hagvaxtarspáin er mínus 0,3 eða plús 1. Það allt of lítill hagvöxtur fyrir framtíðaróskir og vilja þessarar þjóðar.

Hvernig sem við lítum á málið þá þurfum við á því að halda að gera allar þær ráðstafanir sem við getum til að auka hér framleiðsluna og gera starfsumhverfi atvinnurekstrarins betra. Við gerum það best með því að gæta vel að útgjöldum ríkisins. Í þessu fjárlagafrv. var t.d. gert ráð fyrir að útgjöldin yrðu lækkuð um 3 milljarða frá því sem menn ætluðu í fyrsta ramma fjárlaganna sem gengið var frá í aprílmánuði. Ég tel að sá niðurskurður sé síst of mikill. Það er vel hægt að skera niður ríkisfjármálin enn meira. Ríkisstofnanirnar og ráðuneytin eru vel haldin. Það er þykkt fitulag þar víða (Gripið fram í.) og má greinilega ná því niður. En menn venjast því eyðslustigi sem ríkir. Menn venjast því og verða samdauna því hvar sem er. Það skiptir ekki máli hvað fyrirtækin heita eða hvað þau gera. Þau verða samdauna því. Við höfum alls kostnað sem sannarlega má taka á.

Ég vildi óska þess fyrir hönd Alþingis, nú þegar við hefjum vinnu við fjárlagafrv., að okkur beri gæfa til að koma í veg fyrir það sem oftast hefur áður gerst, að í meðförum þingsins hafa fjárlögin hækkað, að vísu mest fyrir atbeina viðkomandi ríkisstjórnar. Ég ætla bara að vona að ríkisstjórnin beri gæfu til að sitja á strák sínum og koma ekki með hækkunartillögur meðan við ræðum fjárlagafrv. Ég ætla að bera hér fram þá ósk til handa okkur á Alþingi að við verðum þá menn til þess að hækka ekki heldur fjárlagafrv. Það væri meiri manndómur í því fólgin að við kæmum hér með lækkunartillögur um rekstrarkostnað ríkisins. Þannig leggjum við íslensku atvinnulífi mest til og best.