Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 12:48:04 (74)

2001-10-04 12:48:04# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[12:48]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. endurtók ósannindi sín hérna áðan. Ég réðst ekki á kennara en ég gerði athugasemdir við það að þeir sem styðja launakröfur í þjóðfélaginu verða að gera sér grein fyrir því að aukin laun hafa í för með sér aukinn kostnað. Stjórnarandstaðan, eins og aðrir, verður að vera sjálfri sér samkvæm í þessu máli eins og öðru. Það var þetta sem ég gerði að umræðuefni úr því að menn vildu fara í sagnfræði um það hver afstaða manna hefði verið í efnahagsmálum. Ég rifja það upp að ég varaði við þessu í öllum umræðunum um fjárlög í fyrra. Ég varaði sérstaklega við því og það tók enginn undir með mér, hvorki samfélagar mínir né stjórnarandstaðan að vísu. Það skal viðurkennt. En ég rifja þetta hér upp.

Ég gæti komið hér --- og á vonandi eftir að gera það einhvern tíma --- með tillögur um mikinn niðurskurð í ríkisrekstrinum. (Gripið fram í.) Ég talaði um ríkisreksturinn, hv. þm., um ríkisreksturinn, ekki um fjárfestingar ríkisins, um ríkisreksturinn. Ég get komið með margvíslegar tillögur. Ég þarf þó ekki að fara að hætti gamalla komma að finna endilega ástæðu til að spara þegar orðið NATO heyrist. Þegar þeir heyra orðið NATO eru þeir tilbúnir til að standa að lækkuninni. En ég er alveg sammála hv. þm. um að flestar af þeim ráðstefnum sem ríkið stendur fyrir, ríkisstofnanir og ráðuneyti, helmingurinn af þessu er bara net til að veiða vindinn. Það má leggja niður helminginn af öllum ráðstefnum sem ríkið og opinberar stofnanir standa fyrir og tvo þriðju af öllum fundunum. Ég get alveg staðið að því hér til að ítreka það að ég get verið sammála --- og eru þá ráðstefnurnar eða fundirnir ekki sérstaklega bundnar NATO.