Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 13:42:09 (77)

2001-10-04 13:42:09# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[13:42]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Okkur er skammtaður nokkuð naumur tími og því gefst ekki tækifæri til að fara ítarlega í málin.

Ég vil byrja á að segja að framsetningin á fjárlagafrv. er með ágætum, skilmerkilega sett fram. Ég sakna þess að ekki skuli farið ítarlegar í skuldastöðu ríkis og sveitarfélaga og reyndar þjóðarinnar í heild sinni eins og gert hefur verið á skilmerkilegri hátt í fyrri fjárlagafrv. Mér finnst það hins vegar ekki vera undrunarefni í ljósi þess hvert stefnir í þeim efnum, í ljósi þess hvert stefnir varðandi skuldastöðu íslensku þjóðarinnar.

Fram til þessa hefur ríkisstjórnin gumað af árangri sínum í að færa niður skuldir ríkisins og það er rétt að árangur er þar talsverður. Ef við berum saman skuldastöðu ríkissjóðs frá því um miðjan 10. áratuginn við það sem nú er, þá hafa skuldir ríkisins verið færðar verulega niður. Um miðjan áratuginn eða árið 1995 námu skuldir ríkissjóðs 51,5% af vergri landsframleiðslu en samkvæmt áætlunum er gert ráð fyrir að þær verði komnar niður í 39,2% á þessu ári og enn lægri á því næsta. Skuldir ríkissjóðs risu mjög hátt um miðjan áratuginn. Sem hlutfall af vergri landsframleiðslu voru þær lægri árið 1990 og námu þá 32,4%.

Það hefur verið áhyggjuefni að á sama tíma og ríkið hefur fært niður skuldir sínar hafa skuldir sveitarfélaganna vaxið. Þannig námu skuldir sveitarfélaganna árið 1990 4,3% af vergri landsframleiðslu en eru samkvæmt áætlunum 7,1% á þessu ári. Skuldir hins opinbera, ef við berum þær saman í upphafi 10. áratugar og nú á árinu 2001, hafa vaxið verulega eða úr 36,5% í 46,3%. Þessar skuldir eða þessar hlutfallstölur eru síðan ívið lægri ef skoðaðar eru nettóskuldir hins opinbera. Þær námu 19,1% árið 1990 en eru 27,5% af vergri landsframleiðslu árið 2001.

En lítum nú á skuldir heimilanna og lítum á skuldir fyrirtækjanna í landinu því að þar hefur orðið geigvænlegur vöxtur. Skuldir heimilanna sem hlutfall af vergri landsframleiðslu árið 1990 námu 46,3% en eru samkvæmt áætluðum tölum Þjóðhagsstofnunar 90,9% árið 2001. Og skuldir fyrirtækjanna sem hlutfall af vergri landsframleiðslu voru 71,6% árið 1990 en eru samkvæmt áætlunum Þjóðhagsstofnunar 140,9% árið 2001.

[13:45]

Hvað er verg landsframleiðsla? Hún mælir umfang efnahagsstarfseminnar og stendur nú í 742 milljörðum kr. Hvað eru skuldir fyrirtækjanna háar þegar við þýðum þessar hlutfallstölur yfir í beinharða peninga? Við erum að tala um yfir 1.000 milljarða kr. Við erum að tala um það, og það hlýtur að verða okkur öllum til umhugsunar, að skuldir þjóðarinnar eru nú orðnar 259% af vergri landsframleiðslu og hafa ekki verið hærri. Ég hef sett þessar tölur upp í stöplarit sem sýnir með hvaða hætti skuldir íslensku þjóðarinnar hafa vaxið á síðustu árum og útkoman er geigvænleg. Hún er mjög alvarleg. Sú staða sem við búum við nú er mjög alvarleg en þær tölur sem hér er um að tefla eru hærri en við erum vön að nefna í umræðu um efnahagsmál.

Áætlaðar skuldir heimilanna á þessu ári eru 675 milljarðar kr. en heildarskuldir þjóðarinnar nema nú 1.925 milljörðum kr. Ég furða mig á því að í fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar skuli ekki vera vikið að þessu. Hér er fylgirit sem kemur með fjárlagafrv. sem heitir Stefna og horfur. Hvers vegna í ósköpunum er ekki farið yfir þessar stærðir? Þykir mönnum ekki skipta máli að taka þessa geigvænlegu stöðu til umræðu á Alþingi þegar skuldir íslensku þjóðarinnar eru 259% af vergri landsframleiðslu? Við erum að tala um 2.000 milljarða kr. Það er ekki að undra að þær kröfur rísi hjá atvinnulífinu og heimilunum í landinu að vextir verði lækkaðir. Við stefnum öllu fjármálakerfi og þar með efnahagslífi þjóðarinnar í voða verði ekki stigið gætilega til jarðar. Maður furðar sig á því að ríkisstjórnin skuli ekki leggja meira kapp á að fá þessu framgengt fremur en að grípa til þeirra skattkerfisbreytinga sem nú hafa verið boðaðar.

Að sönnu hefur þó ríkisstjórnin lagt á það áherslu, hún verður að njóta sannmælis að því leyti, að vextir verði færðir niður. En ég velti því mikið fyrir mér hvort þær efnahagsaðgerðir sem nú hafa verið boðaðar séu hyggilegar við þessar aðstæður. Fyrirtæki sem búa við þessa geigvænlegu skuldastöðu borga oft og tíðum tugi milljóna í vexti og afborganir af lánum. Þessi fyrirtæki eru ekki að skila hagnaði. Það eru hins vegar til fyrirtæki í landinu sem hafa hagnast vel og það er til þeirra sem ríkisstjórnin horfir með skattkerfisbreytingum sínum.

Ég velti því líka fyrir mér hvaða afleiðingar það kemur til með að hafa þegar ríkisstjórnin lækkar skatta með þessum hætti. Við skulum ekki gleyma því hvar borið er niður. Það er ekki verið að breyta skattleysismörkunum, sem ekki hafa fylgt launaþróun í seinni tíð. Þegar til langs tíma er litið þá hafa skattleysismörkin ekki fylgt launaþróun. Það er ekki verið að létta skattbyrði af tekjulægsta fólkinu í landinu, ekki af öryrkjum eða láglaunafólki. Það er fyrst og fremst verið að þjóna fyrirtækjum sem sýna verulegan hagnað. Mér finnst athyglisvert að bera saman tvenns konar stærðir í þessu tilliti. Annars vegar er hægt að bera saman umfang velferðarþjónustunnar á Íslandi við það sem gerist hjá grannþjóðum okkar á Norðurlöndum og innan OECD. Þar stöndum við lakar að vígi. Við verjum hlutfallslega minna fjármagni til velferðarþjónustu en Norðurlandaþjóðirnar gera, svo að dæmi sé tekið. Sé síðan litið á skattheimtuna þá er hún minni á Íslandi, ekki að undra vegna þess að við verjum minna fé til þessarar starfsemi. Það er minni skattheimta á Íslandi en gerist á Norðurlöndunum og minni skattheimta en gerist að meðaltali innan OECD. Tekjuskattar einstaklinga á Íslandi nema 11,9% af vergri landsframleiðslu. Á Norðurlöndunum er þessi tala 17,5%. Í Evrópuríkjum OECD er hún reyndar ívið lægri, 10,2% og er 10,8% hjá ESB.

Fyrirtækjaskattar á Íslandi eru talsvert lægri en gerist bæði á Norðurlöndum og innan OECD, eða 1,2% hér á móti 3,5% af vergri landsframleiðslu á Norðurlöndum og 3,2% í Evrópuríkjum OECD. (Forseti hringir.)

Ég hef að sjálfsögðu hvergi nærri lokið máli mínu en tími minn er á þrotum. Ég leyfi mér hér með að biðja um orðið að nýju.